Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, apríl 26, 2009

Samviskusamur eins og ég er þá hef ég lagt bokkuna til hliðar og hyggst halda henni þar fram yfir próf. Þetta þýðir að ég fékk mér ekki einn bjór í gær þó sannarlega væri tilefni til, enda kosningadjamm í hópi með júróvisjondjammi yfir partý sem maður ætti alltaf að taka. Í staðinn lá ég einn uppi í sófa og fylgdist með kosningatölum, og reyndi að sjá möguleikann á því að systa færi inn á þing, og lagði mat á fjárfestingar fyrirtækja þess á milli. Ekki var annað að sjá en að flestir væru fegnir að kosningabaráttunni væri lokið og ég get rétt ímyndað mér að menn hafi slett ærlega úr klaufunum á kosningavökum flokkanna, hversu smáar eða stórar sem þær voru. Þess vegna, og vegna þess að ég nenni að gera allt nema að læra, fór ég að velta fyrir mér hvaða lag væri vinsælast hjá DJ-um kosningavakanna. Ég komst að eftirfarandi niðurstöðu.


Samfylkingin: We are the champions með Queen. Það er bara basic. Flokkurinn orðinn langstærstur á landinu og sigurvegari í fjórum af sex kjördæmum, þar á meðal suður-kjördæmi. Hugsanlegt að Whatever you like með T.I. hafi líka fengið að hljóma í ljósi ráðandi stöðu flokksins.


Sjálfstæðisflokkurinn: Tubthumping með Chumbawamba. Get ímyndað mér að það sé stemning í því að öskra "I get knocked down, but I get up again, you´re never gonna keep me down," en kannski er ekki þessi stemning í sjálfstæðisflokknum, ég þekki það ekki. Svo er kannski við hæfi líka að raula millikaflann; "he sings the songs that remind him of the good times. He sings the songs that remind him of the better times."


Frjálslyndir: Fiskurinn hennar Stínu með Áróru. Held að þetta lag sé alltaf sungið þar sem að frjálslyndir koma saman, og ég fíla það. Fiskinn minn, nammi nammi namm.


Vinstri grænir: Stórasta land í heimi með BlazRoca. Hver þarf Evrópusamband þegar hann býr í stórasta landi í heimi? Erpur er sjálfur vinstri-grænn og taka flokksfélagar hans jafnan vel undir í línunum "en ekki tala um ESB, því möppudýrin eru þó skárri hér, en í Brussel."


Framsókn: Sjómannavalsinn með Hjaltalín. Þetta er vinsælasta lagið á Íslandi í dag skv. vinsældalista Rásar2 og hlýtur því að vera það sem fólk vill heyra.


Borgarahreyfingin: Held að það hafi ekki tekist að sammælast um að klára heilt lag á kosningavöku Borgarahreyfingarinnar. Fólk úr ólíkum áttum, með ólíkar skoðanir sem vill ná sínu fram... og allur sá pakki.


Lýðræðishreyfingin: Einn á flakki með Lukku Láka (fann þetta bara á ensku). Muna kannski ekki allir eftir þessu en þetta kom alltaf í endann á Lukku Láka myndunum. Eeeeeiiinn á flakki... eeeiiinn á flakki... einhvers staðar verður þúúúú, ííí nóóótt. Mér fannst Ástþór samt flottur í umræðuþættinum í kvöld, bara svo það komi fram.


p.s. Það er greinilega betra að klára verkfræði heldur en stjórnmálafræði til að spá fyrir um úrslit kosninga.

fimmtudagur, apríl 23, 2009

Ég held að fólkið sem mætir á borgarafundi RÚV í aðdraganda kosninganna sé upp til hópa leiðinlegasta fólk sem landið byggir. Greinilega aðallega fólk sem er löngu búið að ákveða hvað það ætlar að kjósa og er þess vegna bara þarna til að klappa fyrir sínum fulltrúa og segja "úúúú" eða hlæja þegar hinir fulltrúarnir eru að tala. Svo koma "spurningar úr sal" sem eru náttúrulega bara einhverjar spurningar frá einhverjum flokksfolöldum sem eru ætlaðar til að koma höggi á þá sem spurningunum er beint til. Ömurlegt. Svo þurfa fulltrúarnir alltaf að vera svo ógeðslega fljótir að svara að það er ekki nema orðheppnasta fólki í lófa lagt að segja eitthvað gáfulegt. Þetta er svo kjánalegt eitthvað.

Já og já. Kosningar í nánd og þrátt fyrir að nær allur minn tími (fyrir utan þegar ég þarf að fara í bubble struggle, póker, fótbolta, horfa á fótbolta, horfa á lélegt sjónvarpsefni, borða og sofa) fari í prófalestur þá hef ég aðeins getað fylgst með kosningaumræðunni. Og búandi yfir einhverri náðargáfu hvað varðar að spá fyrir um hluti þá er hérna komið að föstum lið, nefnilega kosningaspá doktorsins fyrir alþingiskosningar 2009:


1. Samfylking hlýtur að fá mest fylgi í ljósi þess að systir mín er þar á lista. Einnig notar flokkurinn listabókstafinn S sem er sá svalasti í bransanum. 21 þingmaður.

2. Vinstri-græn njóta góðs af því að hafa ekki verið í ríkisstjórn og bera því minni ábyrgð á því að bankakerfið hrundi. Einnig eru Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir mjög sexý. 17 þingmenn.

3. Sjálfstæðisflokkurinn var með mjög skemmtilegan leik á heimasíðu sinni í síðustu kosningum sem var einhvers konar afbrigði af Pacman. Nú er engan Pacman að finna og reikna ég því með miklu falli flokksins. Einnig er erkióvinur minn Guðlaugur Þór búinn að vera mikið í sviðsljósinu og það veit aldrei á gott. 14 þingmenn.

4. Ég þekkti einu sinni stelpu í sveitinni sem vildi bara nota grænan kork í sundtímum af því að grænn er litur Framsóknarflokksins. Hin ört minnkandi stétt bænda mun veita nokkrum brautargengi en Sigmundur Davíð formaður, sem ég hélt að væri flottur en veit núna að er plebbi, kemst ekki á þing. 9 þingmenn.

5. Borgarahreyfingin hlýtur að ná inn tveimur mönnum því öllum finnst grillaðir borgarar góðir. 2 þingmenn.

6. Frjálslyndir ná ekki inn manni og mötuneytisstjóri þingsins sér fram á góðæri.

7. Lýðræðishreyfingin nær heldur ekki inn manni því Ástþór Magnússon fær aldrei að vera með, eins og hann hefur margoft komið inn á. Þess má hins vegar til gamans geta að hann er í hópi þess eðalfólks sem var actually boðið í partýið sem Rottweilerhundar sungu um um árið.


Mér þykir leiðinlegt að vera búinn að eyðileggja spennuna fyrir mörgum með því að upplýsa hvernig kosningarnar munu fara en það eru hvort sem er eflaust margir þarna úti sem ættu frekar að eyða tímanum í að lesa fyrir próf en að taka kosningavöku á þetta. Næst ætla ég að eyðileggja fyrir þeim sem ætla að fylgjast með íslenska boltanum í sumar.

p.s. Ég ætlaði reyndar líka að segja frá því hvað við Krissi vorum fáránlega menningarlegir um síðustu helgi. Sáum Draumalandið á föstudagskvöldið og svo leiksýninguna Ég heiti Rachel Corrie á laugardagskvöldið. Við erum enda báðir komnir í meistaranám í háskóla og þá er maður ekkert að fara á Fast and the Furious 14. Má segja að maður hafi orðið margs vísari.