Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

þriðjudagur, júní 28, 2005

Félagi minn kom að orði við mig um daginn og sagði "Sindri, er ekkert uppi?" Ég svaraði að bragði: "Ha? Eggert? Ég veit ekki einusinni hver það er..."
Eftir þennan misheppnaða brandara spurði ég félaga minn hvurn djöfulann hann ætti við með því að ekkert væri uppi. Hann svaraði því til að ég væri alveg hættur að blogga.
Heldur hneykslaður dreif ég mig á alnetið að athuga hvort þetta væri rétt. Og þetta var sko alveg rétt hjá (nálægt?) félaga mínum. Ég rétt slefa upp í að vera "þriðja hvern dag"-týpan. Og hverjum er ekki sama?

Á föstudaginn fór ég í afmæli aldarinnar hjá tvíburunum Ragnari og Helga. Það var skemmtilegt. Bræðurnir buðu upp á frían bjór og þegar hann var uppurinn kíkti ég á indverska sykurpúðann sem var líka tvítugur og fékk meiri frían bjór. Svo skellti ég mér aftur til tvíbbanna og keypti mér smá bjór. Held það hafi svo einhver tekið hann áður en ég náði að klára hann þannig að ég keypti mér annan bjór. Þrátt fyrir allt þetta bjórþamb voru buxurnar alveg að detta niður um mig á leiðinni í vinnuna í morgun sem segir mér að lítið gengur í að móta bjórvömbina fyrir Spánarferðina í sumar (sem ég er líklega að fara í). Edda hin brjóstgóða smellti nokkrum myndum þarna og af þeim að dæma hef ég verið með eindæmum líflegur þetta kvöld. Tókst bara að halda augunum opnum og allt.
Kvöldið hefði svo ekki getað endað betur því við fórum á Purple Onion og ég fékk mér Chawarma platta. Þvílíkt gúmmelaði. Ég er búinn að borða þetta svo mikið að ég held ég sé að fá leið á þessu, en það er örugglega ekki hægt.

Á sunnudaginn mætti ég helferskur (því það er orð...) í skírn hjá hálfbróður mínum og var öllum boðið í kaffisamsæti hjá séra Karli biskup (a.k.a. Kalli analsleikja (löng saga...)) og bauð hann uppá hellaðar snittur og meððí.
Þessar snittur hafa greinilega gert góða hluti því um kvöldið skoraði ég loksins fyrir Carpe Diem í 11-manna boltanum í 2-2 jafnteflisleik. Ekki gleyma að óska mér til hammara. Reyndar skoraði ég líka klassamark með Vinningsliðinu um daginn og hafa menn talað um að þetta sé mark ársins (grínlaust, ég veit ég ýki svolítið knattspyrnuhæfileika mína en þetta var töff mark).
Öll þessi mörk (eða "bæði" þessi mörk ef þið viljið hafa það svoleiðis) booztuðu egóið svo hressilega upp hjá mér að ég er byrjaður að æfa með ÍR aftur. Djöfull eru strákarnir þar hressir. Skil ekki af hverju ég er ekki löngu byrjaður að æfa með þeim.

Nú eru sumir kannski farnir að hugsa "hvað ætli sé í matinn í kvöld?" eða "hvaða lykt er þetta eiginlega?" en fleiri eru kannski farnir að hugsa "djöfull getur maðurinn blaðrað um fótbolta!" En það er nú bara svo að lífið hjá mér snýst um fótbolta þetta sumarið (og ástina, auðvitað). Eitt utandeildarlið, eitt 7-manna Carlsbergdeildar-lið og svo núna ÍR. Þetta þýðir að ég er mjög mikið í fótbolta og var t.d. á æfingum í gær frá hálfsjö til ellefu. Rosalegur tappi.

