Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, apríl 30, 2007

Það ætti náttúrulega að fylgja manual með þessum kennurum hérna í háskólanum. Þeir eru alveg æði misjafnir og sumir þeirra eru náttúrulega gjörsamlega í engum kontakt við veruleikann eða sans fyrir því hvað sé erfitt og hvað létt fyrir nemendur. Ég var t.d. í prófi í dag og þegar ég kom út lék allt á reiðiskjálfi því fólk var alveg svona frekar ósátt með það að fá próf sem ekki einasta fræðilegur möguleiki var á að ná að klára. Ég lenti líka sjálfur í miklu tímahraki. Klikkaði reyndar á basics eins og að skíta fyrir prófið. Slæmt mál.

En tökum upp léttara hjal. Meistaradeildin er á morgun og miðvikudaginn og ef þið viljið græða pening þá skal ég segja ykkur hérna hvernig þetta fer:

Liverpool - Chelsea.
Fyrri leikurinn fór 1-0 fyrir Chelsea. Þessi leikur fer 0-0 og ekkert markvert gerist nema að Kuyt fellur við inní vítateig Chelsea-manna en ekkert er dæmt. Mjög umdeilt.
Sem sagt, Chelsea fer áfram og það er líka mun sanngjarnara í ljósi þess að Liverpool er bara að hugsa um meistaradeildina og hvílir bara menn í deildinni.


Eins og þið sjáið þá skammast Gerrard sín svo mikið fyrir að spila með svona tæpu liði að hann reynir að halda fyrir liverpool-merkið.

En á miðvikudagskvöld verður miklum mun meiri skemmtun í gangi. Þá eigast við annars vegar skemmtilegasta lið í heimi og hins vegar ítölsku eðalmennin í AC Milan. Fyrri leikur liðanna fór 3-2 fyrir United svo það er á brattann að sækja fyrir mína menn á San Siro því það er erfitt að hafa fengið á sig 2 mörk á heimavelli. Mikið veltur á því úr hvaða mönnum verður að velja í vörninni en annars er það nú þannig að það þarf bara að skora fleiri mörk en andstæðingurinn og ég hef fulla trú á að við skorum eitthvað þarna.

Þessi mynd náðist af Ronaldo þar sem hann bað til guðs að G.Neville kæmi aftur í hægri bakvörðinn. Guð sagði honum að hann myndi hugsa málið ef Ronaldo hætti að vera með svona hommalegan svip. Hvað Ronaldo var að gera í portúgölsku landsliðstreyjunni sinni á þessum tíma er ekki vitað.
Mín spá er að United vinni 2-1 eftir að hafa komist í 2-0. R-in tvö skora bæði.

Jæja, á miðvikudaginn er markmiðið að þróa hugbúnað betur en hugbúnaður hefur áður verið þróaður því þá fer ég í próf í þróun hugbúnaðar. Þess vegna ætla ég að reyna að kíkja í bækur núna. Bið ykkur vel að lifa.

p.s. mér finnst þessi klippa fáránlega fyndin. Mr. Goma hélt að hann væri að fara í atvinnuviðtal hjá BBC en var ruglað saman við internetsérfræðing frá Apple og tekinn í viðtal í beinni um niðurhal á netinu. Fréttin um þetta er hérna.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Kommentakerfið hjá mér er alveg við það að springa þannig að ég vil biðja fólk aðeins um að róa sig í kommentunum.

Annars er ég allur að koma til í lærdómnum. Varla búinn að líta upp í allan dag, enda svo sem nægar syndir á önninni sem þarf að bæta fyrir.

Ég reiknaði að sjálfsögðu með að vinir mínir myndu sýna mér samúð og sleppa öllu gamani á meðan prófin standa yfir. Ragnar var að segja mér að planið væri djamm næstu þrjú kvöld.

Ég er að reyna að hafa stuttar málsgreinar hérna því fólk virðist ekki tengja við heimspekilegu og löngu færslurnar mínar.


