Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, október 30, 2006

Mér finnst eins og ég hafi bloggað í gær en komst að því að ég bloggaði síðast á miðvikudaginn. Ekki nógu gott. Tíminn hefur líka flogið síðustu daga við geysiskemmtilega hópvinnu í aflfræði og fleira dásamlegt. Reyndar hefur nokkur tími farið í að spila nýja Pro Evolution Soccer sem ég eignaðist á föstudaginn. Þvílíkur happafengur.

Annars var ég einhverra hluta vegna að horfa á fréttirnar á stöð2 á laugardagsmorguninn. Nema hvað að á eftir fréttum kom smá spjall um veðrið. Og hver haldiði ekki að hafi verið að spjalla um veðrið, svona líka brosmild og kát? Jú, gellan með breiðu júllurnar sem er dyggum lesendum mínum að góðu kunn; Soffía Sveins efnafræðikennari með meiru. Gaman að þessu.

Ég ætla að hafa þetta stutt en að lokum vil ég óska Magga Mourinho og Birnu til hamingju með krakkann sem þau eignuðust í byrjun mánaðarins. Ég kíkti á stelpuna um daginn og ég hata að hljóma hommalega en þetta er helvíti mikil dúlla. Þau neituðu að gefa upp hvað hún yrði skírð en sögðu mér svo að ef þetta hefði orðið strákur þá hefði nafnið Sindri aldrei komið til greina sem mér þótti mjög skrítið því mér fannst þau alltaf glotta kankvíslega til hvors annars þegar ég spurði þau hvað þau myndu skíra barnið ef það yrði strákur. Greinilegt að maður er með gott ímyndunarafl.

p.s. Ég verð einn heima frá miðvikudegi fram á sunnudag þannig að ef einhver vill taka smá Pro með kallinum þá er opið hús.

miðvikudagur, október 25, 2006

Ég er þessi týpa sem fer stundum á klóstið. Og af því að ég er hörkuduglegur námsmaður neyðist ég stundum til að nota almenningsklósett eins og t.d. á bókhlöðunni. Nú, mér er spurn, hvað þýðir það þegar að á klósetthurðinni er merki fatlaðra, en líka mynd af konu og mynd af kalli? Þýðir það að allir megi nota þetta klósett, hvort sem þeir nota hjólastól eða ekki? Eða þýðir þetta að aðeins fólk í hjólastól megi nota þetta klósett en svo er mynd af konu og kalli til að leggja áherslu á að fatlaðir eru líka fólk? Mér finnst nebbla þægilegra að nota þessi klósett heldur en hin sem bara hafa mynd af kalli, en ég vil náttúrulega ekki vera að nota klósett sem er ekkert ætlað mér. Nú eruð þið kannski að velta fyrir ykkur af hverju ég vilji frekar nota þessi klósett en málið er að þau eru yfirleitt rýmri, sem er ekkert nema þægilegra fyrir mann með netta innilokunarkennd, og einnig segir efnafræðin okkur það að skítalykt er þykkari eftir því í hversu litlu herbergi hún er. Þannig er nú það.

Að lokum er hér skemmtileg mynd af kallinum frá því í vísindaferð síðasta föstudag. Ég veit ekki alveg hvað ég er að gera en ég hef greinilega haft í hyggju að hringja eitthvert. Grímur er þarna með mér og var hann enn með meðvitund þegar þessi mynd var tekinn.

þriðjudagur, október 24, 2006

Heyrðu já, kallinn er með svona teljara hérna á þessari síðu. Með þessum teljara get ég séð í gegnum hvaða síður fólk kemur á mína síðu. Margar af þessum heimsóknum koma í gegnum Google.com, þar sem fólk virðist leita að ótrúlegustu hlutum. Vinsælust eru að vísu leitarorð á borð við "Jenna Jameson" eða "Angelina Jolie", og af því að ég hef einhvern tímann áður fyrr ritað um þessar konur að þá endar fólk á minni síðu. Magnað ekki satt? Ég skal leyfa ykkur að sjá hvaða leitarorð leiddu fólk á mína síðu í dag:

"mér hlakkar svo til mig jólalög"

"angelina jolie um hana á íslensku"

"hvað er gelgja" -
mér fannst fyndið að þessi skemmtilega spurning skyldi leiða fólk á mína síðu.