En þið haldið ykkur hreinlegum og hafið það kósí. Heyrumst seinna.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Ég á 4 miða á kvikmyndina The Upside of Anger í Laugarásbíói í kvöld klukkan 22:20. Þetta er forsýning og læti. Hins vegar er Bachelor á sama tíma þannig að ég kemst ekki. Ef einhver þarna úti er ekki búinn að plana kvöldið og væri til í að fá miða þá er ég sem sagt með 4 þannig. Ég veit annars ekkert um þessa mynd. Later thugs.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Jæja, þetta var nú heldur betur alveg helvíti skemmtilegt próf, þetta inntökupróf. Það byrjaði á íslensku/ensku/sögu-kokteil sem mér gekk afar vel í. Ég var jafnvel farinn að sjá fyrir mér beinhvítt nafnspjaldið með gullbrydderuðum stöfum: Dr. Sindri Sverrisson, heilaskurðlæknir. En þetta var víst bara fyrsti hlutinn af 6. Næst kom líffræðin og svo óheppilega vildi til að flestar spurningarnar voru á kínversku. Ég allavega vissi ekkert um hvað var verið að tala. Held ég hafi svarað svona 3 spurningum af 110 í þeim hluta. Svo var efnafræðin síðasti hlutinn þennan daginn. Ég byrjaði djöfulli vel þar en svo fór þetta út í eitthvað rugl sem ég hef aldrei lært og er líklega kynnt í efn303, sem ég fór aldrei í.

Úr því sem komið var sá ég þann kost vænstan að beila bara á þessu helvíti og sleppa því að mæta seinni daginn þó hann hefði örugglega verið skemmtilegri því þá var stærðfræði- og almenn þekking prófuð. Í staðinn átti ég heilan frídag sem var frekar gott. Ég nýtti hann vel. Vaknaði um hádegisbilið og spilaði pro evolution. Fékk mér að borða þegar maginn var farinn að öskra á mat og hélt svo áfram í pro evolution. Svo fór ég í mat til ömmu og fór í Star Wars leik með 5 ára og 12 ára frændum mínum frá bandaríkjunum. Svo fórum við í Scrabble þar sem við strákarnir kepptum á móti ömmu og mömmu þeirra, Essý. Okkar lið hét "The Jedis" og þeirra lið hét "The Dark Side". Mér fannst það fyndið.

Í dag ætla ég hins vegar að reyna að nýta góða veðrið. Já, hmm, hvað ætti maður að gera? Já, ég ætla að fara á fótboltaæfingu hjá ÍR. Þegar hún er búin ætla ég á fótboltaæfingu hjá Carpe Diem (11 manna utandeildarliðið mitt). Þetta verður stemmning. Veit einhver annars hvað Carpe Diem þýðir?

p.s. ef einhver veit um einhvern sem getur plöggað mér updatei af pro evolution þá væri það næs. Gracias.

sunnudagur, júní 19, 2005

Ég er ekki vanur að vera skussi, eiginlega forðast ég það. Upp á síðkastið er ég samt búinn að vera algjör skussi.

Mér tókst ekki að ákveða hvað ég vildi fara í í háskólanum þannig að ég ákvað að fara bara í læknisfræðiprófið. Ég var búinn að ákveða að fara í Véla- og iðnaðarverkfræði en þar sem ég keyrði á leiðinni uppí háskóla að skrá mig fékk ég köllun. Ég fór út í þessa "ef ég myndi vinna í lottóinu, hvað þá?"-pælingu, og ég komst að því að ef ég ætti nóg af peningum þá væri harla ólíklegt að ég myndi velja mér verkfræðinám. Samt ekki útilokað. En í öllum þessum vafa sá ég möguleika á að fresta þessari ákvörðun lífs míns með því að fara í læknisfræðiprófið, því hvernig sem ég stend mig þar þá gefur það mér frest til 10. ágúst að velja mér braut í háskólanum.

