Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Ég er sem sagt bara að klóra mér í pung þegar síminn hringir á laugardagskvöldið og á hinum endanum er Hrólfur. Hafði hann þá fengið þá skemmtilegu hugdettu að bjóða í smá grilldinner og öl. Þar sem ég var nú ekki uppteknari en áður hefur komið fram ákvað ég nú að ég gæti dottið í eina pulsu, en það var öðru nær því Hrói og frú buðu upp á grillmat af himnum ofan með hvítvíni og kartöflum sem voru allar brenndar nema mín. Unaðslegt.

Ölið fékk svo að flæða aðeins og alla vega nógu mikið til þess að ákveðið var að taka fram Singstar og þar vann ég Magga í lagi með karlahljómsveitinni McFly, og verður það fært til bókar sem mitt mesta afrek á ævinni.

Söngur, bjór og gleði sem sagt og alveg ágætis upphitun fyrir helgina góðu sem færist nær. Ég er alveg búinn að vera rólegur en núna finn ég hvernig glaðnar yfir líkamanum og tilhlökkunin eykst með hverjum klukkutíma. Í tilefni af Þjóðhátíð og vegna þess að mér finnst textinn við nýja þjóðhátíðarlagið vera leiðinlegur og lélegur er ég hérna búinn að gera nýjan þjóðhátíðartexta sem er af dýrari gerðinni.


Mér finnst gaman hér með þér - þjóðhátíðarlag

Hér, aðeins hér með þér,
líður mér svo vel, að vera hér með þér.
Mér, finnst gaman hér með þér,
það sérhver maður sér
að ég er hér og þú ert hér með mér.

Kominn hér nú til að segja þér
að mér líður vel hérna með þér,
er með þér og er á meðan er,
viltu koma að ger´ eitthvað með mér?


Svo er bara að selja textann til einhverrar kúl hljómsveitar og fara að græða á þessari náðargáfu.


Ennþá eru að streyma hressar myndir frá asíu inná facebook frá góðum aðilum. Vændi er náttúrulega ekkert mjög fyndið en þessi mynd af skilti í Bangkok fékk mig til að hlæja aftur.

fimmtudagur, júlí 24, 2008

Jæja, skellti mér bara í ræktina í kvöld með Ragnari. Ragnar er orðinn svo óhemju massaður að hann getur varla talað í síma svo vel sé, en sjálfur hef ég lagt meiri áherslu á hugaríþróttir síðustu mánuðina líkt og að spila skítakall og kapal í tölvunni. Að fara með Ragnari í ræktina væri því eins og fyrir Öskubusku að skreppa með Paris Hilton að versla, ef þið skiljið hvað ég er að fara.


Á meðan Ragnar henti upp einhverjum hundruðum kílóa fór ég og spurði afgreiðslukonuna hvort ekki væri til léttari stöng fyrir lóðin en svo var víst ekki. Ég lagði því meiri áherslu á að gera armbeygjur að þessu sinni.

Nei, nú er ég reyndar að ýkja. Þó ekki mikið. En Ragnar gjörsamlega píndi mig áfram eins og versti sadisti og á tímabili var mér farið að líða eins og ég væri staddur í Currahee (og ef þú veist ekki hvað það þýðir ertu annað hvort Maggi eða djöfuls kelling). Ég vil ekki saka Ragnar um steranotkun en ef ekki sterar þá held ég að það sé alveg ljóst að hann hefur verið að japla á jarðhnetunum hans Ofur-Guffa. Hann virtist alla vega ekki geta hætt að lyfta og þegar hann var ekki sjálfur að lyfta kom hann til mín og ýtti stönginni niður til að gera mér erfiðara fyrir að lyfta.


En þetta er fljótt að skila sér. Við fórum nefnilega á Batman eftir sessionið og þar gat ég ekki borðað poppkornið mitt fyrir verkjum. Djöfulli sem sú mynd er annars ágæt.

föstudagur, júlí 18, 2008

Í sögu sjónvarpsfrétta hef ég ekki séð jafn augljóst set-up og þegar hjúkkurnar gerðu samning um daginn. Getið séð það hér.
Get alveg ímyndað mér hvað þetta hefur verið aulalegt fyrir fólkið sem var þarna, að láta eins og að akkúrat kl. 22 hafi samningurinn verið endanlega í höfn og tími til kominn að fallast í faðma og klappa saman höndum, allt bara óvart í beinni útsendingu tíufrétta. Mér finnst rugl að fjölmiðlar séu að hafa einhver áhrif á hlutina sem þeir fjalla um, þó þetta sé kannski léttvægt dæmi.

