Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, september 30, 2007

Mér leið mjög vandræðalega áðan. Þannig er mál með vexti að ég skellti mér á Quiznos áðan að fá mér að éta, og þar var tvennt af starfsfólki. Annars vegar fínn gaur og hins vegar stelpa sem ég fór strax að velta fyrir mér hvort væri raunverulega þroskaheft. Svo sagði strákurinn við mig að það væri djöfulli fínt að hafa fólk eins og hana í vinnu því maður þyrfti ekkert að borga þeim, og þá leið mér sem sagt afskaplega vandræðalega því ég gat engan veginn vitað hvort hann var að grínast eða ekki.


Þetta er þó ekki vandræðalegasta augnablik lífs míns. Ég held að það hafi verið árið 1994. Ég var vissulega ungur að árum en þessi lífsreynsla hefur fylgt mér alla tíð síðan. Staðurinn var Glæsibær í Eyjafirði, félagsheimili Glæsibæjarhrepps (frumleg nöfn á þessu helvíti). Á dagskránni var uppskeruhátíð íþróttafélagsins og var vel mætt af fólki. Eftir ræðuhöld og gaman var komið að aðalatriðinu, að krýna íþróttamann ársins í hreppnum. Og ég vitna í veislustjórann; "og sá sem hlýtur titilinn "íþróttamaður ársins" að þessu sinni eeeeer Sindri!!"

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum. Ég? Átta ára polli bara orðinn íþróttamaður ársins. Vá hvað þetta var mikill heiður. Ég lagði frá mér kökugaffallinn og þeysti upp á svið, hróðugur á svip og með brosið út að eyrum. Þegar ég svo rétti fram aðra höndina til að taka við viðurkenningunni kom áfallið. "Uuuu, já sko, það er sem sagt Sindri Þór... ekki þú Sindri." Þið getið rétt ímyndað ykkur vonbrigðin. Ekki nóg með það heldur heyrðist fliss víða um salinn og mér leið eins og fávita. Frekar vandræðalegt.

Upp frá þessu hef ég haft ímugust á rauðhærðu fólki eins og veislustjóranum, og afreksmönnum í íþróttum.


p.s. kvenréttindabaráttan er á réttri leið. Í gær var mér boðið upp á drykk á bar af ókunnugri konu. Ég tel þetta mikið framfaraskref.

laugardagur, september 29, 2007

Bakið á mér er svo aumt að ætla mætti að ég hafi legið undir yfirvigtar-atvinnumellu alla síðustu viku en svo er ekki (ég er búinn að eyða miklum tíma í að finna skemmtilega samlíkingu en þetta var það skásta sem kom), eftir pínu flutninga með Mourinho (ekki þó José Mourinho) um daginn. Ég býst við að þegar maður er orðinn svona háaldraður, 21 árs, fari svona hlutir að gera vart við sig. Líklega ekki langt að bíða að maður fái gráa fiðringinn, skalla og óléttubumbu sökum bjórþambs.


Ég ætlaði að skrifa eitthvað mega sniðugt og langt hérna en ég er kominn í einhverja fýlu. Næsta færsla verður geðveik.

miðvikudagur, september 26, 2007

Ég var að fíla síðustu helgi. Ég er að hugsa um að leggja það í vana minn héðan í frá að drekka bara eitt kvöld í viku, ég er einhvern veginn allur annar maður núna í vikunni og tók mig meira að segja til og byrjaði aftur í ræktinni eftir gott hlé. Helvíti gott.


Í verkfræðideildinni hefur verið sá siður að setja fyrir stór og myndarleg (rétt eins og ég er) hópverkefni í flestum kúrsum og hefur þá jafnan tíðkast að fólk ráði því sjálft með hverjum það er í hópi. En nú er ég í kúrs þar sem kennarinn fékk þá snilldarhugmynd að velja með "random" hætti (eða svo sagði hann) hverjir yrðu saman í hóp. Miðað við hvað það eru fáar stelpur í verkfræðinni finnst mér svolítið dularfullt að ég skuli vera eini strákurinn í sex manna hópnum mínum. Þetta gæti haft hræðilegar afleiðingar í för með sér því ég er ekki viss um að þessar stelpur skilji það að maður á ekki að læra á þeim tíma sem meistaradeildin og enski boltinn er í gangi.


Jæja, ég býst við að svefn sé góð hugmynd núna. En fyrst einn haturslisti:

Ég hata:
a) fólk sem keyrir á vinstri akrein en er ekki að flýta sér.
b) að tölvan mín skuli ekki vilja hlaða sitt batterý.
c) þegar ég er að keyra og gleymi mér í að syngja með tónlistinni og tek svo allt í einu eftir því að einhverjar stelpur í næsta bíl eru að hlæja að mér og gera grín að mér. Ég býst við að ég minni yfirleitt á þennan gaur.
d) þegar subway-gellur vanda sig ekki.
e) að tapa.

fimmtudagur, september 20, 2007

Það er eins og við manninn mælt. Ég kvarta yfir því að lítið sé í fréttum og þá kemur upp stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar. Ánægður með þetta.


