Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

laugardagur, maí 31, 2003

fyrsti frídagurinn minn síðan um páskana. Viti menn, það rignir. Þvílíkt er heimsins óréttlæti. Fokk
hehh, ég þori að veðja að áðurnefnd gella (sem var að byrja í Intersport) er að fokkin lesa bloggið mitt eða eitthvað. Alla vega var hún alltaf að glotta eikkað í vinnunni í gær.
Ég var að horfa á ÍR - Selfoss í mínum flokki í fótboltanum. Það var gaman að sjá, en bara helvíti vont veður. Vindurinn var kannski 12 eða 15 m/s og svo í miðjum leik sagði þjálfarinn; "Gummi, ekki láta fjúka í þig". Hahahahahahaha, mér fannst það ótrúlega fyndið. Já, svona er nú íslenskan merkilegt tungumál.
Ég ætla að panta megavikupítsu í kvöld, og ég hlakka mikið til... annars er ég að semja lag núna til heiðurs nýja heilabúinu. Það hljómar mjög vel sem ég er kominn með.

fimmtudagur, maí 29, 2003

daddy needs a new pair of shoes... svo að ef þið eigið sextánþúsund kall undir sófa eða einhvers staðar, látið mig endilega vita. Ég væri meira en lítið til í að fá slíka summu lánaða, að eilífu. Ég var látinn (en lifnaði við, nei fokk djók) vinna í dag, á sjálfum uppstigningardegi. Þetta var meira svona, tja, uppstillingardagur, fyrir mig, því ég var bara á fullu að stilla upp skóm og taka til og svoleiðis.

Bænir mínar náðu til eyrna guðs, því á morgun byrjar stelpa að vinna í Intersport. Og hún er ekki bara stelpa, hún er gella! Og þá fer maður að pæla, hvað er gella? jú, það er kinn á fiski. Önnur merking orðsins, kannski sú þekktari, er skilgreind svona í Orðabók Menningarsjóðs; "Gella, eða beib, er stúlka sem telst fögur ásýndum samkvæmt tilbúnum staðli ýmiss konar miðla, svo sem sjónvarps og auglýsinga. Gella þarf að vera meðalgrönn, án nokkurs aukaspiks, en þó alls ekki of mjó".
Svo mörg voru þau orð. Sem sagt, það verður gaman að mæta í vinnuna á morgun, ehh eins og venjulega (*hóst*).

Gömul "vinkona" mín (gæsalappir því við erum á mörkum þess að vera vinir...) er að reyna að hafa samband við mig af því að hún vill hitta mig í kvöld. Hvernig get ég sagt henni að ég vilji ekki hitta hana? ég var að pæla að segja að ég væri veikur eða eikkað... einhverjar hugmyndir?

þriðjudagur, maí 27, 2003

mér finnst kynþokkafyllsta kona Íslands og bloggkennari MH 2003, vera með frekar slappt kommentakerfi þannig að ég vil hér með bjóðast til að laga það.
Annars var ég bara á fullu í vinnunni í dag. Dagurinn fljótur að líða því það var mikið að gera í að taka til og svona, og svo líka að selja. Fékk mér kjúkling með karrísósu sem var alveg ágætur, þangað til að Anna kom og benti mér á að þetta liti út eins og hægðir. Hélt samt áfram að borða þetta, þangað til að Dísa kom með sama komment. Gaurinn sem afgreiddi mig var nebbla ekkert mjög traustvekjandi...
Á morgun er ég að spá í að hringja í Katrínu (sem vinnur hjá þessum) og panta eina með kjúkling. Gaman að segja frá því að þegar ég panta úr heimilissímanum, þá er pítsan stíluð á DOKTOR Sindra (samkvæmt minni ósk). Þannig að þegar ég fer að sækja pítsuna á morgun þá verður ekkert kallað "Helena Pálsdóttir" eða "Guðríður Inga Karlsdóttir", nei, það verður sko kallað "doktor Sindri". Mér finnst það frekar fyndið.

