Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

föstudagur, febrúar 29, 2008

Helvíti á jörðu


Ég hef gengið í gegnum margt á minni ævi. T.d. dyr, hlið, göng og fleira. En aldrei á ævinni hef ég upplifað annað eins helvíti eins og síðustu dagar hafa verið. Ég get varla lýst líkamlegum óþægindunum og þó ég reyndi þá yrðu þær lýsingar aldrei neitt voðalega skemmtilegar lestrar. Ef þið finnið fyrir talsverðum slappleika þá mæli ég sem sagt ekki með því að þið harkið af ykkur, drífið ykkur í sturtu og skellið ykkur í tveggja tíma próf í iðnaðartölfræði. Það magnar slappleikann talsvert.


En núna á miðvikudaginn, eftir tveggja sólarhringa stanslausan viðbjóð, fór mér að líða nógu vel til að geta fært mig fram í sófa og horft á sjónvarp. Mér varð litið á dvd-stafla í sjónvarpshillunni og sá þar 1. seríu af þáttum sem heita Desperate Housewives. Hafði heyrt frábæra hluti um þessa þætti frá kvenþjóðinni og Magga þannig að ég ákvað að skella fyrsta þætti í tækið. Það varð ekki aftur snúið. Á tveimur sólarhringum horfði ég á 23 þætti af Despo. Það er u.þ.b. 16 og hálf klukkustund af útúrbótoxuðum úthverfamömmum. Án djóks. Þvílík snilld! Fyndið, spennandi, dramatískt. Ef það er hommalegt að horfa á þessa þætti þá býst ég við að ég sé Friðrik Ómar.


Hafandi gert lítið annað en að horfa á þessa þætti síðustu tvo daga þá finn ég að ég er orðinn mjög náinn aðalpersónunum. Það er ekkert auðvelt að gera upp á milli þeirra enda lít ég á þær allar sem vinkonur mínar, en ef ég ætti að gera vinsældalista væri hann svona.

1) Susan. Ég eeelska Susan. Hún er kannski mesti snillingur sem sjónvarpið hefur alið, og skemmtilega mikill hrakfallabálkur. Alltaf þegar hún dettur á andlitið eða missir handklæðið niður um sig, þá hugsa ég "Susan Susan Susan", hristi höfuðið og brosi út í annað. Svo er hún líka heitust af þeim fjórum, það er ekki nokkur vafi.

98) Bree. Ég sárvorkenni Bree. Hún sem gerir allt fyrir fjölskylduna sína en fær ekkert nema skít og skömm fyrir. Gerði þau mistök að giftast hálfvita og þarf nú að lifa með því. Áður en ég tók þetta massíva session hafði ég séð einhverja 3-4 þætti í sjónvarpinu og hafði alltaf á tilfinningunni að Bree væri hálfviti. Núna er ég kominn með miklu betri innsýn og sé hvað hún á bágt.

99) Gabrielle. Flestum finnst Gabby sjóðandi heit en hún er náttúrulega svona 1,20 sem mér finnst ekki kúl. Svo hata ég hana fyrir það hvernig hún fer með Carlos, þann eðalnáunga. Hún er í raun heppinn að hafa Lynette því annars væri hún neðst.

100) Lynette. Vááááá, hættu að væla kelling. Verandi veikur þá kveið ég öllum þeim mínútum af þáttunum þar sem þessi kona þurfti að vera að díla við krakkana sína. Það tók á taugarnar. En hún kann að velja barnapíu, það má hún eiga.


Þessi færsla var í boði Q-bar.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Ég fékk mér facebook um daginn af fúsum og frjálsum vilja og ég verð að segja að ég var greinilega bara með púra fordóma því þetta er alveg ótrúlega sniðugt dæmi. Þarna er meðal annars hægt að fara í "steinn, blað, skæri" við fólk, spjalla við fólk með því að setja skilaboð á "vegginn" þeirra í staðinn fyrir að spjalla við það á MSN eða í RL., og margt fleira alveg gríðarlega sniðugt.