"raggi faggi" -ekki veit ég hverjum hefur dottið í hug að leita að þessu.

"sindri" -jamm...

"stuttir spariskór" -uuu, ha? Hver leitar að þessu?

"eðlisfræði í leikskóla"

"tyrkneska námskeið"

"fyndinn brandari"

"dagný sigfús"

"jón sigurðsson"


Já, magnaður andskoti þessi nútími.

Annars hef ég það bara bærilegt en ég verð þó að segja eins og er að ég er farinn að hlakka til jólafrísins. Það styttist þó í það...

miðvikudagur, október 18, 2006

Já, blessuð verkfræðin heldur áfram að stela frá manni tíma í tíma og ótíma. Öll seinasta helgi var undirlögð af undirbúningi fyrir efnisfræðipróf þrátt fyrir fjölda ástæðna til að gera eitthvað skemmtilegra. Skemmtilegt þótti mér að heyra í henni Birnu Katrínu sem er komin aftur á klakann. Hún hringdi svona líka hress í mig á föstudagskvöldið og bað mig um að hitta sig. Það heyrðist reyndar voða lítið í drafandi röddu hennar sökum láta, þannig að ég er ekki enn viss hvort ég átti að hitta hana á októberfesti, Glaumbar eða þá hvort hún vildi einfaldlega að ég kæmi út að hlaupa.

Föstudagskvöldinu eyddi ég hins vegar að góðum hluta til í að skutla Dagnýju og vinkonum bæjarfélaga á milli. Kíkti í örskotsstund inn til Eddu Maríu, sem hélt uppá afmælið sitt, en gerði lítið annað en að fá mér kökusneið, tilneyddur.

En það sem eftir lifði helgar fór sem sagt í próflestur, og reyndar meðfylgjandi pásur frá próflestri, því nú ætlaði kallinn sko að setja markið hátt. En ég náði nú ekki að eyða alveg jafn miklum tíma með bók í hönd eins og ég hafði vonast til. Prófið gekk samt alveg lala held ég.

Ég veit að hinir ýmsustu aðdáendur mínir um allan heim eru farnir að velta fyrir sér hvort ég fari ekki bráðum að spila fótbolta. Það væri þó ofsögum sagt að tilboðunum rigni yfir mig, en ég meina, hver vill fá til sín meiddan fótboltamann? Ég held samt að ég sé að fara að komast í lag, en það er einmitt svipuð tilfinning og ég hafði um miðjan júnímánuð. Svo er líka einhver hola í lærinu sem er frekar grunsamleg.



En svo við snúum okkur að þjóðmálunum að þá verð ég að segja að þættirnir "Tekinn" með Audda Blö á Sirkus eru að gera frekar góða hluti. Ég myndi samt vilja sjá aðeins meira djúsí selebrítis vera tekinn. Væri t.d. frekar feitt ef Auddi gæti tekið Davíð Oddsson með einhverju góðu sprelli. Sé það alveg fyrir mér; "Ég heiti Davíð Oddsson og ég var tekinn... illa!" Eða kannski Ólaf Ragnar og Dorrit? Er það of langt gengið?

Sjálfstæðispésarnir streyma inn til mín í pósti þessa dagana enda prófkjör í nánd. Ég hef nú ekki endanlega gert upp hug minn en þar sem að ég hef ekki áhuga á að fá Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Guðlaug Þór Þórðarson, Pétur Blöndal eða þennan Birgi Ármannsson sem gerði sér lítið fyrir og koveraði Blaðið í dag, þá er kannski ekkert vit að ég sé að kjósa um þetta. Mér lýst hins vegar vel á að kjósa Grazynu Okuniewsku þannig að kannski maður hendi inn atkvæðisseðli bara fyrir hana. Ef þið vitið um eitthvað snilldarfólk sem býður sig fram þá megiði henda inn kommenti.