Ef ég væri:

forsetinn þá myndi ég mæta á völlinn og fylgjast með Álftanesi í sumar.

stjórnmálamaður í ríkisstjórn þá myndi ég prófa, þó ekki væri nema einu sinni, að viðurkenna að betur hefði mátt gera í ákveðnum málaflokki/um.

Keira Knightley þá yrði mér lítið úr verki.

Didier Drogba þá myndi ég hætta öllum leikaraskap og athuga hvort ég gæti orðið vinsæll knattspyrnumaður.

í stjórn banka þá myndi ég stinga upp á drive-through-bönkum eða allavega drive-through-hraðbönkum.

kominn með íbúð væri fyrsti hluturinn sem ég keypti Lazyboy-stóll. Nei annars, örbylgjuofn. Nei flatskjá. Ok, sem sagt ef ég væri kominn með íbúð og ætti pening.

mánudagur, apríl 23, 2007

Þá er maður offisjalt dottinn í prófalestur. Fyrsta prófið er á mánudaginn og svo detta þau inn hvert á fætur öðru þessar elskur. Ég hef nú samt aldrei verið neinn svakalegur prófamaður en

BAAAAA

ok, ég var nú bara í sakleysi mínu að fylgjast með sjónvarpinu á meðan ég blogga þetta og þá kemur þessi óóóógeðslega auglýsing um átröskun. Ef þetta átti að vera sjokkerandi þá tókst það.

En já, eins og ég segi þá er ég ekki mikill prófamaður svo þetta mun líklega þýða tíðari bloggfærslur og þar með almenna gleði í þjóðfélaginu.


Ég var að lesa um sprautusteypun og komst ekki hjá því að hugsa aðeins um hvernig lífið er eiginlega eins og kvikmynd. Hvert okkar er eiginlega aðalleikari í eigin kvikmynd. Sumir ákveða að myndin eigi að vera létt gamanmynd, aðrir vilja að hún sé rómantísk, sumir að hún sé spennutryllir, fáir að hún sé hryllingsmynd og alveg furðulega margir vilja að hún sé dramamynd. Frá því svona um það bil frá því ég fæddist hef ég haft mína mynd fyrir gamanmynd og í sumum tilvikum þá virkar það ekki alveg. Þessi tilvik reynast mér oft svoldið erfið en ég vil samt sem áður alls ekki að myndin mín þróist útí einhverja trúðslega fíflagamanmynd.

Jájá, það fer mér nú ekkert að vera með einhverja svona heimspeki. Svona getur samt hugurinn reikað yfir skruddunum. Hvernig er ykkar kvikmynd?

p.s. Ferdinand, Vidic, Neville, Silvestre og Saha meiddir á morgun. Þetta verður brekka en ég ætla nú ekki að vera neitt svartsýnn. Sérstaklega ekki ef Evra getur spilað. Svoldið slæmt að þurfa að setja miðjumenn í vörnina. Vonum bara það besta.

p.p.s. Er að fara með Volvoinn í tékk útaf óhljóðunum í honum. Biðjið fyrir greyinu.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Útaf því að ég er á fullu í lærdómnum þessa dagana gat ég að sjálfsögðu ekki látið það eftir mér að fara á bæjarrölt í kvöld, eins og svo fjölmargir gerðu. Foreldrar mínir létu hins vegar hvorki húsabruna eða vatnsflóð aftra sér frá því að kíkja á djammið með vinnufélögum. Ég var svo rétt áðan vakinn upp af værum blundi til að sækja þau þar sem þau ráfuðu um í ölvun sinni. Auðvitað fylltu þau svo bílinn minn af fullum kellingum sem ég þurfti að skutla heim. Gaman að því. Ein þeirra var svo full að hún gat ekki horft beint fram heldur lak hausinn á henni einhvern veginn niðrá gólf. Hún átti erfitt með að mynda heilar setningar en hamraði þó alltaf á stöfunum "MS". Fyrst datt mér í hug að hún væri ms-sjúklingur og þyrfti að komast undir læknishendur (ég hef ekki hugmynd um hvernig ms-sjúkdómurinn lýsir sér). Móðir mín var þó enn með meðvitund á þessum tíma og gat upplýst mig um að ég ætti að keyra í átt að menntaskólanum við sund. Já, svona er þetta fullorðna fólk nú skrítið.