Ekki það að ég hef líka lúmskt gaman að því að sjá hvort ég gæti actually komist inn í læknisfræðina. Ég held samt að það sé ekki séns því þeir sem hafa virkilegan áhuga á henni eru búnir að vera að lesa fyrir prófið meðfram menntaskóla og svo á fullu síðasta mánuðinn. Við erum að tala um að fólk mætir á námskeið til að undirbúa sig fyrir þetta próf. Það eru 12 og hálfur tími í prófið og ég hef ekki kíkt í bók. Ég er ekki einu sinni búinn að ná í vasareikninn sem við áttum að ná í í síðustu viku. Þvílíkur skussi. En það er um að gera að hafa gaman að þessu, ég verð örugglega allavega fyrir ofan Guðmund Hrafnkels. Hann getur ekki hafa lært mikið á meðan hann var í þessum handbolta.

Annars átti Dagný afmæli á 17. júní rétt eins og Johnny boy. Ég var í smá vandræðum með að finna afmælisgjöf en það reddaðist blessunarlega. Við fórum í matarboð um kvöldið til vinkonu hennar og þvílík sæla sem það var. Þar fékk ég nefnilega fyrstu heimatilbúnu máltíðina mína í ca. viku. Ég bauð henni svo á ítalíu í gær og maturinn þar var betri en góðu hófi gegnir.
Í gærkvöldi neyddist ég líka til að koma við í gæsapartíi. Mér hefur aldrei liðið jafn illa á einum stað. Allar kerlingarnar horfðu illilega á mig. Allt í einu heyrðist svo bumbutaktur. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Bumbuslátturinn magnaðist og smám saman fór að heyrast humm. Hummið hækkaði og orð fóru að myndast. Það fór um mig hrollur. Svo stukku þær allar á fætur og dönsuðu stríðsdans í kringum mig og kyrjuðu í kór; "ÚT MEÐ STRÁKANA! ÚT MEÐ STRÁKANA! ÚT MEÐ STRÁKANA!" Ég hef sjaldan orðið jafn hræddur og hljóp út. Konur eru brjálaðar.

Jæja, ég þarf að hætta og gera upp við mig hvort ég vil frekar lesa líffræðibókina eða fara í pro evolution. Oooo, þetta er svo erfitt val.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Fatahrúga á baðherbergisgólfinu, fatahrúga í báðum herbergjunum, fatahrúga í sófanum inní stofu og svo fatahrúga í óhreinatauskörfunni. I get up when I want except on wednesdays when I get brutally awaken by the dustmen. Ég geri það sem ég vil, ég geri það sem ég vil, ég geri fokking það sem ég vil. Ég er sem sagt orðinn einn heima og verð það næstu 16 daga. Einn heima og ekki nóg með það heldur er ég líka með bílinn í 16 daga. Þvílíkt óhemju frelsi. Ljúfa líf.

Reyndar hefur þetta vissa galla, að búa einn það er að segja. Þetta þýðir að ég þarf sjálfur að sjá mér fyrir öllum matarkaupum oooog svo þarf ég sjálfur að þvo fötin mín. Þetta þýðir sem sagt að þegar líður á tímann fer ég að ganga í fönkí fötum og fólk í kringum mig fer að segja; "hey, af hverju er gaurinn í náttbuxum?" eða "af hverju ætli hann sé ekki í sokkum?". Líklega mun ég þó tækla þetta vandamál með því að kaupa föt ef í harðbakkann slær. Það verður allavega bið á því að ég muni þvo fötin, það er víst.

Ég var heví hress á því á laugardagskvöldið, stóð fyrir framan spegilinn sem oftar og sagði við sjálfan mig "hey sexí, er það ekki djammer í kvöld?". Og það þarf ekki að spyrja að því að mér leist bara svona helvíti vel á það. Gott veður í gangi og innflutningspartí hjá Missernum í downtowninu. Nema hvað að ég ákvað að raka mig. Ekki kannski mjög merkilegt en einhvern veginn þá tókst mér að raka í efri vörina á mér. No biggie en það hætti samt ekkert að blæða. Ég skellti einhverju pappírssnifsi á þetta og hélt ég væri góður, en þetta var ekkert að lagast. Edda Ósk kom ásamt fríðu föruneyti til að skutla mér þannig að það þýddi ekkert væl og ég vonaði bara að þetta myndi lagast á leiðinni. Það gerðist ekki. Ég mætti til Magga og voru góð ráð dýr, því hann átti náttúrulega ekki plástur. Ég endaði á því að vippa mér yfir götuna til frænku minnar sem er frægur reddari, og hún reddaði þessu með stæl. Svo mætti ég aftur í partíið og allir, bókstaflega allir, hlógu í svona kortér að því hvað ég væri mikill kjáni. Sem betur fer er ég með alveg exceptionally þykkan skráp.