mánudagur, maí 26, 2003

blogga ekkert í dag til að leyfa ykkur að melta afrakstur gærkvöldsins... minni samt á nýja könnun. Annars er ég hálffúll núna því ég kemst ekki inní templateið mitt, skemmtileg tilviljun að kynþokkafyllsta kona Íslands er einmitt í sömu sporum.
Ragnhildur kom í Intersport á föstudaginn og fékk sér takkaskó fyrir 24 þúsund kall... naumast að sumir eru ofdekraðir!
ég hafði magnað partí í gær (tæknilega í fyrradag...) hjá Kristjáni. Þess ber að geta að Krissi er einmitt fyrirliði landsliðs Íslands... í Counter-Strike! hahahahahaha, hann er samt mjög góður gaur! Ég lærði nýja pickup-línu en ég ætla ekki að segja hana, því ég gæti átt eftir að nota hana á eitthvert af ykkur... Ég mætti í partíið eftir að hafa verið í stúdentsveislu hjá systur minni, hún var nefnilega að útskrifast (döhh).
Prýðis skemmtiatriði voru í veislunni, en þau voru í boði hennar og hennar og fleiri stelpna. Aðallega eikkurir djöfulsins verkalýðssöngvar, eins og gamall frændi minn kaus að orða það. Ég fór svo til Þóru frænku (sem er með Hjartslátt-þættina á Skjánum) og horfði á byrjunina á júróvisjón... um níuleytið (eða eikkað, séns að ég muni það) kom dræverinn minn að ná í mig og við fórum í áðurnefnt partí til Krissa.
Þar var stemming góð og allt fullt af fólki. Aðallega einhverjar stelpur úr Kvennó, vinir mínir, og svo líka nottla (náttúrulega) stelpur úr MH. Þegar það kom miðnætti kom í ljós að einhver gaur þarna átti ammæli, þannig að það var sungið fyrir hann og svona. Ég var nottla heví öfundsjúkur þannig að ég sagði bara að ég ætti líka ammæli, og þá var líka sungið fyrir mig. Það var fínt en það sem var frábært var að allar stelpurnar kysstu mig til hamingju með daginn! ég ætla sko að nota þetta oftar!

Ég vil óska Ragnheiði til hamingju með afmælisdaginn, hún átti afmæli í alvöru.

sunnudagur, maí 25, 2003

Tölvufíkn

Tölvufíkn er hugtak sem flestir skilja. Í hversdagslegri umræðu er þetta þó lítið notað vegna hræðslu og vanþekkingar, rétt eins og geðveiki og fleiri sjúkdómar.

Halló allir, ég heit Sindri og ég er tölvufíkill (halló Sindri!). Þetta byrjaði allt saman þegar ég var 4 ára og bjó á Blönduósi. Þar var ég í pössun hjá góðu fólki sem átti svona lítið tölvuspil. Á hverjum degi hékk ég í þessu tölvuspili sem ekki var hægt að vinna, aðeins að safna fleiri stigum en síðast. Með tímanum fór þetta versnandi og ég byrjaði að leika mér í Nintendo-tölvu frænda míns í hvert skipti sem ég kom í heimsókn til hans. Um 9 ára aldur fékk ég tölvuna lánaða og ég hef ekki ennþá skilað henni. Um 14 ára aldur var maður svo byrjaður að leita í harðari efni, því fíknin er jú þannig að þú biður alltaf um meira og meira. Núna virkar ekkert annað fyrir mig en góður pési, og ég er að nota þetta stöff marga klukkutíma á dag! Sem betur fer er komin meðferðarstofnun í Noregi fyrir fólk eins og mig. Ég tek við fjárframlögum fyrir ferð til Noregs alla virka daga í Intersport, milli klukkan 11 og 7!

föstudagur, maí 23, 2003

smá leiðrétting frá starfsmannablogginu.... Ásdís er ekki oft veik, og hún er bara ágætlega gáfuð!
hahahahahahaha, tveir sem kunna minna en ég á HTML. Annars hlakka ég nú bara til að sjá hvernig Birgittu gengur á laugardaginn. P.S. ég á afmæli á morgun, föstudag.

