Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

föstudagur, júlí 22, 2005

Hundurinn Snoop kom á klakann um daginn. Vissulega fréttnæmt, en öllum blöðum (hvaða samheiti er hægt að nota yfir DV, Morgunblaðið, Blaðið og Fréttablaðið? Nær "blöð" yfir einhverja fleiri fjölmiðla?) landsins fannst líka fréttnæmt slúðrið um það hvað Snoop vildi hafa til taks baksviðs á tónleikunum. Ég man nú ekki alveg listann en þar mátti allavega finna sjónvarp, útvarp (á hvaða rás ætli hann hafi stillt?), X-BOX tölvu, ferska ávexti og fleira.

Nú er ég að verða 19 (tímabært fyrir ykkur að huga að gjafakaupum kæru lesendur) ára og þess vegna örugglega ekki langt að bíða þess að ég verði heimsfræg rokkstjarna eða harður rappari (tæpt samt að ég verði rappari því allir almennilegir rapparar hafa alist upp við erfiðar aðstæður og rappa um það. Ég, eins og flestir Íslendingar, lifi svo fáránlega góðu lífi... hvað á ég að rappa? "Jójó, ég hef ekki efni á að kaupa bíl því ég er að fara í HÍ, bara að ég gæti sungið eins og David Bowie".).
Aaallavega þá fór ég að pæla hvernig minn listi yrði. Ég er viss um að maður myndi svona smám saman átta sig betur á því hvað maður vill en hérna er svona hugmynd að lista:

  1. Ísskáp fullan af kóki í gleri. Kuldinn í ísskápnum þarf nota bene að vera mjög nálægt því að geta fryst kókið.
  2. Sjónvarp, Playstation2 tölvu og Pro Evolution Soccer. 4 fjarstýringar og þrír gaurar sem myndu spila við mig og ég myndi alltaf vinna.
  3. DVD spilara og heimabíókerfi og allt safnið frá Vivid og Seymoure Butts.
  4. Hvítan, tandurhreinan Lazyboy leðurstól af bestu gerð.
  5. Grillað nautakjöt, fituafskorið og skorið í hæfilega stóra bita. Gráðaostasósu og franskar eins og á American Style.
  6. Rjúkandi Santa Fe frá Dominos og ekki spara fokking kjúklinginn.
  7. Fótboltamark og alvöru markvörð til að standa í markinu. Premier leauge bolti er líka möst.
  8. Upptaka af leik Man.Utd. og Bayern Munchen í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 1999.
  9. 7 Nuddarar.
  10. Þvottabala fullan af Skittlesi.
  11. Stellu í gleri og Víking í dós. Grafið í frosna jörðu eins og í myndinni Blinkende Lygter.
Með þetta baksviðs held ég að ég væri helvíti vel settur. Get ekki ímyndað mér að þetta séu einhverjar rosalegar kröfur miðað við tónlistarsnillinginn sem ég á eftir að verða einn daginn.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Þá er það komið í ljós að þetta vesen á hægri fætinum mínum er eitthvað meira en bara smá eymsli. Fór til læknis í gær og eftir að hann skoðaði á mér hnéið áttum við þetta samtal:

Sindri: Jæja, er þetta ekki bara smá vesen sem lagast í dag eða á morgun?
Læknir: Ég er hræddur um að ástandið sé alvarlegra en það...
Sindri: Hva, hva, hvað meinaru?
Læknir: Sindri, það virðist sem það hafi kvarnast úr liðþófa í hægra hnénu á þér.
Sindri: Hjúkket maður, í smástund hélt ég að þú ætlaðir að fara að segja að ég væri fótbrotinn eða eitthvað og gæti ekki spilað fótbolta það sem eftir er af sumrinu.
Læknir: Þú munt ekki geta spilað fótbolta það sem eftir er af sumrinu.
*Þögn*
Sindri: Þetta fannst þér fyndið.
Læknir: Já.

