Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, nóvember 27, 2006

Note to self:
Volvoinn er ekki hljóðeinangraður og þess vegna ekki sniðugt að hlusta á ömurlegt píkupopp og syngja með þegar þú ert á rauðu ljósi.


Annars, kannski pínu tengt þessu, þá gerði ég mér ferð upp í Mosfellsbæ í gær sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema hvað að á leiðinni heim hlustaði ég einmitt á útvarpið, eins og gengur og gerist, og þar var á ferðinni þáttur þar sem að fólk gat hringt inn í einhvern gaur sem sagðist vera skyggn (eða hvað það nú kallast). Ég verð að segja eins og er að ég fyrirlít allt svona kjaftæði. Hvaða rugl er það að einhver gaur geti bara náð sambandi við dáið fólk? Þetta er líka svo fáránlegt alltaf, þeir ná alltaf bara geðveikt lélegu sambandi og dána fólkið talar bara í einhverjum gátum...

Miðill: "Já, ég er hérna að ná sambandi við mann. Gamlan mann. Er afi þinn dáinn?"
Hlustandi: "neeei... en kærastinn minn var að missa afa sinn!"
Miðill: "Já! Það passar. Þetta er hann. Hann talar um að það sé mikill stresstími að fara í gang hjá þér og kærastanum þínum og þið verðið að passa ykkur að halda sönsum."
Hlustandi: "Já ok. Athyglisvert. Já! Þetta passar allt saman! Það eru einmitt að koma próf hjá okkur í skólanum! Þetta er alveg ótrúlegt."
Miðill: "Já, jújú, nákvæmlega. Hann segir líka að þið þurfið að passa upp á peningana ykkar. Hefur það einhverja merkingu fyrir þig?"
Hlustandi: "Hmmm... já! Hann hlýtur að vera að meina í sambandi við jólin! Það passar akkúrat, þau eru alveg að koma!!"
Miðill: "Akkúrat, akkúrat... hann talar líka um eitthvað rautt. Rautt, rautt, áttu einhverja rauða flík?"
Hlustandi: "Já! Ég á rauða flíspeysu!"
Miðill: "Já, hann er að segja að þú eigir að nota hana oftar. Það sé orðið kalt í veðri... en ég er að missa sambandið við hann... já, jæja, ég þakka þér fyrir að hringja elskan. Vonandi að þú hafir haft gagn af þessu og guð geymi þig."
Hlustandi: "Já, takk! Þetta var alveg frábært! Ótrúlega nytsamlegar upplýsingar sem ég hefði aldrei getað fengið nema frá dánu fólki! Geðveikt! Takk!"

Nokkurn veginn svona var símtalið sem ég hlustaði á og þetta staðfesti bara þá trú mína að þetta miðilsdót er bara algjört kjaftæði. Ég vil ekki vera með mikinn hroka en ég er yfirleitt frekar efins varðandi fólk sem að trúir á svona. Samt fínt útvarpsefni að hlusta á ruglið sem vellur upp úr svona miðlum, þegar maður er jafn viss og ég um að þeir séu bara að bulla. Ég vil samt ekki alveg útiloka að einhvers staðar í heiminum sé einhver sem geti náð sambandi við látið fólk en ég held samt að nær allir þeir sem gera út á það að vera miðlar séu bara í bullinu.

En hvað segja lesendur? Ekki vera feimin þótt ég sé með þessa stæla hérna. Segið mér! Hafið þið farið á miðilsfund? Eruði að kaupa það að fáir útvaldir hér á jörðu geti náð sambandi við hina látnu? Hefur enginn þeirra haft samband við jesú og Júlíus Sesar og einhver svona celeb?


p.s. gaman að segja frá því að í gærkvöldi horfðum við Dagný smá á Friends í tölvunni minni. Ég mætti svo galvaskur í dag með tölvuna mína á bókasafnið í VR2 þar sem verkfræði- og raunvísindanördar lesa bækurnar sínar, kveikti á henni og þá glumdi náttúrulega rödd Chandlers yfir allt vegna þess að það hafði verið þáttur í gangi þegar tölvan hibernateaði í gærkvöldi. Tölvan mín var svo að sjálfsögðu svaka lengi að vinna úr þeirri ákvörðun minni að slökkva á hljóðinu. Þvílíkt aulamóment.