Ég vona annars að þið iðjuleysingjarnir sem fóruð í bæinn í kvöld hafið skemmt ykkur.

Og fyrir þá sem hafa áhuga á því að þá er kominn nýr Maradona. Höfum samt í huga að þessir spænsku varnarmenn eru oft frekar miklar sultur.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Jæja, bara kviknað í Pravda. Þetta fá menn fyrir að rukka mig um 600 kall fyrir bjór af því að klukkan var orðin 00:00, í stað þess að rukka mig um 300 eins og átti að gera til miðnættis (doktorinn geymir í stað þess að gleyma greinilega). Já, karma nær þér alltaf. Gaman að segja frá því hins vegar að ég var að keyra uppí skóla, gjörsamlega að drepast úr hita og þar af leiðandi með alla glugga opna, þegar ég fæ reyk inn um gluggann þar sem ég keyri framhjá stúdentakjallaranum. Ég man ég hugsaði með mér "nei hvur djöfullinn, er nú einhver stjórnmálaflokkurinn að grilla pulsur... það er naumast reykurinn frá þessu helvíti". Svona getur maður nú átt það til að útskýra hluti með fáránlegum hætti.

En nú verður spennandi að sjá hvort mitt ágæta nemendafélag, Vélin, þarf að skipta um stað til að slaka á eftir vísindaferðir.
Ég held svona í alvöru að síðan ég byrjaði í verkfræði hafi ekki komið hingað inn ein færsla sem er vel ígrunduð og útfærð. Þetta er allt voðalega random eitthvað. Kenni tímaleysi um en þessu var allavega ekki svona háttað þegar ég var í MH. Þá blómstraði þetta blogg og hver gullmolinn á fætur öðrum datt hérna inn. En enginn lifir á fornri frægð. Ekki ég, ekki Kalli Lú, ekki nokkur.

En ég nenni ekki að skrifa ígrundaða og vel útfærða færslu þannig að ég ætla bara að telja upp hluti sem ég fíla ekki þessa dagana:

Fiskur - ekki í dag, ekki nokkurn dag.

Raunveruleikasjónvarp - ekki einn svoleiðis þáttur skemmtilegur að mínu mati.

Sjónvarpsþættir sem þynnast út - prison break, lost, spaugstofan...

Fólk sem reynir að láta eins og það viti eitthvað um hluti sem það veit ekki rassgat um - þá er ég ekki bara að tala um pólitíkusa heldur líka bara leigubílstjórann sem þykist vita bestu leiðina, eða lækninn sem þykist kunna að greina sjúkdóma, eða bara fullt fullt af fólki.

Tognanir - við höfum farið í gegnum þetta.

Próf - upphaflega pælingin með prófum getur ekki hafa verið að fólk væri inní herbergi í 3 vikur stanslaust að lesa í bókum.

Að vakna fyrir 9 - allavega þegar maður er að blogga klukkan eitt.

Verkfræðideild HÍ - próf og verkefni fram á síðasta dag hjá þeirri ágætu deild. Viljiði ekki að mér gangi vel í prófunum?


Jæja, ég býst við að það séu ekkert sérstaklega margir hlutir að bögga mig. Ég er þó örugglega að gleyma einhverju. Ég er nú samt ekki jafn grumpy og þessi hérna:


Enda er ástæðulaust að vera grumpy þegar guð er svo góður að ákveða að láta Keiru Knightley leika á móti Lindsay Lohan í lessumynd. Nice one herra minn góður.