"Já, margt er nú skrítið í kýrhausnum", eru eflaust flestir að hugsa núna. Því verður ekki breytt en vonandi hafið þið það gott þarna úti og hafið samband ef þið eruð eitthvað að skemmta ykkur á föstudaginn. Klárum þetta með einu örortu ljóði.


Í kennslustofunni.
Kennarinn vill að ríki friður
en er það ekki miður,
að orð í tíma töluð skuli
oftast þögguð niður?

miðvikudagur, október 11, 2006

Jáhh, góðan daginn. Kallinn kannski ekkert allt of duglegur að blogga þessa dagana. En það er svona að vera bara á einhverju fylleríi og fá svo sjúkan móral yfir því að vera ekki búinn að læra neitt en geta ekki lært neitt af því að maður er frekar þunnur á því svo að maður verður bara að læra þeim mun meira daginn eftir þynnkudaginn og er kannski uppí VR-2 fram yfir 8 á kvöldin. Það er náttúrulega bara rugl.

En já, svo ég púlli nú almennilega gelgju á þetta þá ætla ég að segja ykkur frá helginni. Á föstudaginn fór ég að sjá hina stórmerku tímamótamynd The Texas Chainsaw Massacre (the beginning). Það má með sanni segja að maður sé ríkari maður í dag. Óvíst að svo hefði verið ef maður hefði farið á eitthvað af þessum menningarslysum sem verið er að sýna á þessari kvikmyndahátíð.

Á laugardaginn gerði ég mér dagamun og fór í partí. Reyndar bauð ég fyrst nokkrum vel völdum folum að koma heim og horfa á Ísland tækla Lettland í rass. Reyndar töpuðu þeir svo 4-0 í alveg drepleiðinlegum leik. Það var ömurleg byrjun á annars ágætu kvöldi. En já, síðar var svo haldið í partí til Andreu, kærustu Ragga Þórs, þar sem mikið var mætt af MH-ingum sem reyndar voru of ungir til að ég kannaðist eitthvað við þá. Mjög hresst og gaman að sjá að goðsögnin um íþróttaráð MH veturinn ´04-´05 lifir, því yngismeyjarnar í partíinu voru að missa sig yfir að við skyldum mæta. Því miður fyrir þær er ég hræddur um að við séum allir gengnir út nema Krissi, og hann einbeitti sér frekar að því að tala við Atla Antons um stúdentapólitík en að sýna stelpunum einhvern áhuga.

Sunnudagurinn var svo sem ekkert svakalega dásamlegur framan af, og tók ég þá ákvörðun að hætta að drekka. Ekki vegna þess að þynnkan hafi verið eitthvað slæm, heldur vegna þess að ég er kominn með bumbu. Hún sést ekkert mikið þegar ég held inni andanum, en mæ ó mæ, hún sést þegar ég anda út. Þannig að það verður októberfest mínus áfengi hjá mér, sem sagt bara venjulegur október. Hoho.

Á sunnudagskvöldið mætti svo mín heittelskaða Dagný í matarboð hingað á ættaróðalið í skaftahlíðinni. Hún komst vel frá því stelpan og kláraði matinn sinn enda kurteis með eindæmum. Það er annað en ég því ég var að rifja upp sögu af því þegar ég fór í jólaboð til vinafólks mömmu og pabba hérna á Skógum um árið. Þá fékk ég alveg viðbjóðslega vonda köku í eftirmat, en ég hafði fengið mér frekar stóra sneið og það var bara ekki séns að klára hana. Þess vegna ákvað ég að bregða á það ráð, vildi náttúrulega ekki leifa kökunni, að laumast með diskinn minn inná klósett og sturta kökunni niður. Ekki vildi það nú betur til en svo að kakan vildi ekkert sturtast niður, sem mér fannst mjög órökrétt því hvað er kaka annað en verðandi kúkur? Eftir að hafa verið inná klósti í svona hálftíma og sturtað niður með reglulegu millibili hafðist loks að koma kökunni útá rúmsjó. Enn þann dag í dag veit ég svo sem ekki hvort þetta blessaða vinafólk vissi hvað ég var að gera eða hvort það hélt að ég væri bara með svona bullandi jólahægðir.