Á sunnudaginn unnum við fyrsta leikinn okkar í 11 manna boltanum. Jeij. Mér hefur aldrei liðið jafn illa í einum fótboltaleik. Ég náði lítið sem ekkert að einbeita mér, og sú litla einbeiting sem ég náði fór öll í að einbeita mér að því að æla ekki á völlinn. Sem betur fer voru andstæðingarnir mjög lélegir.

Ég verð svo að minnast á það, þó það teljist ekki til tíðinda, að ég og Túri hömruðum Krissa og Magga í einhverjum 5 eða 6 leikjum í röð í gær í Pro Evolution. Krissi er greinilega eitthvað að detta aftur úr í þessu því ég tók hann líka í öllum leikjunum sem við spiluðum á laugardaginn, og þeir voru sko ófáir. Held að Krissi hafi verið eitthvað fúll yfir þessu því við fórum á Ruby Tuesday á sunnudaginn og ég var frekar seinn þannig að hann pantaði bara fyrir mig. Ég bað hann um að hafa þetta eitthvað kjúklinga/pasta combó. Ég fékk ostborgara með sveppum á, innvafðan í tortillu. Það var ömurlegt. Ég er viss um að það hefur staðið í menu-lýsingunni á réttinum eitthvað á borð við þetta; "ef þú vilt hefna þín á vini þínum þá er þessi skítaréttur málið!"

Svo er leikið í kvöld í Carlsberg-deildinni. Ég held að við vinnum nú pottþétt, eða hvað segið þið? Mynduð þið ekki tippa á þessa fjallmyndarlegu tappa?

miðvikudagur, júní 08, 2005

Org og væl.

Mér leið djöfullega í gær. Reyndar leið mér eiginlega enn djöfullegar í fyrrakvöld. Þá keppti ég leik (já, fyrirgefið... sem sagt FÓTBOLTAVIÐVÖRUN!) í bikarkeppni Utandeildarinnar. Nú, þetta var bara frekar spennandi leikur og ég átti víst góðan leik. Við vorum óheppnir að ná ekki að skora þrátt fyrir fjöldann allan af fögrum sendingum frá mér (ekki reyna að neita því, þið voruð ekki þarna þannig að ég held að ég viti þetta betur en þið...) og endaði þetta með því að staðan var 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Þá var það framlenging og ég áttaði mig fljótlega á því að líkaminn minn er greinilega stilltur á 90 mínútur því ég var helaumur upp eftir báðum fótleggjum alla framlenginguna. Kláraði samt leikinn en enn var staðan 0-0 og þess vegna var það vító.

Hitt liðið átti fyrstu spyrnu og þeir skoruðu naumlega. Svo var það fyrsta spyrnan okkar en grey gaurinn sem skaut henni, og var btw. búinn að klúðra svona 3 dauðafærum, skaut framhjá. Svo skoruðu hinir og þá var röðin komin að mér. Og ég klúðraði. Hands down lélegasta víti sem ég hef á ævinni tekið. Laust og óhnitmiðað. Markvörðuinn okkar varði ekkert víti þrátt fyrir að hafa átt góðan leik, þannig að þetta endaði sem sagt með tapi í vító.

Ég var ekki reiður eða bitur. Ég var gráti nær. Ég er ekki frá því að eitt eða tvö hafi fengið að renna með rigningunni sem buldi á okkur. Þegar úrslitin lágu fyrir dreif ég mig upp í bíl og brunaði heim. Heima kastaði ég blautum fötunum á snúru og skellti mér í sturtu. Í sturtunni grét ég smá en varð svo reiður. Í gær var ég orðinn bitur og ég er það ennþá.

