Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Ég læt sjaldan blekkjast af tilboðum, hef ekki farið á útsölu síðan ég vann í intersport, og hef í raun alltaf varann á. En núna er ég líklega búinn að selja Tal sálu mína því ég samdi um að vera hjá fyrirtækinu næstu sex mánuði gegn því að fá mánaðarlangt fríkort á bónus-video. Ég þykist vita að einhvers staðar í smáa letrinu hafi ég ánafnað Tal allar mínar veraldlegu eigur ef ég fell frá.


Talandi um tilboð og svona þá finnst mér þau oft vera frekar undarleg. Ég nefni tilboðið á Aktu Taktu sem dæmi. Hamborgari og kók á 400? Við vitum öll að enginn borðar hamborgara án þess að bæta við frönskum og millistærð kostar 429. Það gerir 829 sem er hundlélegt. Þetta frábæra afmælistilboð er reyndar hætt núna og hambó, franskar og kók kosta nú 929. Til samanburðar kostar hambó, franskar og kók í golfskálanum í mosó 850, en þeir eru örugglega að selja mikið fleiri borgara þar.


Annað tilboð sem hefur verið mér hugleikið í sumar er það sem er í gangi í Bónus. Í hvert eitt og einasta skipti sem ég hef komið þangað í sumar hafa svínakótiletturnar verið á 30% afslætti. Það voru engar svínakótilettur, en svo komu svínakótilettur, og þegar svínakótiletturnar komu voru þær á 30% afslætti. Er það ekki jafnvel skrítnara en síðasta setning? Mér finnst þetta alla vega alveg fáránlegt. Segið mér bara hvað kjötið kostar í staðinn fyrir að heilla mig með einhverjum gulum afsláttarmiða.


Eða tilboð þeirra ágætu manna sem sjá um stöð2sport2, stöðina sem sýnir enska boltann. Fáðu þér áskrift í 12 mánuði og þú færð 5% afslátt. Það þýðir sparnað upp á 2.628 krónur á ári. Ef ég hins vegar sleppi því að vera áskrifandi í júní og júlí, ÞEGAR ÞAÐ ER ENGINN ENSKI BOLTI Í GANGI, spara ég 8.780 krónur. Og þetta er miðað við verðið sem hefur verið síðasta árið, en það er auðvitað að fara að hækka um 400 kall á mánuði. Helvíti blóðugt að þurfa að borga 4790 krónur á mánuði tveimur árum eftir að maður borgaði 2000 kall, en auðvitað er Guðni Bergs með þátt á laugardagskvöldum þannig að þetta er vel skiljanlegt.


Fleiri tilboð mætti nefna eins og þetta skíta límmiðakerfi hjá Serrano. Þú safnar sirka sautján miðum og færð einn burrito frían, en þarft að kaupa þér gos með honum. Ekki svo að skilja að ég vilji fá frítt gos, en það er fáránlegt að hreinlega VERÐA að kaupa gos til þess að fá frían burrito. Voðalega frír eitthvað.


Hmm, komst allsvakalega á flug þarna. Ætlaði nú bara aðeins að tjá mig og benda báðum lesendum mínum á glænýja bloggsíðu meistara Helga Hrafns sem er farinn til Ástralíu að læra grafíska hönnun. Síðan hans er hér.

Góðar stundir.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Þvílíkir snillingar þarna í þessu handboltalandsliði. Ótrúlegir að ná í silfur. Ég veit ekki hvort þetta var þegar orðinn svona hrikalega góður árangur eða hvort ég var bara skítþunnur, en ég alla vega nennti ekkert að æsa mig á sunnudagsmorguninn þegar Frakkarnir rúlluðu okkur upp. Sunnudagurinn, gærdagurinn ef þú vilt, var einmitt einn sá erfiðasti sem ég hef upplifað. Náði svona tveggja tíma svefni eftir leikinn áður en ég þurfti að mæta í vinnuna og fann að ég mátti örugglega ekki keyra bíl. Dreif mig í vinnuna og greip með mér klassíska twister-parið á KFC en þrátt fyrir að það sé oft ljúft gerði það ekkert fyrir mig.

Það var ekki fyrr en ég fór á Fjölnisvöllinn sem að líkaminn komst í lag. Í hálfleik var nefnilega boðið upp á burgers og þrátt fyrir miklar efasemdir ákvað ég að testa einn. Þvílíkur unaður. Tvímælalaust einn sá allra besti borgari sem ég hef smakkað. Held að þessir borgarar séu ættaðir frá Eika feita þannig að það er ljóst hvert ég fer næst þegar svona stendur á.