Allavega... later!

mánudagur, nóvember 20, 2006

Djöfulsins kjaftæði. Haldiði ekki bara að Herkúlesinn sjálfur, lýsisþambarinn og hinn dæmalaust heilbrigði ég, sé ekki bara orðinn veikur. Jájá, bara með kvef og hálsbólgu og hósta og hausverk og hita. Þá kemur sér illa að vera í háskóla því þar er ekki reiknað með 2 veikindadögum í mánuði hjá manni eins og hjá vinnandi fólki. Neionei, maður verður að gjöra svo vel að rembast við einhver heimadæmi og lesa fræðibækur jafnvel þótt það sé að sjóða á hausnum á manni.

Kók, DVD og nammi er vel þegið svo að ég jafni mig einhvern tímann.

Annars sáttur að sjá loksins snjó hérna í höfuðborginni. Sáttur líka að vera kominn á nagla þegar þetta skall allt í einu á á laugardagskvöldið og ég var að skutlast heim með Dagnýju og vinkonur hennar um nóttina. Í tilefni af snjókomunni fékk ég að hlusta á jólalög sungin með drafandi röddum þessara yngismeyja og var það afar skemmtilegt. Fékk mig til að hlakka til jólanna sem eru víst ekki svo langt undan. Aðeins sekúndum síðar var mér hins vegar hætt að líða jafn vel því ég fattaði að áður en að nokkur jól koma, þá koma jólapróf. Þau eru ekki jafn hress. Þess vegna ákvað ég að byrja bara að undirbúa mig af hörku fyrir prófin. Líkaminn minn var ekki alveg að fíla þetta attitjúd hjá mér þannig að hann ákvað að verða veikur svo ég gæti ekki lært jafn vel.


--setja tittur hér svo fólki leiðist minna--

Annars var minns náttúrulega að fylgjast spenntur með Eddunni í gær. Helvíti ósáttur með að Sigtið skildi ekki vinna til verðlauna, þó að Stelpurnar séu svo sem fyndnar líka. Annars er þetta náttúrulega alltaf svoldið spes að allar íslenskar kvikmyndir séu alltaf tilnefndar til Eddunnar. Svo eru svo margar kategóríur að maður fær að sjá svona 7 klippur úr hverri mynd, sem er náttúrulega frekar leiðinlegt ef maður ætlar svo að sjá myndina. Þetta finnst mér líka leiðinlegt varðandi nýjustu Bond-myndina. Það er bara of mikið sýnt í trailerum og það væri alveg nóg að hafa eina útgáfu af trailer. Svo er maður bara búinn að fá að heyra aðalkvótið áður en maður sér myndina, það er meira að segja prentað í Fréttablaðið og á fleiri stöðum. Það finnst mér fáránlegt.


Jæja, hausinn á mér er frekar dofinn og fullur af horslími þannig að þessi færsla er kannski eitthvað út og suður. Talandi um það að þá finnst mér að þættirnir hans Gísla hefðu frekar átt að vera tilnefndir heldur en t.d. Innlit/Útlit. Og að heimildamyndin um Jón Pál skildi tapa fyrir þessari ömurlegu dópheimildamynd segir mér ekkert annað en það að það er bara einhver kvennalandsliðsklíka sem stendur að þessum verðlaunum.


Sofið vært og njótið þess að vera frísk ef þið eruð það.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Nú veitir sólin okkur yl í sífellt styttri hluta af deginum. Þannig mun þetta halda áfram fram í lok desember minnir mig. Margur Íslendingurinn þjáist af þunglyndi sökum skorts á dagsbirtu en ég verð að segja við það fólk að drulla sér í sund, slappa af í heita pottinum og specca stjörnurnar og norðurljósin sem svo erfitt er að sjá þegar sú gula geislum sínum stafar. Ég er viss um að það læknar allt þunglyndi.

En þetta var nú ekki það sem ég ætlaði að tala um. Ég var bara að pæla í því núna um daginn, í tilefni af því að enski boltinn er nú sýndur klukkutíma seinna en í ágúst, af hverju við Íslendingar breytum ekki tímanum eins og Bretar. Þið vitið, þannig að við flýtum klukkunni um klukkutíma á sumrin og breytum því svo aftur á veturna.