fimmtudagur, maí 22, 2003

einkunnir mínar á vorönn 2003 voru að koma í hús;
Dan203 = 9
Efn103 = 8
Ens413 = 8
Lík401 = 10
Nat113 = 8
Ska301 = 8
Spæ403 = 8
Stæ503 = 9

Ekki annað hægt en að vera sáttur við flest af þessu. Fékk til að mynda 7,55 í Nat113 (sem hækkar þá uppí 8) og 8,55 í dönsku (sem hækkar þá uppí 9).
Stóru vonbrigðin voru 8 í efnafræði þar sem ég fékk 8,5 á prófinu, skil það nú bara alls ekki að ég hafi fengið 7 í kennaraeinkunn. Honum er efalítið ekki vel við mig sýnist mér.
Og þið af ykkur sem ætlið að kalla mig proffa útaf níunni í stærfræði, vil ég benda ykkur á að þið vitið ekki hvað þið eruð að tala um þar sem þið hafið ekki tekið áfangann (nema Atli, en hann er nú frekar þroskaður). Óskið mér hins vegar endilega til hamingju ef það er ykkur ekki of mikið ómak.
kæru hálsar og aðrir líkamspartar (alltaf gott að byrja á einum klassískum). Haldið ykkur fast, stórar fregnir eru á næsta leyti..... Allir tilbúnir? ég er ófrískur! og ekki nóg með það, þetta eru þríburar:) gaman gaman! nei, ég er nú reyndar að plata núna... en ég er með stórar fregnir, kannski ekki jafnstórar og platfregnirnar, en stórar samt. Á morgun mun ég tilkynna almenningi fyrstur manna, hver slóðin er á nýja heilabúið! þeir eru meira að segja búnir að hanna slatta af útlitinu og svona! Þetta eru "classified information" eins og einn heilabúari orðaði það, svo þið skuluð líta á þetta sem forréttindi, að fá að vita hver slóðin er!

miðvikudagur, maí 21, 2003

Fór í fótbolta áðan og er alveg búinn áðí. Frétti af 2 partíum á laugardaginn sem gæti verið gaman að kíkja í, þ.e.a.s. ef ég losna einhvern tímann úr stúdentsveislu systur minnar. Pælið í því, ég þarf að vera í jakkafötum frá 2 til svona 7 á laugardaginn, og ég hata jakkaföt. Hvað er svona meira sparilegt við þau heldur en til dæmis svartar íþróttabuxur. Mig langar rosamikið að vera í svoleiðis buxum og dökkblárri skyrtu. Mamma vill það ekki jafn mikið. Mig langar alls ekki í klippingu fyrir laugardaginn, það er hins vegar eindreginn vilji mömmu. Við erum líklega ekki alveg á sömu línu mæðginin... en okkur finnst báðum bjór góður, eins og glöggt má sjá af þessum myndum (mamma er til vinstri á fyrstu mynd)
svaf yfir mig í morgun og mætti of seint í vinnuna í fyrsta sinn... skemmtileg tilviljun að einmitt í morgun kom nýr eigandi Intersport í heimsókn. Þetta minnkar óneitanlega líkurnar á kauphækkun, en ég tel samt næsta víst að fá hana fyrir mánaðamót júní/júlí.
Ég átti innihaldsfátækasta símtal sem ég hef nokkru sinni átt (fyrir utan svona "skakkt númer" dæmi) og var það við Krissu í vinnunni áðan. Ég vil þakka henni fyrir að skella ekki á mig en mér leiddist ósegjanlega í vinnunni í dag.

Lærdómur dagsins: Það er yfirmáta vandræðalegt þegar þú þarft að afgreiða konu sem notar númer 44 af skóm ("nei því miður, þessir komu ekki stærri", "því miður, þeir eru bara að klárast", "því miður en ég á karlatýpuna..."), enn vandræðalegra er þó ef að þeir eru of litlir á hana. P.S. þetta gerðist einmitt í dag, for real!

sunnudagur, maí 18, 2003

ég var að pæla að taka mér listamannsnafnið Undur. Það getur skapað alveg ótrúlega fyndna djóka... tökum dæmi:

Hans hátign enginn hindri
hann er ekkert blý
hann er doktorsindri
hann er góður áðí.