þriðjudagur, október 03, 2006

Hlutir sem ég er að hata:

Nýtt fyrirlestrasystem háskólans. Fyrirlestrarnir orðnir 90 mínútur sbr. 70 mínútur í fyrra. En verð ég þá kannski 28,57% betri verkfræðingur en þeir sem voru á 2. ári í fyrra?

Útvarpið í bílnum mínum. Veit ekki af hverju ég er ekki búinn að laga það ennþá, en eins og góðvinir mínir vita sumir þá á útvarpið það til að hækka í sér án þess að maður geri nokkuð. Svo er bara ómögulegt að lækka í því fyrr en að því finnst nóg komið og lækkar sjálft í sér aftur (er reyndar kominn með smá tækni í að fixa það, en þetta er samt ömurlegt).

Tímaleysi. Ég fór í pro fyrir rúmri viku síðan, sem er allt of langur tími. Það var reyndar við bestu aðstæður sem ég hef spilað tölvuleik. Skjávarpi og heimabíógræjur takk fyrir.

Matarverð á Íslandi. Matur og bensín er það eina sem ég eyði einhverjum pening í þessa dagana. Ég sætti mig við bensínið, enda kennir það manni bara að keyra minna, en ég verð fjandinn hafi það að fá mér nóg að borða. Ég vildi óska að stúdentar væru með 50% afslátt af öllum mat, þá væri lífið fullkomið.

Áfengi. Sunnudagurinn síðastliðinn er einn sá djöfullegasti sem líkami minn hefur upplifað lengi. Ég lofaði sjálfum mér því að drekka aldrei aftur. Ekkert getur réttlætt svona vanlíðan. Þetta er þó runnið hjá núna.


Annars er ég að fíla:

Prison Break. Get ekki hætt að lofa þessa þætti. Þátturinn í dag var sérlega góður.

Svefn. Enda búinn að fá mikið af honum í dag. Svaf aðeins lengur en aflfræðikennarinn minn mælir kannski með, og tókst samt að sofna núna eftir kvöldmat. Ef ég mætti ráða myndi skólinn alltaf byrja klukkan hálftíu, það væri næs.

United. Með Solskjær í broddi fylkingar eru mínir menn að gera fína hluti í byrjun tímabilsins. Ég er löngu búinn að fyrirgefa Ronaldo hvað hann var mikill wanker á HM. Þessi maður er snillingur og þegar hann er í byrjunarliði að þá veit maður að leikurinn verður skemmtilegur. Vona að hann verði sem lengst hjá okkur.

Kafbát síðasta mánaðar. Þegar ég fór í fyrsta sinn á Subway fór ég með Jóa vini mínum og við fengum okkur pítsakafbát. Hann var snilld og í nokkur ár á eftir var þetta uppáhaldsskyndibitinn minn. Það hefur því rifjað upp góðar minningar að læsa tönnunum í einn slíkan uppá síðkastið. Vitiði hvaða bátur er núna?

Nudd. Það er svakalega næs.

Bíópopp. Þess vegna er ég mjög hryggur yfir því sem ég les á blogginu hans Krissa, að það sé búið að hækka bíómiðann uppí 900 kall. Hvaða lundarreykjadalskjaftæði er það líka að báðar bíósamsteypurnar hafi hækkað verðið á sama tíma? Eigum við að tala um ólöglegt verðsamráð eða? Nú er bloggið hans Krissa ekki áreiðanlegasta heimild sem völ er á, þannig að ég ætla að bíða með að snappa þangað til ég fæ þetta staðfest.

White Russian. Unaðslegur drykkur og miðað við formið á mér í keilunni hérna á dögunum að þá er spurning hvort maður sé ekki að breytast smám saman í the dude. Ég var líka alltaf að fíla þann gaur mjög mikið.