Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

föstudagur, október 29, 2004

Maður er frekar tæpur og nefndur Guðlaugur Þór. Ég held það sé Sjálfstæðisflokknum alls ekki til framdráttar að hann sé að representa þá útum allan bæ. Gjörsamlega slefandi óþolandi gaur! Takk fyrir, ég varð bara að koma þessu frá mér.

Annars er ég ekkert voðalega hress þessa dagana. Gengur eiginlega bara frekar illa í öllum sköpuðum hlut; skólanum, stelpumálum og núna síðast fótbolta, en ég var í tapliðinu í fótboltanum á miðvikudaginn. "Samt er jörðin, samur himinn og hafsjór" (eða hvernig hann Guðmundur Böðvarsson orðaði þetta) en engu að síður getur allt breyst á örskotsstundu. Það er samt eitt þarna sem mér finnst hvað sárast, og það er að ég skyldi tapa í boltanum. Ég vildi virkilega vinna og var vægast sagt mjög pirraður (við erum að tala um að ég lá andvaka í 2 tíma...). Ég get eiginlega ekki beðið eftir næsta miðvikudegi svo ég geti hefnt tapsins. Það er líka spurning hvort maður fer ekki að kíkja á alvöru æfingar hjá ÍR aftur...

Ég sá Alien vs. Predator í gær (já ég veit, ekki alveg típískur ég... leyfði öðrum að ráða valinu). Ég verð bara að segja að þetta var drasl. Það sem fór mest í taugarnar á mér var að það var kelling sem var aðalhetjan (ekki það að mér sé eitthvað sérstaklega illa við kellingar). Reyndar hefði ég sætt mig við þetta, og verið bara mjög sáttur, ef einhver almennilega töff kelling hefði leikið þetta (Angelina Jolie eða eitthvað...). Í staðinn var það einhver kelling sem leit helst út fyrir að vera leikskólakennari. Þegar hún reyndi að setja upp hörkusvip fór maður bara að hlæja. Frekar kysi ég að hafa bara Arnold Schwarzenegger og ekkert kjaftæði.

Kennaraverkfallinu er lokið, í bili að minnsta kosti. Sveitarstjórnarmenn eru fúlir (eða þykjast allavega vera það), kennarar eru svekktir (og virðast frekar ólíklegir til að sætta sig við þetta) en ég er sæll og glaður því þá fæ ég kannski jólagjöf frá mömmu og pabba.

Nú er bara spurningin hvað maður á að gera um helgina. Ég verð allavega að finna mér eitthvað til að hressa mig við. Það er að vísu mjög hressandi stærðfræðipróf á mánudaginn. Ég get ekki beðið.

mánudagur, október 25, 2004

Ef ég væri með brjóst, ætli ég væri þá alltaf að káfa á þeim?
Jæja, ég massaði þennan íslenskufyrirlestur í dag, eða, þið vitið, ég gerði hann í dag ("massaði" gæti kannski misskilist). Þó ég hafi reyndar ekki verið með tærnar þar sem félagar mínir í fyrirlestrinum höfðu hælana þá komst ég tiltölulega skammlaust frá honum. Ég er alveg fáránlega stressaður á því þegar ég þarf að tala fyrir framan fólk (og þá sérstaklega fólk sem ég "kannast við"... betra þegar það er fólk sem ég þekki vel eða fólk sem ég þekki ekki neitt). Byrjaði tímann á að líta yfir hópinn og segja við sjálfan mig; "ok, þessi er lúði, þessi er nörd, þessi er stórskrítinn og þessi er algjör lúði... og ætla ég að láta einhverja lúða stressa mig upp?" Það má svo deila um hver er lúðinn hérna, en þetta hjálpaði mér allavega í fyrirlestrinum.
Nú tekur við nýr kafli í lífi mínu. "Pre-íslenskufyrirlestur tímabilinu" er lokið. Loksins.
Kennaraverkfallið - vods opp viþ dat sjitt?
Ég veit ekki... er þetta ekki búið að vera alveg fáránlega lengi í gangi? Ég sé þetta þannig að sveitafélögin séu að fresta því að enda verkfallið, til að safna nægum peningum til að hafa efni á góðum samningum. Fattiði? Þeir þurfa náttúrulega ekki að borga nein laun til kennara meðan verkfallið er og græða alveg fullt af pening. Svo bara nota þeir þá peninga og dreifa jafnt á árin fram að næstu kjarasamningum. Mjög sniðugt dæmi, svona þegar maður fer að spá í þessu. Ég skil ekki að kennararnir séu ekki búnir að fatta þetta. Á þetta ekki að heita menntalið?