Af öðru athyglisverðu sjónvarpsefni síðustu vikur má nefna þessa hér frétt, en á 53. sekúndu má sjá hversu fjandi nákvæm Dagný klippikona var þegar hún klippti mig síðast. Þegar Anna Pála systir var að keppa í Gettu betur sá mamma til þess að ættingjar og vinir fengju allir að vita af því svo þeir gætu nú fylgst með í sjónvarpinu. En þegar ég er að lúkka á skjánum þá er það náttúrulega ekki nógu merkilegt til að láta kjaft vita. Þetta er svo týpískt miðjubarnsdæmi að það er fáránlegt.


Meistari vikunnar er svo Krissi því hann er búinn að redda húsi í Eyjum. Já, sannarlega góð redding hjá honum. Líklega ein besta redding sem ég hef séð lengi. Redding, redding, redding. Reyndar skilst mér að tíðrædd María Guðjóns hafi haft hönd í bagga með þetta (minnir sterklega að orðatiltækið sé svona) og á hún allt gott skilið fyrir það.
Að launum fær Krissi máltíð sem ég mun sjálfur elda í Eyjum, gefið að það sé örbylgjuofn í húsinu.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Mér finnst að Kastljós ætti að hafa einnar mínútu þögn eftir viðtöl á borð við það sem var í kvöld við móður stráks sem svipti sig lífi. Alla vega eitthvað annað en auglýsingu með Birni Jörundi um hvað það er fyndið að vera í Nova.


Ég tók mig til og verslaði flug til Eyja í morgun (verslaði sem sagt í morgun, flýg um verslunarmannahelgi). Þar fóru 20 þúsund sem ég sá eftir í svona tvær sekúndur. Minnugur þess hve gaman var í fyrra er ég nefnilega helvíti bjartsýnn á góða gleði. Var að vísu að berast til eyrna að Sprengjuhöllinni og Rottweiler hefði verið skipt út fyrir Nýdönsk og Dr.Spock. Fyrir mig er það svona svipað og að bjóða upp á humarsúpu og nautasteik eitt árið en skella svo pasta í örbylgjuna á næsta ári. Sem betur fer skipta hljómsveitirnar á þjóðhátíð álíka miklu máli fyrir mig og þetta lundakjöt sem er skylda að gæða sér á.


Ég er að reka mig æ oftar á það í vinnunni að ég kann ekki íslensku. Hélt til dæmis að "redding" væri gott og gilt íslenskt orð. Ef ég reyni eitthvað svona sjitt fæ ég alltaf símtal og er boðaður inn á teppið til yfirlestrarfólksins, sem bregður alltaf á sprell og lætur eins og það viti bara ekkert hvað ég var að reyna að segja... "hvað á þetta að þýða? þetta er alla vega ekki íslenska...hohoho."

Redding?
Redding?!?
Skítaredding?
Mér finnst ég heyra þetta á hverjum degi.



Ég ætla að semja lag sem heitir Redding og gera það að vinsælasta laginu á Íslandi í dag. Það ætti að sýna þessum besservisserum. Orð sem ríma við redding eru vel þegin í kommentum.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Það kannast eflaust margir við það úr æsku að geyma stærsta jólapakkann þangað til síðast, eða spara laugardagsnammið þangað til að systur manns eru búnar með sitt. Nú kom kvikmyndin The Departed í bíó árið 2006 held ég, en á mínum fyrsta almennilega frídegi í háa herrans nýtti ég loks tækifærið í dag til að horfa á hana í fyrsta skipti. Þvílík draumamynd. Djöfull hafði ég gaman af henni. Kannski hommalegt en það verður að viðurkennast að DiCaprio er að verða einn af mínum uppáhalds leikurum. Svo var vinur minn úr sjónvarpsþáttunum 30 rock, Alec Baldwin, að vanda að gera góða hluti ásamt Mark Wahlberg, sem hingað til hefur verið minni vinur minn. Ég veit enn ekki hvers vegna Matt Damon er leikari.


Fleira hef ég verið að spara í mörg ár eins og t.d. Band of Brothers-þættina. Óhemju góðir þættir. Verð að drífa mig að klára þá áður en Helgi flýgur til Ástralíu og kveður í hálft ár eða svo. Það er súrt. Nú hugsið þið kannski "hvað er etta Sindri, þú hefur hinn tvíbbann til að stytta þér stundir." En það er ekki einu sinni svoleiðis því Raggi er á leiðinni til Kína (þeir eru ekkert að skreppa stutt þessir strákar). "Leiktu þér þá bara með Magga maður," en neinei, Maggi er líka að fara til Kína. Djöfulsins alþjóðavæðingarkjaftæði.


Á morgun ætla ég að skrifa eitthvað innihaldsríkara.

mánudagur, júlí 14, 2008

Sannarlega skemmtileg helgi að baki sem byrjaði eiginlega með óvæntri og hressandi ferð til Eyja á fimmtudaginn. Fékk að fara á leik íbv og selfoss fyrir vinnuna í þessari líka bongóblíðu, og gisti eina nótt í Eyjunni fögru.