Höf: Undur
Evróvisjón, Júróvisjón, Eurovision eða hvað sem þið viljið kalla það.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Riga í Lettlandi næstkomandi laugardag. Fulltrúar Íslands eru lagðir af stað með það markmið að heilla evrópubúa, eða þá að ná sér í feitan plötusamning. Birgitta Haukdal (eða Bytta, eins og ég kýs að kalla hana) gaf sér tíma til að fjárfesta í sandölum í Intersport áður en hún lagði af stað, og átti ég við hana stutt en innihaldsríkt spjall.
Hún fer sem sagt út ásamt fríðu föruneyti; hljómsveitinni sinni og nærri hálfri ættinni eins og hún orðaði það sjálf. Æfingar verða daglega frá og með þriðjudeginum, en þess á milli vonast stjarnan til að geta verslað og notið sólarinnar, sem einmitt skín skærast í Riga á þessum árstíma. Aðspurð telur hún þó að áreiti blaðamanna og almúgans í Lettlandi verði talsvert mikið, enda ekki á hverjum degi sem frambærilegasta söngkona sjálfs Íslands kemur þangað. Fataval Birgittu er sjálfsagt eitthvað sem allir hafa skoðun á. Hún tjáði mér í fyllsta trúnaði að fyrir valinu yrðu þröngar gallabuxur (svoldið útvíðar að neðan) og dökkur bolur með smá ermum. Hún hefur verið að æfa dansspor á fullu síðustu vikur og segir hún að grunnsporin séu smá dill í hægri mjöðm og klapp á hægra læri.
Að þessum orðum sögðum kvaddi ég þessa Húsavíkurmær, og hlakka til að sjá hana aftur, á sjónvarpsskjánum þann 24.maí.

Sjálfur spái ég Birgittu nú ekki nema öðru sæti og Tatu fyrsta, enda samkeppni við tvær ungar lesbíur ekkert til að fást við.

föstudagur, maí 16, 2003

klukkan 10:30 var ég búinn í prófum, gleði gleði. Eftir prófið hafði ég hálftíma sumarfrí áður en ég átti að mæta í vinnuna. Ég nýtti það meðal annars til að fara á salernið, og til að sitja í bíl hjá Arthúri upp í Smáralind. Einnig notaði ég tímann vel og íhugaði tilgang lífsins og hvernig það hefði byrjað. Ég komst ekki að annari niðurstöðu en þeirri að líf hlyti alltaf að hafa verið til. Mér líður illa að geta ekki komist til botns í þessu máli. Ef einhver kann svör við þessu, vinsamlegast kommentaðu eða eikkað.

Ég tek við gjöfum og heillaóskum, fyrir að vera orðinn stúdent í stærðfræði, í Intersport frá klukkan 11-7 á morgun og 11-6 á laugardag. Annars var ég í fótbolta áðan og ég er svo þreyttur að ég á erfitt með að tæpa inn það sem ég er að hugsaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa

miðvikudagur, maí 14, 2003

held ég taki nú stærðfræðina létt á morgun, enda er stærðfræði himneskt fyrirbæri.
hmmm, hvað á að blogga í dag... íþróttafréttir? já, ok

Haukar tóku ÍR í óæðri endann (svo ég vitni nú í Samúel Örn) í handboltanum í gær. Algjört rúst og nú eru Haukar íslandsmeistarar, bölvaðir.

Og Eyjólfur Sverrisson, vinsælasti piparsveinn Berlínarborgar (þrátt fyrir að vera giftur, toppiði það!) hefur gefið kost á sér í landsliðið að nýju, núna stuttu eftir að Atli Eðvalds sagði upp störfum. Tilviljun? held ekki! Greinilega verið eitthvað ósætti á milli þeirra en núna er Ásgeir Sigurvins orðinn þjálfari og þá kemur Eyjólfur aftur í liðið.