Ef þið eruð ekki að átta ykkur á kostunum við þessa mögnuðu hugdettu mína, þá bið ég ykkur að íhuga hvort það væri svo fráleit hugmynd að vera að grilla kóteletturnar klukkutíma fyrr á sumrin. Mér finnst þetta svo borðleggjandi. Nýta sólina betur. Maður sefur alltaf af sér helling af tíma sem hún er uppi og skín skært, en er svo vakandi þegar hún er orðin að aumri kvöldsól.

Og þið getið alveg sagt mér að drullast bara til að vakna fyrr og lifa mínu lífi á sumrin klukkutíma á undan öðrum, en það er bara kjánalegt að vera að grilla um 5-leitið. Þess vegna finnst mér að einhver sniðugur alþingismaður ætti allavega að velta þessari hugmynd upp. Reyndar reifaði ég þessa hugmynd við matarborðið áðan og þá tjáði faðir minn mér það að svona hefði systemið verið á Íslandi allt fram á 6. eða 7. áratug þessarar aldar held ég. Ekki veit ég hver rökin voru fyrir því að breyta þessu í núverandi ástand en vildi gjarnan heyra þau.

Hvað segiði lesendur? Er ekki bara málið að gera þetta bara eins og Bretinn? Snilldarhugmynd frá doktornum? Hélt það.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Núna rétt í þessu var ég að kjósa í netkosningunni til Edduverðlaunanna 2006. Verð nú að segja að mér fannst sérlega erfitt að gera upp við mig hver ætti að fá verðlaun fyrir "útlit myndar" þar sem að 2 gaurar eru tilnefndir fyrir sömu myndina; A little trip to heaven. Ef einhver getur útskýrt fyrir mér hvernig í andskotanum maður á að vita hvor ætti að fá credit fyrir útlit myndarinnar þá væri það fínt.


Annars er ég að spá í að breyta aðeins til og fá mér nýja slóð; blog.central.is/nenniraldreiaðblogga. Örugglega mjög leiðinlegt fyrir mína dyggu lesendur sem kíkja hingað hinn oft á dag að sjá alltaf bara sömu færsluna með sömu loforðunum um betri tíma. En jólin koma brátt og þá verðið þið sátt því þá er ég í fríi og hef tíma til að standa í þessu havaríi.


Prófin byrja hjá mér 12. desember og er próftafla annarinnar eitt mesta djók mannkynssögunnar; 5 próf á einni viku og ekkert upplestrarfrí fyrir það. Af hverju í andskotanum er ekki hægt að mixa þetta eitthvað betur? Eru apar að stjórna prófadeildinni? Maður spyr sig hérna á kantinum.

Sá Borat á sunnudaginn og hún er betri en ég bjóst við þrátt fyrir gríðarlegar væntingar mínar. Mæli með henni fyrir alla sem finnst gott að hlæja og eru ekki með kústskaft uppí rassgatinu.


Hvernig er fólk annars að fíla Gegndrepa? Ég verð að segja að ég væri frekar mikið til í að taka þátt í svona leik. Fannst reyndar fáránlegt í þarsíðasta þætti að gaurinn skyldi vera skotinn á meðan hann var að spila fótboltaleik. En það er greinilega voða lítið um að fólk þyrfti að fylgja einhverjum reglum í þessu. Þætti samt gaman að vita hvort það hafi verið einhver regla um að fólk mætti ekki fara út á land eins og mamma hans Hrólfs hefði gert. Það væri náttúrulega heví sniðugt. Koma svo bara þegar allir eru dauðir, búinn að fara í extrím meikóver á Sauðárkróki eða einhvers staðar svo maður þekkist ekki, og plaffa þennan eina aula sem væri eftir.

Já, og varðandi prófin aftur þá er ég búinn 19. des, þannig að geymið öll góð partí þar til þá.


Merkilegt. Ég ætlaði upphaflega að blogga um rauðhært fólk og um djammið hjá mér um helgina en gleymdi því svo og fór að masa þetta sem á undan er gengið. Kannski geri ég það við betra tækifæri.