Þið veltið kannski fyrir ykkur hvort ekki hafi verið erfitt að komast á milli staða í Eyjum, og hvort það hafi ekki verið einmanalegt að gista einn á einhverju gistiheimili. En þökk sé snillingnum og eðalmanneskjunni Maríu Guðjóns og öllu hennar fólki þá var slík ekki raunin, því hún skutlaðist með mig hvert sem ég vildi og þegar ég svo um kvöldið hafði lokið við að skrifa um leikinn og var orðinn örmagna af þreytu, beið mín uppábúið rúm heima hjá þeim.

Ég held að hjartahlýrra fólk en María og co. sé vanfundið, og sem dæmi um það eru þau með lamb í garðinum hjá sér. Lambið atarna fannst fótbrotið einhvers staðar, og lá beinast við að aflífa það, en það vildi pabbi Maríu ekki. Hann hringdi því í skurðlækninn á sjúkrahúsinu í Eyjum og rukkaði hann um gamlan greiða, og nú sleikir lambið sárin í góðu yfirlæti.


Já, ég gat bara ekki orða bundist. En Eyjaferðin var sem sagt hressandi byrjun á helginni sem náði hámarki á lokadjammkvöldi Helga Hrafns (ekki þó frænda míns) sem er á leið til Ástralíu að kanna nýjar lendur. Djöfull sem ég skemmti mér vel í góðra vina hópi, og blöndunarmeistarinn Magnús Þórður sá um að mixa einhvern drykk sem hélt mér eiturhressum fram undir morgun.

Fólk var almennt í mikilli gleði sem jókst stöðugt eftir því sem á leið. Gott dæmi um það er að ég nefndi við Ragga T. að fara til Eyja um verslunarmannahelgina en honum leist ekki nema bærilega á það og sagðist þurfa að vinna. Eftir því sem á leið varð hann sjóðheitur fyrir því að fara og klukkan þrjú um nóttina minnir mig að hann hafi verið að hringja í vinnuveitanda sinn til að fá frí, en ég hef reyndar ekki heyrt hvort það símtal borgaði sig.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Þökk sé foreldrum mínum borðaði ég í kvöld langhollasta matinn sem ég hef látið inn fyrir mínar varir síðustu tvær vikur. Soðna ýsu. Þeir sem þekkja mig vel vita kannski hvaða skoðun ég hef á því að láta fisk sem náðist úr sjónum aftur ofan í vatn til að elda hann. Menn hafa reynt ýmislegt í gegn um tíðina til að koma þessu ofan í sig, og er vinsælast að nota rúgbrauð með ógeðslega miklu smjöri og kartöflur. Breytir því ekki að þetta er ekki matur nema kannski fyrir einhver kattargrey.


Köttum finnst fiskur góður. Ekki mannfólki. Viljið þið kannski fá ykkur Whiskas líka?

Var að horfa á Leno áðan og uppgötvaði leyndan hæfileika. Ég er greinilega mjög góður í að giska á hvort fólk er með tattú eða ekki. Var með 100% skor og nú er bara að finna út hvernig ég get nýtt mér þetta.

mánudagur, júlí 07, 2008

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að svefn er mjög mikilvægur fyrir mig. Ef ég næ góðum svefni svíf ég um á bleiku skýi það sem eftir lifir dags, brosandi og syngjandi eins og gellan í galdrakarlinum í OZ (í atriðinu þar sem hún var brosandi og syngjandi). Ef ég hins vegar næ ekki góðum svefni hef ég allt á hornum mér. Svaf nánast ekki neitt aðfaranótt sunnudags og spilaði svo fótboltaleik í gær, og ég gat varla kreist fram bros þegar við skoruðum. Alveg búinn á því og hugsaði bara til nýju stóru sængurinnar minnar sem koverar fullkomlega minn langa líkama.

Alla vega, ég hata svefn svona álíka mikið og X-ið 977 hatar að spila No Cars Go með Arcade Fire, eða sem sagt ekki neitt.

Stíf dagskrá um helgina sem samanstóð af skemmtilegri vinnu og skemmtilegu djammi, en ég var orðinn alveg helvíti þreyttur í gærkvöldi. Sem betur fer eru vinnuveitendur mínir mannlegir í meira lagi og leyfðu mér að sofa vel út í dag, svo ég svíf sem sagt um á bleiku skýi.


Það hefur nú oft verið rætt um það að sjónvarpsdagskráin sé ömurleg á sumrin. En hún er bara að slá öll met þessa dagana með þáttum á borð við Kid Nation (sem ég hef ekki horft á en miðað við auglýsingar er hann hræðilegur), þátt þar sem að einhver gaur er að reyna að ákveða sig hvort hann vill 20 ára sílikonbombu eða útúrbótoxaðar fertugar kellingar, eða þátt þar sem að feitt fólk keppir í hver getur labbað hraðast.