Eins og glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á þá gleymdi ég að teygja eftir leikinn. Maður þarf nú ekki að vera búinn með mörg ár í sjúkraþjálfun til að vita að það er ekki sniðugt eftir svona áreynslu eins og þessa. Þess vegna gat ég ekki hreyft mig eðlilega í gær, lappirnar voru bara læstar og ég gat ekki einu sinni klætt mig í sokkana. Svo var ég líka hálfveikur en ég vona að það sé að fara því það er annar leikur á morgun. Svo er líka landsleikur á eftir sem ég er með miða á.


p.s. ég sé að lesendur mínir hafa gríðarlegan áhuga á að vita hvað ég valdi í háskólanum. Alveg 0 búnir að spyrja...

p.p.s. ég bæti hér inn linkum á tvær úbergellur. Edda Ósk fær link fyrir að vera með hresst og jafnvel flippað blogg sem ég er duglegur að skoða. Vala (einhverra hluta vegna kemur síðan hennar ekki þegar ég klikka á linkinn, en það er vonandi bara tímabundið...) fær link fyrir að kunna að halda á lofti. Bloggið hennar er stundum svolítið súrt.

p.p.p.s Maggi Mourinho er að stóla á mig í leiknum á morgun þannig að við skulum öll bæta við bænirnar okkar í kvöld óskum um að ég verði ekki veikur eða neitt svoleiðis sjitt (þurfið ekki að hafa þetta orðrétt eftir mér...) á morgun.

mánudagur, júní 06, 2005

OK, Tölvulistinn er frekar góð sjoppa.

Það eru barasta tímamót í vinnunni. Síðustu 2 mánuðina eða svo er ég búinn að vera í leyniprojecti með einhverjum háskólakrökkum en nú er það búið. Þessu var fagnað með smá partíi á föstudagskvöldinu þar sem ég fékk einhverjar fáránlega ljúffengar veitingar og nóg af mönsi til að fæða þriðja heiminn og gott betur. Stútaði kippu (ég er svo svalur að stundum er ég með gæsahúð heilu klukkutímana) og hélt svo eftir partíið í bæinn með fyrrverandi módeli (!!!!) og einni annari (ég man aldrei hvort það er annarri eða annari...) stelpu. Í staðinn fyrir að nýta mér annarlegt ástand módelstelpunnar í dimmu húsasundi þarna í downtowninu, ákvað ég að beila á stelpunum og hitta Krissa og Hrólf á Dillon. Til að gera langa (samt ekki) sögu stutta þá fann ég þá hvergi þar inni og hringdi í þá til að segja þeim að þeir væru kokksökkers, en þá höfðu greyin bara ekki komist inn. Já, það er svona að vera ekki með þetta gríska, fullorðinslega andlitsfall. Restin af kvöldinu var lélegt röll og ég vakti félaga minn til að koma og ná í mig.

Vinna á laugardaginn og svo landsleikurinn. Helvíti gaman á vellinum þó við hefðum tapað. Ég hafði gaman að einhverjum 11 ára tappa sem var þarna og stóð reglulega upp (þá yfirleitt þegar þögn ríkti hjá áhorfendaskaranum) og öskraði á áhorfendur að "nú þyrftu strákarnir stuðning sem aldrei fyrr! Látið nú heyra í ykkur þegar þið öskrið ÁFRAM ÍSLAND!!!" Fyndinn strákur. Þetta samt svínvirkaði hjá honum. Held það sakaði ekki að hafa svona leiðtoga í áhorfendahópnum, rétt eins og ég held að sakaði ekki að hafa leiðtoga í vörninni hjá íslenska landsliðinu, en nóg um það.