Annars er þetta verkfall nú ekkert fyndið. Mamma er einmitt kennari og það eina sem ég fæ að borða núna, þau kvöld sem ég fæ eitthvað að borða, er vellingur með blóðmör sem Teddi frændi sendi okkur úr sveitinni.

Hvenær tekur þetta í alvörunni enda? Eru kennarar bara svona fáránlega kröfuharðir gaurar að það er bara ekki séns að semja við þá? Eiga sveitarfélögin bara hvergi undir kodda næga peninga til að gera vel við kennarastéttina? Er Þorgerður Katrín bara með hausinn uppí rassgatinu á sér og heyrir ekki neitt? Ég veit ekki hvað er málið, en þetta er bara ekki kósí sitjúeisjon (takið eftir enskuslettunum sem ég er að nota í þessari færslu, mér finnst eins og sé svo menntaður). Ég vil fá kjöt á diskinn minn, og það sem fyrst!

sunnudagur, október 24, 2004

Djöfull myndi ég blogga ef ég hefði tíma. Fokk jú B***** Ólafs. Ef einhver hefur lesið Vefarann mikla frá Kasmír þá endilega, ENDILEGA, hafið samband. Annars þarf ég að sleppa United-Arsenal á morgun. Nei, djók. Það eru nú takmörk.

fimmtudagur, október 21, 2004

Ég skal segja þér eitt skal ég segja þér.
Síðasta helgi var mjög góð (og alveg tilvalið að tala um hana þar sem ný helgi byrjar á morgun, góður Sindri!). Þá var vetrarfrí í skólanum sem þýðir frí á föstudegi og mánudegi. Ballið byrjaði með balli á fimmtudaginn, og var þar mikil gleði en sumt hræðilegt gert sem ALDREI verður sagt frá. Ég fór í busapartí fyrir ballið og áttaði mig á því hvað ég er orðinn þroskaður einstaklingur, en eftir nokkra bjóra var ég búinn að gleyma því. Hápunktar ballsins voru kannski þeir að Arthúr hélt að hann væri á MS-balli og reyndi að stofna til slagsmála, og ég átti smá samtal við efnafræðikennara nokkurn (jugs!) sem var mjög fyndið.

Á föstudaginn gerði ég ekki nokkurn skapaðan hlut.

Á laugardaginn fór ég svo í teiti til Baldvins nokkurs og var það bara helvíti fínt. Eftir teitina fórum við í aðra teiti sem var líka ágæt. Ég ætla að skipta um bloggslóð á næstunni. Of margir lesa þetta blogg fyrir krassandi sögur, en af nógu er að taka.

Á sunnudaginn var svo haldið í sumarbústað þar sem allir skemmtu sér drulluvel nema ég. Ég veit ekki alveg af hverju en mér fannst bara frekar lítið gaman. Þetta var alveg ágætt tjill en jafnaðist ekkert á við fyrri sumarbústaðaferðir. Það var líka enginn heitipottur á staðnum.

Og nákvæmlega á þessum stað, í annars litlausri færslu, væri tilvalið að hafa eina sjúka sögu með klámi og bröndurum og bara öllu heila klabbinu. Í staðinn ætla ég að segja ykkur að ég veit ekki alveg hvar ég stend í lífinu. Ég er viss um að ég kemst að því á næstu dögum, annars fæ ég mér bara bjór.

miðvikudagur, október 20, 2004

Þegar ég hóf að blogga, einhvern tímann í fyrndinni, setti ég mér ákveðnar reglur...

1. Færslutíðni

1.1 Ég mun aldrei biðjast afsökunar á bloggleysi, sama hvaða ástæða er fyrir því og sama hversu langur tími líður milli færsla, því það er svo asnalegt.
1.2. Ég mun leggja metnað minn í það að blogga reglulega því það kunna lesendur að meta. Þó ég hafi ekkert að skrifa um þá skrifa ég samt, og get þá eins skrifað um að ég hafi ekkert að skrifa um. Ef á metnaði slaknar er ráðlegt að gera lesendum grein fyrir því svo þeir geti fækkað heimsóknum sínum á síðuna.