Helgin hefur einkennst af gríðarmiklum prófalestri vegna prófs á morgun. Eða ekki. Tók pókersession með strákunum á föstudaginn og endaði að sjálfsögðu 10.000 kallinum ríkari. Það skipti ekki máli hvort ég var með tvist og sjöu á hendi eða hvað, það greinilega borgar sig að hafa tekið vikunámskeið í leikhússpuna þegar ég var í 7. bekk.

Eftir póker tók við meiri drykkja og ég kom heim kl. 6... búinn að týna lyklunum. Það var eflaust vinsælt hjá systu sem fékk þar með að vakna við hljómfagran dyrabjölluhljóm.

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Ljúfa Anna, láttu mig vissu fá.
Þú ein getur læknað mín hjartasár.
Í kvöld er ég sigli á sænum
í svala ljúfa blænum,
æ, komdu þá svo blíð á brá
út í bátinn mér einum hjá.

Vaknaði í morgun við söng leikskólakrakka sem voru á gangi með kennurum sínum. Snöggtum notalegra en að vakna við vekjaraklukkuna. Og að þau skuli hafa verið að syngja þessa yndislegu vísu sem ég skrifaði hér að ofan... Það er frábært til þess að vita að leikskólakrakkar læri eitthvað annað en "í leisskóla er gaman". Djöfull sem þau sungu líka kröftuglega, alveg að fíla lagið í botn.

Lýg engu um það að ég sofnaði með bros á vör í gærkvöld eftir að Tevéz náði að jafna. Ég verð sífellt sannfærðari um það að United taki þrennuna aftur í ár.

Annars ætlaði ég nú ekki að segja mikið af viti. Bið að heilsa.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Heyrðu svo var þetta bara false alarm með hana Keiru. Ekki sáttur með mbl.is að gera mig svona vongóðan um að hitta hana loksins. Hafði þess vegna ekkert upp úr því að reika um skemmtistaði REykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins, fram undir rauðan morgun, annað en það að Krummi í Mínus fékk að hringja hjá mér. Það var ekki alveg jafn skemmtilegt og ég ímynda mér að það sé að hitta Keiru Knightley.

Ég er búinn að vinna baki brotnu við að gera skólaverkefni síðustu vikuna. Ég er alveg eftir mig eftir þetta. Ætla að splæsa í nuddtíma við fyrsta tækifæri, nema það sé einhver þarna úti sem hefur sérstakan áhuga á að nudda mig frítt. En nú er Meistaradeildin að byrja í kvöld og ætla ég að leyfa ykkur að njóta góðs af hæfileikum mínum í að tippa, og setja hér fram úrslitin sem verða í kvöld. Njótið vel.

Liverpool - Inter: 1
Spái sigri Liverpool í kvöld enda eru þeir búnir að fókusera á þennan leik síðan þeir komust upp úr riðlinum sínum fyrir nokkrum mánuðum. Þá búa leikmenn Inter ekki yfir sömu baráttu og eljusemi og leikmenn Barnsley.

Roma - Real Madrid: X
Ég veit samt ekkert hvort að Rómverjar mæta varfærnislega í leikinn eða hvort þeir hleypa honum í háaloft. En jafntefli verður það.

Schalke-Porto: X
Þessi leikur verður ógeðslega leiðinlegur út af því að Porto vill það.

Olympiakos-Chelsea: 2
Chelsea-liðið er hrikalega öflugt. Hræðist það mjög.


Betsson gefur ykkur stuðulinn 46,43 fyrir þetta, þannig að ef þið hendið 100.000 kalli í þetta þá eignist þið rúmlega 4,5 mills. Trúi ekki öðru en að fólk hafi áhuga á því. Bið að heilsa!

mánudagur, febrúar 18, 2008

Móðir mixaði eitthvað svona indverskt kjúklingadæmi sem ég fékk mér að borða í þynnkunni í dag. Rétturinn samanstendur af kjúklingi (dö) og svo hrúgar maður kókos, salthnetum og bönunum á diskinn og sullar þessu öllu saman. Nema hvað að þegar ég var búinn með allan kjúklinginn, hneturnar og kókosinn, þá fattaði ég að ég hafði alveg gleymt að borða bananana með. Samt setti ég þá á diskinn minn. Þá ákvað ég að hausinn á mér væri ekki í nægilega góðu standi til að gera heimadæmi í hermun.