Það eina sem hægt er að horfa á er fyrstu fimm mínúturnar af fréttum (eftir það koma fréttir af gömlum kalli á Snæfellsnesi sem fann rekavið í fjörunni, eða af heimsmeistaramótinu í pylsuáti (sem var náttúrulega bara fyndið þegar fyrsta mótið fór fram)), og svo kannski Jay Leno (þó ég viti að margir eru mér ósammála í þeim málum). Djöfull sakna ég EM.

laugardagur, júlí 05, 2008

Jájá, skellti í þvottavél áðan. Skellti svo bara í uppþvottavélina meðan ég beið eftir að þvottavélin kláraðist. Skellti mér líka bara í Bónus á leiðinni heim úr vinnunni. Hlustaði á Bylgjuna á leiðinni heim. Ég gæti allt eins haldið upp á fertugsafmælið mitt á morgun. Djöfull er ég orðinn fullorðins.


Frá innstu hjartarótum langar mig alveg óhemju mikið að vera einhvers staðar úti á landi núna að njóta sumarblíðunnar í góðra vina hópi (hugsanlega við hlið fríðrar snótar) en því miður er helgin þéttpökkuð (reyna að nota eitthvað FM-slangur hérna til að vera meira nýmóðins):
Vakna kl. 11 á morgun og fara í vinnuna.
Mæta í grill og gleði til verkfræðiísbjörnsins Knúts um leið og vinnu lýkur (bætir aðeins fyrir landsbyggðarleysið).
Drattast heim úr bænum fyrir kl. 5.
Mæta í vinnuna kl. 11 á sunnudaginn.
Spila mjög mikilvægan fótboltaleik kl. 16.
Hætta að vinna um miðnætti.

Gott ef maður á svo ekki að mæta galvaskur á mánudagsmorgninum upp í vinnu. Ég þarf eitthvað að nota verkfræðitöfrana til að laga þetta vaktafyrirkomulag sem er í gangi. Það er ekki nógu glensvænt.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Ekki veit ég hvort Helgi vinur minn er í einhverjum giftingarhugleiðingum en hann kom með athyglisverðan punkt um daginn. Í ár og daga og enn lengur höfum við Íslendingar talað um að "fara á skeljarnar". Það er í raun fáránlegt í ljósi þess að aðeins hálfviti myndi krjúpa niður á bæði hné þegar hann biður stúlkunnar sinnar. Ætti maður ekki í raun að tala um að "skella sér á skelina"? Ég sæki í viskubrunn ykkar, kæru lesendur. Erum við með fleiri en eina skel í hvoru hné eða fóru menn almennt á bæði hnén hér áður fyrr?
Ég vonast til að Helgi minnist á mig þegar hann fær heiðursverðlaun á Degi íslenskrar tungu á næsta ári.


Annars er ánægjuleg helgi að baki og ánægjulegir frídagar sömuleiðis. Nýtti fríið í að gera aðallega ekki neitt og horfa svo á fótbolta. Fyrst hinn magnaða leik KR og ÍA í karlaboltanum þar sem dramatíkin var alls ráðandi. Svo á leik Vals og Fylkis í kvennaboltanum þar sem minna var um dramatík.
Á báðum leikjunum voru að sjálfsögðu þroskaheftir áhorfendur eins og er orðið svo algengt hér á landi. Fólk sem að ég er nokkuð viss um að setur öll sín vandamál í lokað hólf í heimska hausnum sínum og opnar svo hólfið þegar það sér dómara eða línuvörð. Mér finnst ótrúlegt að línuvörður hafi aldrei misst sig og vippað sér upp í stúku til að lesa yfir hausamótunum á þessum aulum, sem eiga það flestir sameiginlegt að vera feitir eða rauðhærðir.


p.s. ég er loksins búinn að finna tilganginn með facebook. Myndir. Það er ótrúlega gaman að sjá allar þessar myndir t.d. sem eru að detta inn frá asíu. Hér er ein frá því á djamminu í Taílandi.


Þessi stelpuskjáta vissi ekkert hvað hún var að fara út í þegar hún veðjaði drykk að hún gæti unnið mig í JENGA.


Hérna er ég að setja úrslitakubbinn á toppinn. Andartökum síðar var taílenska greyið búið að tapa og kastalinn hrundi. Hún var þó ekki tapsárari en svo að hún bauð mér í ferminguna sína.
Ekki ólíklegt að aðeins verkfræðinemar myndu nota tímann á taílenskum strippstað til að spila JENGA.

Doktorinn kveður, með munninn fullan af hrísgrjónakókosgúmmelaðinu sem honum fannst svo gott.