Sindri Sverrisson tilkynnti á opnum blaðamannafundi síðastliðinn laugardag að hann hygðist kaupa sér kort í ræktinni á næstu dögum. Þess má því vænta að þess verði ekki lengi að bíða að við fáum sjá kappann á fótboltavellinum að nýju. Hans hefur verið sárt saknað í undirbúningsleikjum ÍR í vor og ljóst að liðið er ekkert án hans.
Mynd af Sindra:

mánudagur, maí 12, 2003

er þetta fyndnasti brandari í heimi? ég hló nú bara í svona fimm sek. mest sko...
ég var í sundi í fyrsta sinn í svona cirka 2 ár áðan (ég er samt búinn að fara í bað og sturtu og svona þannig að ekki hafa áhyggjur af því...). Það var fínt nema ég hálfskammaðist mín fyrir að vera kalkhvítur þarna innan um allt tjokkóliðið. Fullt af fríðum konum annars í sundi, enda fór ég í Árbæjarlaug í staðinn fyrir Breiðholtslaug (þar sem 95% eru yfir 50 ára). Gaman hversu bikinímenningin er orðin útbreidd hérna á Íslandi, mjög gaman.
Ég massaði enskuprófið í morgun, pottþétt nía held ég! svo er bara stærðfræðin eftir og ég giska á að ég fái milli 6-10 í henni...
Annars var ég að pæla, er hægt að segja að Steingrímur joð sé kommi, eða Vinstri-Grænir yfir höfuð. Ég meina, þeir aðhyllast kommúnisma, en er það það sama?

laugardagur, maí 10, 2003

úff, lenti í rosalegu í vinnunni í dag! var bara að afgreiða tvo í skónum þegar eikkur kall þrumaði yfir alla búðina; "ertu einn að vinna hérna? hvurs lags búð er þetta eiginlega?". Þá leit ég upp og sá bara 10 að bíða á kassanum og enginn nálægur til að afgreiða. Ég ákvað bara að slá á létta strengi og svaraði; "já, þetta er sko mín helgi...". Hahahahaha, ég hló að sjálfs míns fyndni. Enginn annar hló. Ég fór og náði í fleira fólk að afgreiða.

Kalkaðri amma mín kaus í vikunni. Hún hefur kosið sjálfstæðisflokkinn frá því hún giftist Páli afa, en nú ætlaði hin spillta móðir mín að láta hana breyta. Svo þegar amma kom úr kjörklefanum sagði mamma; "jæja, settiru svo x við S eins og þú ætlaðir?", "nehei, ég kaus sko Sjálfstæðisflokkin eins og ég er vön! En mamma er ekki þessi týpa sem lætur deigann síga, hún keyrði sko ömmu í dag á kjörstað til að hún gæti breytt atkvæðinu sínu. Á leiðinni var amma látin gera margar æfingar til að tryggja að hún merkti nú við S. Það fór eftir og því getiði kennt mömmu um eða þakkað henni fyrir, ef það munar 2 atkvæðum í kvöld...

Tilvitnun dagsins er frá Dísu í vinnunni; "hvað ætla ég að kjósa? bara samfylkingarflokkinn", Ásdís er ekki mikill pólitíkus...

föstudagur, maí 09, 2003

í sjónvarpinu eru Ingibjörg og Steingrímur að bítast um atkvæði Atla og fleiri óákveðinna stjórnarandstæðinga, það er nú ekki nógu gott...
Það er línuskautadagur í Intersport Smáralind á morgun. Það þýðir að ég þarf að mæta klukkan 10 til að taka til á lagernum og læra hve góður hver skauti er. Svo eru Adidas Superstar skórnir komnir, þessir með skeljatánni sko...
Og góðar fréttir úr heimi knattspyrnunnar; Atli Eðvaldsson áttaði sig loksins á stöðunni og sagði upp störfum sem landsliðsþjálfari. Ég vil hér með bjóða mig fram sem næsti þjálfari og kynna mína hugmynd að liðsuppstillingu:
Markvörður: Árni Gautur
Bakverðir: Hermann Hreiðarsson og Lárus Orri Sigurðsson
Miðverðir: Guðni Bergsson og Pétur Marteinsson
Miðjumenn: Rúnar Kristinsson og Brynjar Björn Gunnarsson
Kantmenn: Jóhannes Karl Guðjónsson og Sindri Sverrisson (eða Arnar Þór Viðarsson)
Framherjar: Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen
Bekkur: Ólafur Gottskálksson, Helgi Sigurðsson, Tryggvi Guðmundsson, Þórður Guðjónsson og Indriði Sigurðsson