Að lokum ætla ég að drífa í því að bæta link á linkalistann minn. Linkurinn sá leiðir ykkur, lesendur góðir, á heimasíðu gleðikvenna. Ekki ónýtt það.

laugardagur, apríl 14, 2007

Þegar ég vakna eins þunnur og í dag þá veit ég að ég hef verið að gera eitthvað heimskulegt kvöldið áður. Og þá á ég ekki við þá augljósu staðreynd að ég hafi verið að drekka kvöldið áður. Þetta kvöld sem byrjaði svo sakleysislega í afmæli hjá henni Birnu Katrínu endaði svo með því að gestir Glaumbars fengu ókeypis stripp frá doktornum á dansgólfinu. Allt var þetta þó innan siðsamlegra marka. Ég er ekki viss en ég held ég hafi heyrt einhverjar yngismeyjanna á staðnum nefna það að "föstudagurinn 13." væri nú ekki lengur óhappadagur að þeirra mati, heldur mikill happadagur. Fleira heimskulegt gerði ég svo en það er óþarfi að láta sjálfan sig líta eitthvað illa út þegar maður er sjálfur ritstjóri hérna á þessu bloggi.

Annars hef ég ákveðið að ég sé að verða stór strákur. Af því tilefni er ég jafnframt farinn að huga að því að koma mér úr foreldrahúsum. Ragnar vinur minn er í sömu hugleiðingum og höfum við reifað þá hugmynd að fara að leigja saman. Ég held að það væri mjög sterkur leikur fyrir mig. Ragnar er drengur góður en það sem betra er að þá er hann einnig kokkur góður. Hann hefur jafnframt sannfært mig um það að hann hafi engan áhuga á að ryksuga á laugardögum, sem myndi einmitt trufla mig yfir enska boltanum. Það má því segja að hann sé hin fullkomna eiginkona fyrir utan kannski útlit sitt. Já, maður þarf að skoða þessi mál og ef af þessu yrði væri klárlega best að koma sér í stúdentaíbúð. En nú hefur maður heyrt að það sé hægara skrifað en gert. Það verður bara að koma í ljós.

Orðið á götunni er að próf séu á næsta leiti í skólanum. Ég hef ekki fengið þetta staðfest enda hef ég ekki mætt í skólann í 3 vikur eða svo og er búinn að gleyma uglu-passwordinu mínu. Þetta kemur þó vel heim og saman við þá staðreynd að veðrið er ansi gott í dag og það er einmitt yfirleitt frekar gott þegar ég er að lesa fyrir próf. Ég rústa samt þessum prófum, það er ekki spurningin.

Að lokum vil ég óska öllum sem hafa átt afmæli í vikunni innilega til hamingju. Megi gæfa og gjörvuleiki fylgja ykkur.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Sumir segja að föstudagurinn 13. sé einhver sérstakur óheilladagur. Fyrir mér mun það héðan í frá vera laugardagurinn sjöundi. Gærdagurinn, sem nú er nýliðinn, er líklega versti dagur sem ég hef upplifað frá því ég kom í heiminn þann 13. ágúst (veit ekki hvort það var föstudagur) 1986. Ekki nóg með að mínir menn í United hafi tapað gegn Portsmouth-mönnum, heldur datt ég líka fyrstur út í póker með strákunum áðan. Þetta verður sennilega seint toppað, eða botnað, eða hvað sem maður segir.
Ég sé alveg fyrir mér að það verði búin til kvikmynd um þennan hræðilega dag. Í framtíðinni mun fólk svo kannski segja "jæja Lúlli, bara föstudagurinn 13. á morgun, orðinn eitthvað stressaður?" og Lúlli svarar "neinei Palli minn, föstudagurinn 13. er náttúrulega brandari miðað við það sem getur gerst á laugardeginum 7."

Nei, nú er ég farinn að bulla. Það viljum við náttúrulega ekki sjá á þessu bloggi. Förum að tala í alvöru hérna.