Véla- og iðnaðarverkfræðinemar gefa nú út blaðið Vélabrögð enn á ný, til að safna fé fyrir námsferð í vor. Við erum þessa dagana að selja auglýsingar og ég er búinn að safna 0 krónum þannig að það má segja að það gangi ekkert sérstaklega vel. Ekki er þó öll nótt úti enn en ég er að gæla við að lækka markmiðið mitt úr 1.000.000 í svona 250.000. Ef þið þekkið til í einhverju fyrirtæki sem gæti viljað kaupa auglýsingu í blaðinu þá væri það vel þegið því annars kemst ég ekki í námsferðina. Komasso!


Ef ykkur fannst þetta leiðinleg færsla þá vísa ég til fyrri hluta hennar. Hausinn verður orðinn stútfullur af skemmtilegum pælingum í vikunni.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Á fimmtudaginn hélt ég að ég væri að fara að vakna tiltölulega snemma, fara að heimsækja markaðsstjóra einhverra fjórtán fyrirtækja í bænum og væla út auglýsingar í blað verkfræðinema. Hafði svo hugsað mér að snæða staðgóða máltíð um tvöleytið og fara svo og læra um stjórnun fyrirtækja í kúrsinum Stjórnun fyrirtækja. Um fimmleytið var svo stefnan að fara uppí Hafnarfjörð að smíða bókastand og rós úr ryðfríu stáli. Koma svo heim, dauðþreyttur og asnalegur, og klára eins og tvö skilaverkefni fyrir skólann.


En allt þetta verður nú að fá að víkja til hliðar. Þetta hefur nefnilega allt talsvert minni forgang í lífi mínu en ákveðin manneskja. Manneskja sem er væntanleg til landsins á fimmtudaginn. Og hvaða dagur er á fimmtudaginn? Jú, Valentínusardagur. Er það tilviljun? Ég leyfi mér að stórefa það.


Sjálf Keira Knightley er að fara að detta á klakann með einhverjum gaur sem ég þekki ekki. Rupert Friend? Hljómar frekar hommalega. Djöfull ætla ég að komast að því hvar hún ætlar að halda sig. Ég hef ekki verið eins spenntur síðan, jahh, síðan bara eitthvað svakalegt gerðist. Þetta er gullið tækifæri og ég skal, vil og mun ná því að hitta Keiru. Sem ég heiti Sindri Sverrisson.

mánudagur, febrúar 11, 2008

Síðustu dagar hafa verið heldur betur æðisgengnir ágætu lesendur. Á þessum dögum hefur ýmislegt frábært átt sér stað en jafnfram ýmislegt sem er býsna dapurlegt (jú, ég er að tala um United-leikinn).

Hefjum leik á miðvikudaginn. Þá heyrði ég útundan mér að kosningar til stúdentaráðs stefndu í að verða hörkuspennandi, þvert á það sem ég hélt því ég bjóst fyrirfram við öruggum sigri minna manna í Röskvu. Ég ákvað því að taka málin í mínar hendur og hringdi einhver sex eða sjö símtöl til að redda atkvæðum. Það var létt verk. Aðfaranótt föstudags kom í ljós að þetta borgaði sig því þá kom í ljós að Röskva innbyrti aðeins nauman sigur, eða með sex atkvæða mun. Ég vil ekkert taka allt credit fyrir þetta en maður þarf nú kannski ekki að vera neinn stjarneðlisfræðingur til að sjá að ég gerði gæfumuninn. Sigrinum var að sjálfsögðu fagnað þar til um það leyti sem venjulegt fólk mætir til vinnu en ég lét það að sjálfsögðu ekki aftra mér í að gera heimadæmi í iðnaðartölfræði á föstudeginum. Hvernig það tókst er ofar mínum skilningi.