2. Stílbragð
2.1. Bloggstíll minn skal vera frjálslegur og öll mín skrif opin og skemmtileg. Aðgát skal höfð þegar húmor er beitt, og færslur yfirfarnar í sem flestum tilfellum til að útiloka misheppnaða brandara.
2.2. Lygar eru illa séðar en skaðlausar ýkjur eru hins vegar vel séðar.
2.3. Ég mun notast við skýrt og vandað orðfar, í skýrri og vandaðri uppsetningu.

3. Orðspor
3.1. Ég mun skapa mér orðspor í bloggheimum sem Dr.Sindri eins og ég hef svo gaman af að kalla mig. Þetta mun skilja mig frá öðrum Sindrum og gera mig áhugaverðari en ella á yfirfullum linkalistum.
3.2. Með skrifum mínum vil ég skapa mér það orðspor að hér sé á ferð fínn gaur sem er góður á því. Ef einhver tekur nokkurn tímann illa upp einhver af mínum skrifum, skal úr því bætt hið snarasta nema eitthvað mikið liggi á bakvið.

4. Útlit
4.1. Bloggið skal hafa látlaust útlit því skrifin eru það sem skiptir máli.
4.2. Ég skal sjálfur vera vel útlítandi, alltaf.


Eins og þið kannski sjáið hef ég ekki alveg staðið mig nógu vel síðustu mánuði. Þegar ég setti mér þessar reglur var ég ungur maður á uppleið, maður með hugsjónir. Með því að fylgja þessum reglum tókst mér að vera svo ferskur að þegar ég les gamlar færslur hlæ ég mig (nær undantekningarlaust) alveg máttlausan. En nú hefur allt drabbast niður. Orðsporið er farið og tímarnir hafa breyst. Því er kominn tími á breytingar. Héðan í frá mun ég hafa þessar góðu og gildu reglur í huga þegar ég skrifa færslur. Héðan í frá verður ekkert rólegheitabull á þessari síðu heldur krassandi færslur með brjóstum og öllu tilheyrandi. Búið ykkur undir bjartari tíma. Búið ykkur undir það besta sem sést hefur á veraldararvefnum. Hér mun blogg rísa úr lægð sinni sem skal vera öllum fremra. VERIÐ UNDIRBÚIN.

p.s. kannski hef ég ekki tíma til að gera þetta alveg strax þannig að, þúst, þið þurfið ekkert endilega að gera ykkur undirbúin. Eiginlega held ég að þetta verði í frekar mikilli lægð fram yfir jólaprófin. En ég meina, kannski ekki.... verið bara svona semi-undirbúin.

sunnudagur, október 10, 2004

ja hérna hér. Þetta emmhá-fótboltamót sem við vorum að sjá um á laugardaginn var svaðalegt. Ég sá um að dæma einn riðil en var svo óheppinn að það var D-riðillinn, a.k.a. dauðariðillinn (náriðillinn?). Allt fór mjög vel fram í þessum riðli fyrir utan minni háttar atvik sem mér fundust reyndar virkilega fyndin. Listafélagið Fínir gaurar var hrikalegt hresst á því og var skaphitinn örugglega mestur í því liði. Í hvert einasta skipti sem ég dæmdi (eða bara dæmdi ekki) var ég rifinn niður í jörðina og úthúðaður ýmsum skömmum (úthúðaður? segir maður það?).
Jón Kristján, a.k.a. bigJKO, var mættur með sitt lið sem spilaði með frjálsri aðferð. Allir þeirra leikir leystust upp í rugby sem mér fannst mjög fyndið en sumum fannst það minna fyndið. Það var til dæmis einn IB-gaur þarna sem var alveg að missa sig (í alvöru sko, hann var brjálaður). Hann öskraði á allt og alla og munaði minnstu að til handalögmála kæmi. Sem betur fer voru flestir aðrir þarna í jolly fíling svo að þetta endaði allt vel.
Mér tókst að láta spila flestalla leikina þó ég hafi ekkert getað stuðst við scheduleið því oft vantaði liðin sem áttu að spila í það og það skipti. Jón og félagar mættu líka klukkutíma of seint en ég gat ekki fengið af mér að meina þeim þátttöku.