Og sem sagt, ég má líklega ekki spila meiri fótbolta í sumar og ég má ekki heldur reyna neitt á löppina næstu daga. Það er liðinn sólarhringur frá því að ég komst að þessu og mér líður satt að segja bölvanlega. Ég grét smá í bílnum á leiðinni frá lækninum en það var samt líka út af því að ég var á bílnum hans Eyjó (vinnufélaga) og ætlaði að stela tyggjói af honum, en þá var þetta svona hrekkjatyggjó sem gaf manni þvílíkt stuð ef maður reyndi að fá sér. Það var eiginlega til að fullkomna ömurleikann.

Ég er því búinn að vera einhverfur alla helgina og sleppi Snoop í kvöld. Gaman að þessu.

föstudagur, júlí 15, 2005

Þetta blogg verður í punktaformi. Þetta verða merkilegir punktar sem mér finnst nauðsynlegt að birta alþjóð á alnetinu svo þeir megi varðveitast um örófir alda.

  • Ég er að drepast í hægra hnénu eftir að hafa snúið duglega uppá það í fótbolta í gær. Núna finnst mér eins og það séu svona 2 lítrar af vökvasulli í hnénu og væntanlega væri viturlegast að fara til læknis. Því nenni ég hins vegar hvorki né tími.
  • Ég var að panta pizzu því ég er einn heima og vil ekki pína mig útí búð til þess eins að kaupa eitthvað dót sem ég þarf svo sjálfur að elda.
  • Pizzan er komin, ég held áfram á eftir.
  • Ég heimsótti afa í gær og í dag á elliheimilið hans. Hann er að sögn langmesti húmoristinn á pleisinu. Það kemur mér ekki á óvart.
  • Mér fannst miklu mun mikilvægara að kaupa mér bjór fyrir helgina heldur en að kaupa mér föt fyrir helgina.
  • Ég þarf nauðsynlega að fara að kaupa mér föt, fara í klippingu og nýta mér sólina þegar hún er að láta sjá sig. Annars verð ég aldrei metró.
  • Reyndar nýtti ég mér sólina dável á frídegi í gær þegar ég sofnaði úti á svölum. Það er mjög greinilegt (og fyndið) far á lærunum mínum eftir stuttbuxurnar (það liggur svona í bylgjum einhvern veginn).
  • Ég er hættur í "office space"-vinnunni sem ég er búinn að vera í síðan í febrúar og hef verið að smíða síðustu daga.
  • Í smíðunum er ég að hjálpa frekar sérstökum en fyndnum kalli sem er ekki að fíla svarta manninn og hatar ekki að fá sér sígópásu á hálftíma fresti. Hann hatar ekki heldur að tala um þá iðju að "vesenast í kjeeellingum" eins og hann orðar það.
  • Í næstu viku verð ég svo að vinna í Intersportinu sem ég hef gefið frí í mest allt sumar. Það verður fínt, ég veit það.
  • Ég tapa bara og tapa í fótboltanum en ég neita að kenna sjálfum mér um það. Ég er alla jafna bestur á vellinum.
  • Mér finnst ömurlegt hvernig tölvuleikjaauglýsendur nota það sem auglýsingatrikk að leikir séu bannaðir innan 18 ára. Takið eftir þessu. Það kemur svona töff og rám rödd sem segir manni að "leikurinn sé stranglega bannaður innan 18 ára". Það er svona "hættulegt og þar af leiðandi freistandi"-fílingur í þessu. Ömurlegt.
  • Ég var að tékka stundatöfluna fyrir iðnaðarverkfræði eins og hún var síðasta haust. Það lítur út fyrir að ég verði að eyða svolitlum tíma við lærdóm næsta vetur.
Ég man ekki eftir fleiru í augnablikinu þó það sé eflaust margt og mikið sem ég ætti að hafa bloggað um síðan ég bloggaði síðast. Mér finnst líka leiðinlegt að af því að það líður svona langt á milli færsla þá blogga ég aldrei neitt skemmtilegt og fresco, heldur bara einhver leiðindi um hvað ég hef verið að gera upp á síðkastið. Það er örugglega ekki gaman fyrir marga að lesa.