Um kvöldið lét ég svo Svein Áka taka mig í rassgatið í póker. Það fer bara að venjast.


Á laugardaginn vaknaði ég svo venju samkvæmt klukkan hálfníu um morguninn, nuddaði stírurnar úr augunum og dreif mig upp í iðnskólann í Hafnarfirði að búa til verkfærakassa. Frábært alveg. Sem betur fer var ég í hópi með einvalaliði snillinga og við kláruðum okkar verk á mettíma í sögu verkfræðideildar Háskóla Íslands (staðfest).


Kvöldið var svo eitt besta djammkvöld ársins hingað til. Verkfræðin snæddi þá djúsí dinner með kennurunum og sáu þeir um að halda uppi gríðarlegri stemmningu. Ég missti mig svo illa í drykkjunni að það endaði með því að ég fékkst til þess að dansa og syngja (engan einsöng samt) eins og enginn væri morgundagurinn. Liðið fór svo á English pub þar sem ég tók mig til og vann 8 stóra bjóra. Akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Skandalíseraði svo yfir mig áður en Raggi T. teymdi mig, í roki og kulda, svona 7/8 af leiðinni heim til mín af því að þar væri svo auðvelt að fá leigubíl heim. Takk Raggi.

mánudagur, febrúar 04, 2008

Getur verið að það sé rétt hjá mér að engum finnist í raun og veru lögin hans Páls Óskars skemmtileg? Að ef að fólk myndi kafa djúpt í sitt innra sjálf myndu allir komast að þeirri niðurstöðu að lögin séu bara alls ekkert skemmtileg? Að þetta sé bara hreinn og klár misskilningur hjá útvarpsstöðvum og plötusnúðum landsins sem reyna að spila það sem fólk fílar og eru alltaf að spila þessi blessuðu lög hans?

Mér er skapi næst að spyrja, eða hvað sem maður segir, því ég gjörsamlega hata þessi nýju lög frá honum. Og ég er nú ekki mikill hater. En þegar ég heyri sönglað "allt fyrir ástina" þá langar mig til að skalla vegg.

Þetta er svona eitt af því sem fer í taugarnar á mér þessa dagana.


Mér finnst heimurinn svoldið snúast um Asíu hjá mér þessa dagana. Fór t.d. á Nings um daginn og fékk mér asískan mat. Útskriftarferðin hjá verkfræðinni er til Asíu. Og svona mætti lengi telja. Fær mig til að velta því fyrir mér hvort það renni kannski asískt blóð í æðum mér. Skemmst að minnast þess að ég elskaði t.d. grjónagraut þegar ég var yngri, og mér skilst að hrísgrjón séu einmitt mjög vinsæl á þessum slóðum. Ég hef hins vegar alltaf verið frekar þeirrar skoðunar að ég sé í raun ítalskur. Horfum bara á staðreyndir:

1) Ég eeeelska ítalskan mat. Lasagne, pasta, pítsur og fleira.
2) Ég eeeelska flottar gellur.
3) Ég eeeelska fótbolta.
4) Ég eeeelska sólbaðsveður en hata þennan fimbulkulda hérna.
5) Rome-þættirnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér.
6) Fjölskyldan er mér mikilvæg.

En því miður hef ég alist upp á Íslandi og mun eflaust ala manninn eitthvað lengur hérna. Eða hvað? Ætti maður kannski bara að fara til Ítalíu? Nahhh, við erum með ítalskan mat hérna, flottar gellur og fótbolta. Familían er hérna og Ítalía er ekki aaalveg eins og Róm til forna. Þá stendur eftir veðrið og það er nú varla mikið eftir af þessum vetri er það? Allavega segir Helgi að það taki því ekki að setja vetrardekkin undir núna. Maður heldur sig þá bara hérna heima í bili.