Eftir mótið fóru rútur með þá sem vildu á frítt bjórkvöld í mekka skemmtanalífsins, Hraunholtið í Hafnarfirði. Ég fór manna síðastur útúr Egilshöllinni ásamt mjög hressum 15 manna hópi. Tók einn hring í húsinu áður en ég fór og sá að það var búið að æla a.m.k. tvisvar á kvennaklósettinu og blóðslettur voru líka sums staðar. Einhverjum hafði líka fundist sniðugt að henda ávöxtum inná völlinn. Fjórar sturtur voru ennþá í gangi og u.þ.b. heill hellingur af dóti sem fólk hafði gleymt. Ég fór til fólksins og spurði Hrólf hvort það væri ekki pottþétt að við þyrftum ekki að þrífa. Hrólfur tók upp bjór, rétti mér hann og þegar skvissið heyrðist var mér alveg skítsama hver þyrfti að þrífa þetta. Bjórkvöldið var fínt og gaman að það skyldi vera alveg slatti af liði þarna. Ég held að þannig séð hafi þetta fyrsta alvöru verkefni okkar í íþróttaráðinu bara heppnast frekar vel.

föstudagur, október 08, 2004

Alltaf jafn gaman þegar maður gerir aulamistök. Í síðustu færslu var ég eitthvað að babbla um dönskusíðuna hans Magga, nema hvað ég gleymdi að gefa linkinn á hana. Ég vil biðjast afsökunar en hér er þessi frábæra síða.

Annars vil ég leggja fram formlega kvörtun til handa Ríkissjónvarpsins sem auglýsti ekki nægilega vel að það væri að sýna Doctor Zhivago í kvöld. Fyrir þau ykkar sem eruð að pæla; "uuu, gaur, hvað í fjandanum?" þá er vert að minnast á það að sjálf Keira Knightley (fallegasta kona í heimi) leikur þar stórt hlutverk. Mér þykir miður að hafa ekki vitað af þessari sýningu. Í staðinn var ég á námskeiði í ræðumennsku. Það var ágætis skemmtun. Næsta þriðjudag á ég að flytja ræðu sjálfur, og á hún að fjalla um raunveruleikasjónvarp og mun ég mæla á móti þeim sora og viðurstyggð. Ég nenni því ekki mjög mikið, og svo þarf ég að gera ljóðaritgerð í íslensku um helgina (sjibbí).

Hmmsa, ég fæ kannski engin verðlaun fyrir þessa færslu en það er nú ekki á allt kosið í þessari veröld. Góða nótt skuluð þið hafa öll sem eitt.

mánudagur, október 04, 2004

helgin var að sumu leiti algjört gúmmelaði (eins og fyrirmenni (það er orð...) þessa lands kynnu að orða það) og að sumu leiti bara frekar venjuleg helgi. Ýmislegt er í gangi í vissum málum og ef þessi síða væri ekki opin öllum færi ég kannski nánar út í það. Í staðinn ætla ég að segja ykkur sögu.

Einu sinni var ég á Spáni (það eru reyndar einn og hálfur mánuður síðan). Á hótelinu sem við gistum á var salerni í hverju herbergi. Inná salerninu var klósett, vaskur og baðkar. Ósköp venjulegt baðherbergi myndu flestir segja.... EN, það var meira. Við hliðiná klósettinu var nefnilega önnur skál, sem fyrir mér leit helst út fyrir að vera lítið klósett (nema hvað það var með tveim krönum en ekki neinum takka til að sturta niður).
Nú, þá er ég búinn að setja ykkur aðeins inní málin. Svo var ég einhverju sinni staddur með bjór í höndum útá svölum, og ég veit ekki hvort ég var uppiskroppa með umræðuefni eða hvað, en mér datt einhverra hluta vegna í hug að minnast á þessa dularfullu skál. Ég kom með þá hugmynd að þetta væri til að þvo á sér lappirnar (ekki það að ég hafi prófað það!), en Helga þóttist vita betur. Hún hélt því statt og stöðugt fram að þetta væri svokölluð "píkuþvottaskál". Já, sem sagt þvottaskál fyrir konur til að geta þrifið sig betur í, tíhí, klofinu.
Ég er nú ekki þekktur fyrir að viðurkenna fávisku mína þegar ég er við skál, þannig að ég ákvað að mótmæla þessu harðlega og halda mig við fótaþvottakenninguna. Þessi umræða hélt lengi áfram og fór svo að ég hreinlega varð að fá botn í málið.
Ég fékk þá snilldarhugmynd að spurja gaurinn í lobbíinu til hvers skálin væri. Eftir um hálftíma útskýringar á því hvað í ósköpunum ég væri að tala um (og á meðan lágu Helga og Ragnar í gólfinu af hlátri) skildi maðurinn loksins hvað ég átti við (lýsingar mínar á því hvað ég var að tala um voru reyndar frekar tæpar; "yeah, it´s almost like a toilet, but it isn´t..."). Svar hans var eitthvað á þessa leið: "ohh, yes, hehe, that, that´s uuuu, that´s for the ladies..."