Fór um helgina í partý þar sem voru nokkrar gellur úr ungfrú Ísland-keppninni í vor. Það var alveg kominn tími á að ég færi í fagnað þar sem gestirnir væru samboðnir mér. Þær eyddu hins vegar öllu kvöldinu inni á baðherbergi að snurfusa sig og þurftu svo að fara heim því klukkan var orðin svo margt. Smá vonbrigði. Í staðinn talaði ég við stelpu sem finnst Blade vera besta kvikmynd sem gerð hefur verið. Ekkert að því.


Jájá, djöfull er þessi færsla eitthvað þunnur þrettándi. Ég ætla að setja inn myndir hérna til að bjarga henni.

Þetta er Leryn Franko frá Paragvæ sem kosin var fallegasti keppandinn á Ólympíuleikunum í Peking. Keppti í spjótkasti og kastaði styttra en Ásdís Hjálms sem þó var meidd á olnboga (óhentugt þegar þú ert að keppa í kastgrein). Franko er alveg frekar flott en er hún einhver Ragna Ingólfs? Maður spyr sig.

Svo væri ég nú alveg til í smá sundknattleik með Ritu Dravucz frá Ungverjalandi. Hún leiddi sitt lið í undanúrslitin, skoraði sex mörk í riðlakeppninni, en þrátt fyrir góða frammistöðu Ritu bæði í undanúrslitaleiknum og leiknum um bronsið urðu þær ungversku að gera sér fjórða sætið að góðu.


Rita lætur greinilega ungverskt veðurfar ekki á sig fá og klæddist hlýrabol þegar þessi mynd var tekin í talsverðum vindi.

Svo mætti Amanda Beard alveg vera með okkur, hún ætti að geta staðið sig þó hún sé vanari að synda án bolta.

Það kostaði handlegg að fá leyfi FHM til að birta þessa mynd svo njótið vel.

föstudagur, ágúst 22, 2008

Jæja, kallinn bara dottinn í þriggja daga vaktafrí. Er að nýta það mjög vel, drukkinn að horfa á úrslitaleik í strandblaki kvenna. Mjög gott. Ég held að ég gæti orðið mjög góður í strandblaki ef ég myndi nenna því. Ég fæ reyndar svipaða tilfinningu með allar aðrar íþróttir þegar ég er búinn með hálfan bjór, en strandblak virkar samt á mig sem eitthvað sem ég væri mjög mjög góður í. Ég er til dæmis bestur í vinahópnum þegar við kíkjum í nauthólsvík. Ég hef bara þessa strandblakslegu hugsun sem þarf að hafa.


Mig langar að segja mjög margt annað en ég ætla frekar að horfa á strandblakið.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Þá er afmælisdagur númer 22 á enda runninn og eftirtaldir einstaklingar eru hommar:

Helgi Hrafn Kormáksson
Hrólfur Fossdal Ásmundsson
Ragnar Örn Kormáksson
Ragnar Þór Ragnarsson
Ragnar Trausti Ragnarsson
Sveinn Áki Gíslason

Afsakanir á borð við "Ég var í Ástralíu" og "ég gleymdi bara að þú ættir afmæli" verða ekki teknar gildar.

Afmælisdagurinn er búinn að vera mjög venjulegur: Marengskaka í morgunmat, mætt í vinnu, farið í að taka viðtal við keiluspilara, horfa á KR vinna Stjörnuna, borða marengsköku, horfa á júdó og blogga.

Það lítur út fyrir að ég hafi rifið vöðvaþræði í vinstra lærinu í fjórða skiptið þarna á þjóðhátíð en mér tókst að keyra beinskiptan í dag þannig að þetta er allt á réttri leið. Mér finnst svolítið eins og ég bloggi um lítið annað en vinstra lærið mitt þannig að ég ætla að hætta því hér með.


Í dag leikur FH við Aston Villa á Laugardalsvelli. Ánægður með hvernig FH-ingar eru að tækla miðasöluna á leikinn en dýrustu sætin kosta 3000 og hægt að fá góð sæti á 2000, enda fínar líkur á að það verði uppselt. Guð einn veit hvað myndi kosta ef KSÍ fengi að ráða miðaverðinu. Nú er bara að krossleggja fingur og vona að ég verði sendur í að fá komment frá stórvini mínum Martin Laursen, Gareth Barry og félögum eftir leikinn.


p.s. ég var að hugsa um það í sturtunni í morgun hvað það væri gaman að vera svaramaður. Fólk er orðið allt of hrætt við að gifta sig. Skora á vini mína að gera einhverja alvöru úr þessum samböndum sínum og skella sér á skelina. Pant þá vera svaramaður. Er það ekki annars til á Íslandi? Kveðja, einn óviss.

laugardagur, ágúst 09, 2008

Jæja, þá er vika liðin og mér líður djöfullega. Ég ætlaði að blogga um þetta þegar ég væri búinn að jafna mig en ég nenni ekki að bíða lengur.