fimmtudagur, maí 08, 2003

(athugið að þessi skrif munu ekki fjalla um íþróttir þrátt fyrir að svo megi virðast í fyrstu) hahahaha ég var að horfa á ÍR vinna Hauka í handboltanum og getiði hver var á vellinum! nei, það var Halldór Ásgrímsson... ohh, það var svo fyndið að sjá hann. Maðurinn kann hvorki að öskra né klappa í takt, ég meina, hann var eins og fimm ára krakki þarna (nema þeir kunna að öskra)!

Svo horfði ég á rómantíska gamanmynd (hljómar hýrt...) og ég fór að pæla, spurningin sem alltaf er varpað fram í svona myndum; "nær hann til hennar áður en flugvélin leggur af stað?" er svoldið eins og "nær hann að aftengja sprengjuna?" í spennumyndum eða "nær hún að fá það áður en að hann kemur?" í klámmyndum.

Aðeins einn femínisti hefur svarað í könnuninni minni en 6 kvenrembur! Vil ég hér með skora á hvern þann kvenmann sem sagði að konur væru betri, í stærðfræðikeppni!

miðvikudagur, maí 07, 2003

komin ný spurning vikunnar!
og já, ég brilleraði á efnaprófinu samkvæmt Önnu Tryggva...
pæling dagsins: ætli það sé satt að Árni Johnsen hafi beyglað uggann á Keikó? og ef hann gerði það ekki, hver þá?

þriðjudagur, maí 06, 2003

jæja, þið eruð kannski að velta fyrir ykkur hvernig prófin ganga hjá mér. Eins og alþjóð veit tók ég tvö próf í gær og eitt í dag, og svo er efnafræði á morgun. Gengið hefur verið misjafnt en ef við setjum það upp í meðatalsdæmi er það svona:
(Frekar illa + 2(frekar vel))/3 = bara ágætlega.
Svo er spurning með efnafræðina en ég stefni á að ná alla vega áttunni!
Svo eru verðlaunin fyrir að vera 5000. gesturinn ekki af verri endanum, leikhússferð með engum öðrum en mér (gæti breyst í bíóferð, fer eftir kauphækkun).
3000. heimsækjarinn á síðuna mína má koma í heimsókn til mín á sunnudag og horfa á formúluna með mér! boðið verður upp á pítsu og eikkað að drekka! hver ætli það verði?

mánudagur, maí 05, 2003

ég er ekki búinn að læra neitt í dönsku, en ekki er öll nótt úti enn. Svo sit ég bara fyrir aftan Þóru, því Þóra er þeim hæfileika gædd að vita allt sem snýr að dönsku! annars vil ég þakka dönskutvöhundruðhópnum fyrir magnaða önn, og Hans Uve fyrir að leyfa okkur að horfa á Blynkende lygter og að sýna myndskeið með Jennu Jameson!
Ugla Egilsdóttir, ein af konunum sem ég elska mest en einnig konan sem ég hræðist mest, er byrjuð að blogga aftur. Hún kom að orði við mig í dag og tjáði mér það að hún hefði sko bloggað á hverjum degi síðustu daga. Svo hótaði hún að æla yfir mig ef ég addaði ekki link á hana. Hún fær því pláss í hinu eftirsótta linkasafni mínu, og í staðinn fær Magnea að fjúka því hún virðist vera hætt...

laugardagur, maí 03, 2003

getiði hver er ekki búinn að læra rass í dag... alveg rétt, það er ég!
ég er hins vegar búinn að fara í bað, og í baðinu fór ég að pæla í pólitík á Íslandi (bíðið, ekki hætta að lesa). Ég meina, ef ég ætti til dæmis að farað kjósa núna (ok, þið megið hætta að lesa) þá eru 6 möguleikar sem ég hef:

Framsóknarflokkurinn: já, ekki beint spennandi kostur. Flokkur með engin stefnumál önnur en þau að samþykkja allt, bara svo þeir komist í ríkisstjórn. Eina bjarta hliðin í þessum flokki er Guðni Ágústsson, bara af því hann er fyndinn, ekki af því að hann sé frambærilegur. Aðrir frambjóðendur X-B virka mjög illa á mig.