Líklega frekar miklar "varðst að vera þar"-kringumstæður, en þetta var víst spaugilegt.


Og til að kæta landann og lesendur alla vil ég benda á þessa snilldar-vefsíðu. Dönskuáfanginn sem ég er í snýst að miklu leiti um að blogga um það sem gerist í dönskutímum. Kannski þarf að þekkja hann Magga til að finnast þetta fyndið, en ég grét sko. Þessi setning er eitt það fyndnasta sem ég hef lesið sem á ekki að vera djók: "De klasse er ikke ad skilje noge gud. teknik er meged complicated as the dansk er"

laugardagur, október 02, 2004

Djöfull held ég að Þórey Edda sé langágætastur kvenkostur á Íslandi í dag. Ég tel mig ekkert þurfa að útskýra það neitt betur, þá fer ég bara að vera væminn.

Það fór þó svo að ég endaði á því að kíkja aðeins út í gærkvöldi. Fór á illa mætt emmhá/emmerr bjórkvöld og svo þaðan niðrí bæ. Tvímælalaust eitt slappasta kvöld sem ég hef átt síðustu vikur og mánuði, en ég get sjálfum mér um kennt fyrir að tíma ekki að kaupa meiri bjór.

Heyrumst.

föstudagur, október 01, 2004

bingó á alþingi.

já, ég lifi mjög svo innihaldsríku lífi þessa dagana. Í dag horfði ég til dæmis á alþingi í beinni útsendingu sjónvarpsins. Þar fór fram eitthvað sem ég hafði bara hreinlega ekki rassgats hugmynd um að væri gert. Það er nefnilega ekki eins og ég hélt að alþingismenn velji sér sæti inná alþingi, heldur draga þeir svona bingókúlur. Ef Palli dregur 25, þá þarf hann að sitja í sæti 25... og það má ekki skipta ef maður lendir á leiðinlegum stað eða neitt svoleiðis, neinei, þú verður bara að lifa með þessu allt fram á vor.
Þá fer ég að pæla, hvar myndi ég vilja sitja og hvar ekki, ef ég væri á þingi? Ég er ekki frá því að viðverutímum mínum þar myndi fækka töluvert ef ég sæti t.d. við hliðiná Jónínu Bjartmarz og Valgerði Sverris. Örugglega lítið um hnyttin komment frá þeim á meðan ræðuhöldum stendur. Ég tala nú ekki um ef maður drægi sæti við hliðiná Guðjóni A. Ég er viss um að sá gaur tekur eitt og hálft sæti þannig að þú værir bara alltaf í kremju...
Helst af öllu myndi ég vilja hafa Katrínu Jakobs á hægri og Sigurð Kára á vinstri. Katrín virkar eitthvað svo fáránlega hress og skemmtileg, og svo gæti maður verið að setja teiknibólur í sæti Sigga Kára á meðan hann flytur ræður.

Ein pæling: ég er með 12 kúlur og ein þeirra er gölluð (hún er annað hvort léttari eða þyngri en hinar kúlurnar...). Hvernig get ég, með hjálp einnar vigtar, komist að því hvaða kúla er gölluð (og þá hvort hún er þyngri eða léttari) með aðeins þremur mælingum? Þetta hefur valdið mér ítrekuðum höfuðverkjum...