Ég fór sem sagt á þjóðhátíð um síðustu helgi og það var besta þjóðhátíð sem ég hef farið á. Alveg þangað til á miðnætti á föstudagskvöldinu, þremur tímum eftir að ég lenti. Þetta byrjaði eiginlega með því að á leiðinni til eyja las ég grein í mogganum þar sem fólk var að segja frá gömlum verslunarmannahelgarævintýrum, og ég sá að gáfumennið Gillz hafði reynt við Brennuhlaupið fræga ásamt félögum sínum en mistekist illa. Þá hugsaði ég með mér, Gillz? Hann er allt of þungur. Ég myndi fara létt með þetta.


Í brekkunni um kvöldið nefndi Krissi svo þetta brennuhlaup, sem snýst sem sagt um að hlaupa framhjá gæslumönnum og reyna að komast sem næst brennunni stóru á Fjósakletti. Þetta hefur verið reynt í mörg ár en alltaf hafa menn verið stoppaðir. Þegar ég er búinn með einn bjór líður mér hins vegar yfirleitt eins og að ég geti unnið heiminn. Þess vegna tók ég áskorun Krissa um að taka þetta hlaup, og hann ætlaði meira að segja að gefa mér kippu ef ég kæmist ákveðið langt .


Eftir að hafa metið aðstæður, kannað helstu veikleika og styrkleika andstæðinganna (gæslumanna), og hitað upp með nokkrum armbeygjum og fyllerísrápi, ákvað ég að láta til skarar skríða. Skv. vídjóinu hans Krissa náði ég að hlaupa svona 20 metra áður en ég lenti í verstu tæklingu sem ég hef fengið á öllum mínum knattspyrnuferli. Svo slæm var þessi tækling að í dag, rúmri viku seinna, er vinstra lærið á mér allt fjólublátt og gult og hnéskelin er alveg örugglega ekki á réttum stað. Þetta er samt allt að lagast en ég ætla ekki að ljúga að ykkur, síðastliðin vika er búin að vera helvíti. Ekki nóg með það heldur var 11.000-króna armbandið klippt af mér og uppáhalds buxurnar mínar rifnuðu. Ef ég vinn ekki í lottóinu í kvöld þá er ekkert réttlæti.


Ég gat því ekki tekið alveg jafn vel undir þegar þjóðsöngur Eyjamanna, Lífið er yndislegt, var sunginn, en fjölmargt frábært fólk sá til þess að mér leið alveg bærilega (sérstaklega hjálpaði til að vera boðið í kvöldmat bæði kvöldin, fáránlega ljúft). Ég náði meira að segja að djamma vel á laugardeginum en var ekki beinlínis að heilla kvenfólkið þarna, haltrandi um eins og versti róni með ógeðis skrámur út um allt andlit. Mig langaði líka til að deyja í nokkra daga þegar ég vaknaði á morgnana, þunnur og þreyttur að drepast í líkamanum.


Þessi svipur heillaði ekki dömurnar.

Fólk hataði heldur ekkert að horfa á mann undarlegum augum, eins og að ég væri einhver ógeðis slagsmálahundur. Eini staðurinn þar sem ég mætti skilningi ókunnugra var á sjúkrahúsinu þar sem myndaðist fáránlega skemmtileg stemning meðal sjúklinganna á meðan við biðum eftir aðstoð. Þarna var alls konar fólk, allt frá gelgju með snúinn ökkla til gamallar konu sem að gelgjan hélt að væri "mjaðmagrindsbrotin." Einnig var þarna gæi með hálsbólgu, mjög rökrétt að leita til læknis þegar þannig bjátar á.
Læknirinn henti í mig nóg af verkjalyfjum til að drepa ísbjörn en ég ákvað að fara varlega í þau eftir að ég sá hann segja "sjitt" og taka notaða sprautunál upp úr vaskinum inní sjúkraherberginu sínu.


Ég hélt að allt myndi lagast þegar ég kæmi heim og gæti legið í meðvitundarleysi fyrir framan sjónvarpið en mér líður ennþá illa. Hjálpar ekkert til að þurfa að staulast í vinnuna. Helstu vandamálin sem ég þarf að glíma við eru að það er mjög erfitt að setjast á klósett, klæða mig í sokka og skó, og keyra beinskiptan bíl.


En maður lærir af reynslunni. Ekki herma eftir Gillz og ekki og taka áskorunum frá Krissa. Ég ætla að stofna Gáfumannafélag þjóðhátíðarfara 2008 með þessum gaur.