En það stefnir í hörkusjónvarpsvetur í íslensku sjónvarpi og sem fyrrum sjónvarpssjúklingur, líklega núverandi tölvusjúklingur, veiti ég því athygli. Nokkrir efnilegir íslenskir þættir á ferðinni en ég bind að sjálfsögðu mestar vonir við þátt sem hefur göngu sína eftir áramót að mér skilst, en það mun vera kvöldþáttur í anda Jay Leno og David Letterman undir stjórn Þorsteins Guðmundssonar sem er að sjálfsögðu einn fyndnasti maður heims. Þetta hefur verið reynt áður og t.d. reyndi Guðmundur Steingrímsson þetta á Sirkus með að því er fólki fannst lélegum árangri. En ég hef trú á að Steini Gumm eigi eftir að gera mun betri hluti en Gummi Stein.


Ég veit lítið um hvað er að gerast í erlendri þáttagerð en var allavega að ná í fyrsta þáttinn af þriðju seríu uppáhalds þáttanna minna, Prison Break. Spurning hvort sá þáttur á sér eitthvað líf ennþá.

miðvikudagur, september 19, 2007

Það er kannski lítið að gerast í heiminum í dag eins og við sem fylgjumst með fréttunum vitum, en það er allt í bullandi gangi á þessu bloggi mínu. Búinn að uppfæra linkalistann (henti meðal annars út öllum sem ég held að séu hættir að blogga, látið vita ef það breytist) og ég veit ekki hvað og hvað.

Bætti inn einhverju mesta eðalbloggi dagsins í dag, þar sem Berglind nokkur skrifar, en það er einmitt gaman að segja frá því hvernig við kynntumst. Þannig var að við vorum að skíta á sitt hvorum básnum á klósetti í Sambíóunum og mig vantaði skeinipappír svo hún henti einni rúllu yfir til mín, og upp úr því urðum við perluvinir. Nei ok, þetta var djók, ég nenni samt ekki að skrifa hvernig við kynntumst í alvörunni.


Svo setti ég inn rándýra linka á íþróttafréttamenn landsins, svokallaða starfsbræður mína í sumar, svo ég geti nú fylgst áfram með því í laumi hvað þeir eru að pæla og hvernig þeim gengur í baráttu sinni fyrir þaki yfir höfuðið á Laugardalsvelli.


Annars get ég sagt ykkur frá því að ég fór í hávísindalega vísindaferð í Héðinn um daginn. Þetta er líklega í eina skiptið á mínum vísindaferðaferli sem ég hef haft gaman af vettvangsferðinni um fyrirtækið. Þarna fengum við allavega að sjá einhverja framleiðslu og kynngimögnuð dót og tæki, sem er snöggtum skemmtilegra en að skoða verkfræðistofu og hlusta á eitthvað á borð við þetta; "já, og hér eru borðtölvur, og skrifborð, og hér er venjulega fólk en það eru flestir farnir heim til sín, og já, margir geyma bækur hér í hillunum..." Svo voru þeir hjá Héðni líka með tittur útum alla veggi.

mánudagur, september 17, 2007

Ég ákvað að nýta mér mína ógnarmiklu knattspyrnulegu þekkingu og reyna að græða á félögum mínum úr verkfræðinni, með því að starta svona draumadeildar-leik þar sem að vinningurinn væri frítt fyllerí í útskriftarferðinni í vor. Það reyndist álíka góð hugmynd og að kúka í kross því það kom á daginn að verkfræðinemar eyða greinilega meiri tíma í að stúdera ensku knattspyrnuna en mig grunaði. Sá sem var efstur af okkur um helgina náði sem sagt þriðja besta árangri í heiminum (!!!!) með liðið sitt, eða 96 stigum á meðan ég náði 43. Frábært. Höfum samt í huga að leiktímabilið er rétt að byrja.


p.s. líklega kannski bara um það bil sirka 12,6 prósent lesenda sem skilja hvað ég var að skrifa hérna en það verður bara að hafa það.

fimmtudagur, september 13, 2007

Með kaupum á úlpu og reiknivél (20 þúsund kall fyrir reiknivél? sjæsen...) er ég líklega að fara upp fyrir 100.000 kallinn á nokkrum dögum. Ef það tekst ekki þá púlla ég bara svipað tempó á börum bæjarins um helgina og Raggi Ö er búinn að vera með í sumar, en þá er ég reyndar á leiðinni upp í 150.000 kallinn.


En ég sé hér að Sigurborg vinkona mín úr MH er enn að gera góða hluti þar á bæ. Ég man þegar við strákarnir vorum í íþróttaráði í MH og gáfum hverjum busanum á fætur öðrum að drekka þann allra ógeðslegasta drykk sem ég hef á ævi minni litið (meikaði ekki að smakka frekar en nokkur af okkur... minnir samt að Svenni hafi dýpt tungunni í þetta og verið um og ó). Drykkurinn sá var svo þykkur, brúnn og ógeðslegur að minnti á sunnudagshægðir í boði Bjössa bollu. Ég held að u.þ.b. einn busi hafi haldið honum niðri.