Frjálslyndi flokkurinn
: já, þetta er a.m.k. flokkur sem þú veist hvað mun gera ef hann kemst í ríkisstjórn. Eina stefnumál flokksins er nefnilega fiskarnir í sjónum. Gott og vel, en ég hef það samt á tilfinningunni að aðeins Vestfirðingar njóti góðs af því að hafa þennan flokk við stjórn.

Samfylkingin: hmmm, var sosum að pæla í þessum flokki helst, en er alveg hættur við. Alveg fáránlegt að þeir byggja kosningabaráttuna upp á því að Davíð sé búinn að vera of lengi við völd, og að þeirra forsætisráðherraefni sé kona. Ingibjörg gerði góða hluti í borgarstjórn en þegar ég sé hana í kastljósi eða hlusta á hana í útvarpi fæ ég það á tilfinninguna að hún viti stundum ekki alveg um hvað hún er að tala. En í stað þess að viðurkenna það, segir hún bara "já, það þarf breyttar áherslur" eða "og við munum fara vel yfir þessi mál". Svo er líka erfitt að treysta henni eftir þetta "ég fer sko ekki í landspólitík" og svo bara orðin forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, án þess að um það væri kosið eða neitt. En ungir Samfylkingar (eða eikkað) eru samt búnir að lofa að lækka áfengiskaupaaldur og svona þannig að flokkurinn er ágætur.

Sjálfstæðisflokkurinn: hata að fara upp í Grafarvog og sjá öll þessi einbýlishús, og kenni X-D um það að ég skuli búa í blokk í Breiðholti. Svo eru þeir með asnalegar auglýsingar um að þeir hafi strokað út fimm kílómetra (já kílómetra) af skuldum, hvernig í andskotanum fá þeir það út? Og í sömu auglýsingu segja þeir að hægt væri að byggja sosum eins og þrjú háskólasjúkrahús á ári, samt fær afi minn hvergi pláss. Mér virðist sem þessi flokkur kunni að græða peninga, en ég er ekki sáttur við hvernig þeir nota hann. Stéttaskipting á Íslandi er orðin of mikil, en þeir vilja ekki viðurkenna það.

Vinstri grænir: já, þeir eru sko alveg grænir! hahahahaha, bara grín. Myndi ekki kjósa þennan flokk, einfaldlega vegna þess að þeim virðist meira annt um náttúruna heldur en líf manna. Þetta er svona aðeins of mikill öfgaflokkur fyrir mig... Svo held ég líka að þeir gætu ekkert myndað stjórn með neinum öðrum. Ekki nema kannski framsókn sem myndi samþykkja allt sem þeir segja. Skalla-Grímur myndi örugglega vilja vera forsætisráðherra sem öllu réði. Fínn flokkur samt, með skýra stefnu, verst að það er ekkert sem fær þá til að breyta henni.

Svo niðurstaðan er: ég myndi mæta á kjörstað og skíta á kjörseðilinn og setja hann svo oní kassann. Spurning hvort er hægt að gera það í gegnum netið...

föstudagur, maí 02, 2003

ohhh, helvítis jarðfræðin! ég er sum sé að læra fyrir lokapróf í jarðfræði, en svo heppilega vill til að lokapróf í spænsku er sama dag:(
sem betur fer er ég með massífar glósur frá Ms.Sand svo það er óþarfi að kvíða. Ég var að pæla í að skella mér í bíó í kvöld svo að ef einhvurn langar að skella sér á Confessisons of a Dangerous Mind (með Juliu Roberts og George Clooney) þá er síminn hjá mér áttasexsjösjötíusjötíuogsex!