Í fyrradag fór ég í bústaðarferð eins og þið munið, og í hressleika mínum ákvað ég að fela páskaeggið hennar Dóru einhvern tímann um miðja nóttina. Og hvaða stað haldiði að Sindri hafi svo valið (Dr. Sindri notabene)? Nú, auðvitað skúffuna undir bakaraofninum. Síðar um nóttina var fólk svo að stunda það að baka sér pítsur í þessum ágæta ofni og gott ef ég fékk ekki eitt eða tvö slice. Morguninn eftir fór svo Dóra að leita að páskaegginu sínu (eftir mjög svo góðum vísbendingum mínum frá kvöldinu áður) en fann því miður ekkert sem líktist eggi, heldur frekar eitthvað sem líktist vænum niðurgangi í poka (með drukknandi páskaunga og málshætti).
Annars var ferðin mjög góð og gott að komast útí sveit í smá stund. Svoldið vonsvikinn með að þetta skildi bara geta verið ein nótt en það er þó betra en ekkert.

Hmm, ég ropaði svo lengi núna að ég missti aðeins þráðinn.

Ok, haldiði ekki bara að kallinn sé kominn með vinnu í sumar? Ójújú. Og ekki bara einhverja pulsusjoppuvinnu. Óneinei. Ég fékk vinnu sem mig er búið að dreyma um síðan ég lærði að lesa (3. eða 4. bekk, man það ekki alveg). Íþróttafréttaritari. Hvern hefði grunað það? Þetta verður sexí.

Að lokum vil ég óska öllum þeim sem hafa átt afmæli síðustu vikuna en ég gleymdi að óska til hamingju með afmælið til hamingju með afmælið (það vantar kommur í þessa setningu. Sá sem veit hvar þær eiga að vera fær frítt út að borða á Eika feita). Svo vil ég óska landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegra páska.

p.s. ég er að leita mér að kvenmannsefni. Hún þarf að vera lægri en ég og hún þarf að vera fullkomin. Hafið samband.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Eftir erfiða síðustu skóladaga er maður búinn að skila af sér verkefnum og kominn í páskafrí. Því ber að fagna og er þess ekki langt að bíða að ég verði kominn austur í sveitir til þess að njóta öldrykkju í hópi góðra manna og föngulegra kvenna, lepjandi öl og hafandi það næs. En nei, í öllu stressinu sem fylgdi því að skila inn verkefni gleymdi Sindri kallinn einu...

ÞAÐ ER LOKAÐ Í VÍNBÚÐUM Á SKÍRDAG OG FÖSTUDAGINN LANGA!!!

Þessari sjokkerandi staðreynd var skellt framan í andlitið á mér í póker áðan með strákunum. Nú er maður sum sé í bobba. Ég veit ekki hvað í rassgati ég get gert til að redda mér eins og 2 kippum af bjór. Ég leita því á náðir dyggra lesenda (mjög dyggra, því þetta þarf að vera lesið áður en ég legg af stað um 7-leitið annað kvöld) og bið þá um að láta mig vita ef þeir vita um einhverja lausn á þessu hræðilega vandamáli.

Svo vil ég líka spyrja hvað í andskotanum það á að þýða að ríkið geti ekki bara verið með sama opnunartíma og aðrar búðir. Bjórinn í kjörbúðirnar, sá flokkur sem púllar þetta slagorð fær mitt atkvæði í kosningunum í vor.

Svo er náttúrulega eitt í þessu. Fríhöfnin í Keflavík er alltaf opin, en því miður þekki ég engan sem á að lenda á morgun. Hvernig er það, þarf maður endilega að kaupa sér flugmiða til að skreppa aðeins í fríhöfnina?


En já, hver ætlar að redda mér og fá stóran plús í kladdann og jafnvel smá verðlaun? Síminn minn er 867-7076. Ég treysti á þig, lesandi góður.

p.s. ég er ekki að djóka.