Ég fór svo um kvöldið til Krissa að spila Pro og drekka bjór með honum og Túra (sem einhverra óskiljanlegra hluta vegna var ekki að drekka... sjávarloftið er að fara með kallinn). Var nú ekkert að plana að gera neitt en Krissi var svo helvíti graður í bæinn að við enduðum á að fara á hinn misgóða Gauk á stöng. Það var fínt. Ég gaf mig á tal við þrjár myndarlegar hnátur sem sátu við eitt borðanna og sagði þeim að ég ætti kærustu en félagi minn væri að leita sér að einni slíkri líka. Eftir að ég hafði sagt að ég ætti kærustu var eins og ég hefði brotið einhverja stíflu, allt í einu kjaftaði á þeim hver tuska. Svolítið skrítið.

En eftir að hafa kynnst þeim aðeins kallaði ég á Krissann til að koma og joina okkur. Þetta var svona eiginlega eins og ef ég væri þjónn og væri að rétta Krissa matseðil og spurja hvað hann vildi, en Krissi hnerraði yfir matseðilinn og matseðillinn ákvað að fara heim. Then again þá er myndmál ekki mín sterkasta hlið. Ég sem hélt að ég væri bara orðinn þvílíkur matchmaker (segir maður það?) en þær sem sagt beiluðu og fljótlega beilaði ég líka og vakti vinkonu mína til að koma og ná í mig. Þess vegna er ég með hálfgert samviskubit eftir helgina því mig grunar að fólk hafi betra við tímann að gera en að vakna um miðjar nætur og ná í fullan Sindra niðrí bæ.

Jæja, maður má nú ekki eyða mörgum klukkutímum í að blogga í vinnunni. Heyrumst og sjáumst.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Ja hérna. Ég var í fimmtugsafmæli hjá skáfrænku minni núna áðan. Þurfti reyndar að skreppa frá í rúma 2 tíma til að spila fótbolta, en þegar ég kom svo aftur, tjahh, þá datt mér nú bara helst í hug að einhvers konar þambkeppni hefði verið í gangi á meðan. Allavega voru sumir orðnir frekar hífaðir (hívaðir? nei... er það?) á því. Ein kellingin þarna var t.d. að spyrja mig hvort ég vissi hvað væri í einhverjum afmælispakka sem var þarna. Þegar ég sagðist ekki vita það byrjaði hún bara að slá í pakkann og banka og hún var bara komin á fremsta hlunn með að opna helvítið.

Svo settist ég niður með hæstvirtum föður mínum og móður hvar þau sátu að snakki með frænku minni, 2 ömmum og 2 frændum. Jájá, byrjaði ekki bara frænka mín, rúmlega fimmtug kellingin, að tala um að hún væri nú bara í fyrsta sinn á ævi sinni í g-streng núna í kvöld. Svo sagði hún okkur upp og ofan af því, að hún hefði bara farið í hagkaup og ekkert vitað hvaða stærð hún ætti að kaupa, hvort svona strengir væru seldir í metratali eða hvað (þá sagði pabbi þennan golden brandara; "var þetta ekki bara g-strengur með stóru g-i?"... góður pabbi, góður... svo hélt hann að enginn hefði fattað brandarann svo að hann sagði hann svona 10 sinnum og svo 5 sinnum á leiðinni heim, þangað til ég hló). Það sem var hvað fyndnast voru samt viðbrögð einnar ömmunnar sem sagðist myndu deyja ef hún þyrfti að ganga í svona, en þessum viðbrögðum er því miður vandlýst í ritmáli.

Ég gleymdi að segja frá föstudeginum þegar ég bloggaði í gær, en hann var helvíti góður. Mér finnst svolítið skrítið að ég hafi ekki sagt frá honum því hérna áður fyrr hefði sko fylgt greinargóð lýsing á kvöldinu. Þetta kvöld minnti mig svolítið á sumarið 2003. Svona partístand þar sem allt gat gerst, gott veður og gott flipp í gangi. En ég nenni ekki að segja frá þessu því þetta er svo mikið yesterday news og svo er klukkan orðin kortér yfir 2 for crying out loud.

Verið sexy og góð við náungann.