Later skater.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Djöfullinn maður. Ég skellti mér í útilegu um helgina með Krissa, Magga litla, Hróa og frú (hans frú), og var ferðinni heitið til Ólafsvíkur. Við komum seint á föstudagskvöldinu og störtuðum smá gítarstemmningu. Eftir nokkra bjóra var ég farinn að syngja óaðfinnanlega. Nokkuð sáttur með það, hélt ég kynni bara ekkert að syngja. Svo labbaði ég um svæðið með Krissa til að finna fyrir hann álitlega brunddollu og mér fannst ég standa mig með prýði í þeim málum. Einhvern tímann um nóttina fannst mér kominn tími til að fá mér að sofa. Með klókindum tókst mér að finna tjaldið mitt og þar steinsofnaði ég við hliðina á Magga bjútí.

Þegar ég vaknaði um morguninn leið mér djöfullega (þess vegna byrjaði færslan á "djöfullinn maður"). Ekki var ég bara nett þunnur og ógeðslega myglaður, heldur var ég líka holdvotur og svo var mér skítkalt. Ég var alls ekki búinn að sofa nóg þannig að ég reyndi að halda augunum lokuðum, kúra mig oní svefnpokann og komast inní draumalandið aftur. Eftir hálftíma baráttu gafst ég upp og opnaði augun. Þá komst ég að því að tjaldhimininn var fokinn í burt og rigningin buldi á fortjaldinu. Svo heppilega vildi til að ég svaf undir einhverju loftgati þannig að rigningin buldi hreinlega á svefnpokanum mínum. Eins og það væri ekki nógu mikil bleyta þá hafði kæliboxið fokið um koll og allur klakinn sem var í því hafði bráðnað og úr var orðin ágætis sundlaug á tjaldbotninum. Ég hef sjaldan verið jafn pirraður. Ákvað að fara bara fram úr og koma mér í föt og reyna að finna tjaldhimininn. Þá sá ég að gallabuxurnar mínar, einu síðbuxurnar sem ég tók með, voru rennandi blautar eftir flóðið úr kæliboxinu. Ég fór því í stuttbuxur sem var ekki mjög skemmtilegt í þessum skítakulda. Þegar ég svo ætlaði í skóna þá fann ég þá ekki fyrr en ég opnaði tjaldið. Ég hafði þá skilið þá eftir fyrir utan í rigningunni og þeir voru þess vegna líka blautir í gegn. Á þessum tíma var heita baðið heima alveg frekar mikið freistandi.

Maður lagaðist þó smám saman eftir að hafa farið í sund (þó sundlaugin í Ólafsvík sé líklega sú lélegasta á landinu (við erum að tala um ískalda innilaug)) og fengið sér nokkra lítra af vatni (skrítið að maður skyldi ekki vera búinn að fá nóg af því). Rigningin var samt ekkert á því að hætta þannig að á endanum varð niðurstaðan sú að beila bara aftur í öryggi borgarmarkanna.

Í gærkvöldi grilluðum við því útilegugrillkjötið bara heima hjá Magga og eftir það var tekið smá Pro Evolution stemmó sem endaði með því að verða eitt það svakalegasta sem ég hef lent í (við erum að tala um 5 mörk í framlengingu og sigurmark á 120. mínútu). Ég beilaði svo á strákunum og sleppti því að fara í bæinn því mér fannst hlýr konufaðmur í Kópavogi öllu meira freistandi. Svo kíkti ég til Dagnýjar og fékk mér að sofa þar. Mamma hennar heldur örugglega að ég sé einhver slefandi aumingi því ég sef svo oft fram á miðjan dag þegar ég gisti hjá henni. Kom fram úr um þrjúleitið í dag og það hefði örugglega ekki verið svona snemma nema af því að systir mín hringdi í mig og vakti mig. Skrítnastur er maður sjálfur.

Jæja, ég er farinn í bíó. Ætla að sjá Batman-myndina. Væntingar mínar til þeirrar myndar eru afar takmarkaðar og það er yfirleitt góðs viti. Hafið það gott og gleðilegt.