Þetta var samt drullugaman og busarnir skemmtu sér frábærlega, leyfi ég mér að fullyrða, þangað til Sigurborg mætti á staðinn og hellti sér yfir okkur.


Að lokum var Hlynur vinur (rím) minn að koma með þá ágætu pælingu hvort málið væri ekki bara að segja laugarkvöld í staðinn fyrir laugardagskvöld, sunnukvöld í staðinn fyrir sunnudagskvöld, og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta frábær hugmynd og í raun fáranlegt að ég hafi ekki heyrt hana áður. Héðan í frá mun ég alltaf nota þetta frekar. Svo ég sem sagt veit ekki hvað ég geri annað kvöld en á laugarkvöldið hlýtur að vera pókersession. Annað er rugl því ég hef ekki farið í póker síðan fyrir þjóðhátíð ef ég man rétt.

þriðjudagur, september 11, 2007

Djöfull er blóðugt að fara til tannlæknis. Samt er kjafturinn minn alltaf jafn smooth. En það kostar náttúrulega 13500 að tékka hvort það sé ekki örugglega rétt... Til þess að reyna að ná upp í 50.000 króna eyðsluna fyrir hádegi fór ég svo og borgaði 30.000 króna sekt sem ég var að fá fyrir að flýta mér upp í skóla um daginn. Blóðugt. Tvisvar fengið sekt á ævinni og bæði skiptin hefur það verið á Miklubrautinni rétt hjá BSÍ.


Í stað þess að læra af reynslunni hyggst ég nú hafa samband við fulltrúa Reykjavíkurborgar og spyrja af hverju í andskotanum það er svona random hvar er 80 km/klst hámarkshraði og hvar hann er 60 á Miklubrautinni. Nú hef ég ekkert fyrir mér í þessu en mig grunar að gaurinn sem sér um að láta setja upp hraðahindranir í Kópavogi hafi eitthvað með þetta að gera því þeim er líka plantað nánast gjörsamlega handahófskennt.


Jájá, ég er allavega alveg kexbrjálaður yfir því að vera búinn að eyða svona miklum pening í dag. Ferð til Manchester og miði á Old Trafford hljómar einhvern veginn mikið betur.


En nú er svona semí gaman að segja frá því að ég, ásamt Magga Mourinho sem gerðist liðsfélagi minn í stað Magga Júdasar, varð í öðru sæti í stóru Pro Evolution-móti á sunnudaginn. Ég er tilbúinn að taka mikið credit fyrir þessa frammistöðu okkar enda ákvað Maggi að ég fengi tvo kassa af bjórnum sem var í verðlaun og hann einn. Það segir sína sögu.

fimmtudagur, september 06, 2007

Já, góðan daginn. Systur mína vantar íbúð. Hálftími líður. Hún er komin með íbúð á skuggagörðunum í gegnum einhvern vin sinn sem er að fara til útlanda. Mig vantar íbúð. Hálft ár líður. Ég er númer 140 á biðlista og mun því ekki fá inni á görðunum fyrr en hugsanlega næsta haust. Spurning um að safna upp í tvær mills og kaupa sér íbúð á bullandi lánum. Hljómar fínt.



Loksins fæ ég tækifæri til að sýna heiminum hvað ég er góðu í PES. Eins gott að Maggi haldi ekki aftur af mér.

þriðjudagur, september 04, 2007

Skólinn er byrjaður og því ber að fagna því hann hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Svo sem vísindaferðir. Það er þó með tár á hvarmi sem maður hugsar til sumarsins sem fyrir mér er nú með öllu lokið. Sumarvinnan, sumardjammið, sumarferðalögin og sumarskotin hafa öll verið með einhverju því besta móti sem um getur í lífi undirritaðs hingað til. Hins vegar er ég nú orðinn bæði feitari og slappari en ég hef verið bæði frá alda öðli og síðan Ómar hafði hár, svo að ásamt því að stunda vísindaferðirnar held ég að maður verði að líta við í ræktinni endrum og sinnum í vetur.


Ég ætla ekki að fara yfir þessi highlights sumarsins í ítarlegu máli. Það sem stendur upp úr held ég þó að hljóti að vera eyjaferðin yndislega, en það var líka gaman að spila fótboltaleik í fyrsta skipti síðan Ómar hætti á Rúv. Ég nenni ekki að rifja meira upp. Öllu námi fylgir líka einhver alvara og það er víst svo að ég þarf að glugga aðeins í bækur núna.

p.s. mig langar í kærustu. Umsóknir óskast í kommentakerfi.


Keira Knightley hefur tjáð doktornum að hann sé of ungur fyrir hana (vá, eitt ár? frekar hæpin ástæða). Gárungarnir vilja þó meina að hún hafi sagt að hann væri of þungur. Hvað sem því líður þá hefur doktorinn ákveðið að leita annað.