Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, maí 30, 2004

Jæja, nú eru ekki nema svona 3 mánuðir í að Idol byrji, og skráningar fara örugglega að hefjast. Þess vegna þarf fólk að fara að ákveða sig hvaða lag það ætlar að taka. Gaman væri að vita hvort einhver lesandi ætlar að reyna fyrir sér í þessari sérstöku keppni. Ég held að ef ég gossaði í áheyrnarprufurnar (gefið að ég hefði minnsta vott af söngrödd) myndi ég taka auðvelt lag, sem minnkar líkurnar á mistökum, og reyna að sjarma dómnefndina með útgeislun og ferskleika. En því miður fyrir heiminn mun ég ekki taka þátt.

Hey, af hverju er söngvakeppni ekki jafn fáránleg og fegurðarkeppni? Fólk fæðist með mismunandi góða rödd eins og það fæðist mismunandi fallegt. Vitaskuld getur það ræktað og æft röddina, en getur það ekki á sama hátt ræktað fegurð sína? Og er ekki misjafnt hvað hverjum og einum finnst falleg rödd, rétt eins og það er misjafnt hvað fólki finnst um fegurð annarra? Ég allavega sé ekki annað en að þetta sé sami pakkinn.
Helstu rökin væru kannski að ungar stelpur fái þá hugmynd af fegurðasamkeppnum að svona eigi þær að lýta út. Það er nú samt þannig að þetta sama er að gerast með röddina því það er búið að þróa tækni til að gera "lýtaaðgerðir" á röddum fólks, eins og ein "tegund" af rödd sé betri en önnur. Nei ég meina, maður pælir.

Ég er farin að fá mér pítsu í fjórða sinn á megaviku. Rosalegt alveg hreint. Eitthvað verður maður nú að éta í vinnunni. Fyrir áhugasama þá finnst mér besta pítsan á menjúnum vera Santa Fe. Góðar stundir.

laugardagur, maí 29, 2004

Hver ræður yfir heiminum? Enginn? Nei, það er rétt. Það er enginn svona "öryggisventill" ef að valdamestu þjóðirnar taka heimskulegar ákvarðanir, eins og forseti Íslands er öryggisventill ef að ríkisstjórnin tekur heimskulegar ákvarðanir.

Ég var að pæla í því hvað það væri grillað ef ég væri ráðherra (sem eitt og sér væri vitaskuld grillað) og myndi setja fram frumvarp sem flestir teldu að væri beint gegn einu ákveðnu fyrirtæki, en ég myndi þvertaka fyrir að svo væri. Svo myndi bara allt í einu einhver dúddi sem er með mér í flokk óvart upplýsa að frumvarpið beindist nú bara heldur betur gegn einu ákveðnu fyrirtæki. Stjórnmálaferillinn væri bara búinn hjá manni eða eitthvað flippað.

Ég ætla aldrei aftur að tala um stjórnmál. Ég að tala um stjórnmál er eins og Andrés Önd með kynfræðslu.

Plötur dagsins: finnst mér mjög plebbaleg pæling. Allt skítkast er afþakkað.

föstudagur, maí 28, 2004

hmmm, ég er nú ekki sáttur með tínsuna hjá Dominos í Lóuhólum, sem kallaði upp "Sindri" í staðinn fyrir "Dr.Sindri", þegar komið var að mér að fá pítsuna mína. Ekki nógu gott mál og eiginlega skil ég ekki hví í argasta helvíti hún gat ekki klínt doktorstitlinum framan við nafnið. Þetta er ekkert gaman nema þær geri það en það var samt smá gaman þegar maður var að spjalla við stelpuna í símann.

Nú er ungfrú Ísland á morgun. Mig minnir að Julie vinkona mín hafi ætlað að plögga mér og Krissa backstage, sem hefði örugglega verið næs, en ég held að það verði ekkert úr því (allavega ekki ef ég fer ekki að gera eitthvað í því). Ég er nú ekki búinn að sjá annað af þessum stelpum en yfirmáta hallærislegar auglýsingar á Skjánum. Þegar ég sá eina af þessum auglýsingum fékk ég það hreinlega á tilfinninguna að þessar stelpur væru algjörlega heilalausar (ahhh, tú leit). Ég veit ekki hvort ég held með nokkurri, þær eru allar voða svipaðar eitthvað. Jú, ég held með Margréti Magnúsdóttur frá Önundarfirði. Hún er örugglega stolt Önundarfjarðar. Sé alveg fyrir mér að annað kvöld safnist allir í bænum saman, bara Önundur og allir, og horfi saman á keppnina. Svo ef hún vinnur þá verða alveg flugeldar og læti þegar hún kemur siglandi heim, og það verður búið að skrifa nafnið hennar í bæjarbrekkuna með kertaljósum (nema náttúrulega að það sé búið að leggja veg til Önundarfjarðar, þá kemur hún örugglega keyrandi heim).
En ef við höldum áfram með þessar pælingar (þ.e.a.s. að hún vinni og komi heim), þá á hún örugglega eftir að dömpa sveitalúðanum sem hún var að deita, og dobbla kvótakónginn hann pabba sinn til að borga fyrir hana leigu á penthouse í þingholtunum. Svo mendlar hún við harðasta djammfólkið í hundraðogeinum og fer að stunda skemmtistaðina grimmt. En þar sem hún er nú bara saklaus sveitastelpa skeður það eitt sinn þegar hún skilur við drykkinn sinn að vafasamur gaur blandar smjörsýru útí hann. Þegar hún vaknar daginn eftir liggur hún í rusli í rusli (þetta var ekki óvart) í hliðargötu niðrí bæ. Smám saman áttar hún sig og hringir í pabba og biður um að fá að koma heim, en foreldrarnir segjast ekkert vilja með hana hafa af því að hún hafi ekki haft neitt samband við þau síðan hún kvaddi. Hún er við það að gefast upp á lífinu en þá dettur henni í hug að skrifa ævisögu sína og gefa hana út um jólin. Það heppnast ágætlega og í framhaldinu ákveður hún að fara í lýtaaðgerð í beinni útsendingu á Stöð 2, en fær það ekki þannig að smám saman drabbast líf hennar niður og hún endar á því að drekkja sér í Reykjavíkurtjörn, barnlaus, mannlaus, bjórlaus og allslaus.

En þetta eru sosum getgátur.

fimmtudagur, maí 27, 2004

fússer eða ekki fússer, það er spurningin...
fjögurhundraðasta færslan.

Ég á vart orð til að lýsa því hversu óhemju þreyttur ég er núna. Ég fór í ræktina fyrr í kvöld (klukkan er 3) og strax eftir það var brunað útá Való í fússer. Það var samt helvíti gaman en ég finn til í löppunum af einskærri þreytu. Annars var þetta undarlegur bolti fyrir ýmsra hluta sakir. Mig langar samt helst að nefna (tja, langar og langar ekki) að ég skoraði sjálfsmörk. Ekki 2, ekki 3, ekki 4, ekki 6, nei, ég skoraði sko 5 sjálfsmörk á þessum 2 tímum eða svo sem við vorum að sparka. Ég man ekki eftir að hafa skorað sjálfsmark nokkurn tímann áður, utan eitt skipti, þannig að þetta þótti mér þó nokkuð merkilegt.
Annars er gaman að segja frá því að í þetta skipti sem ég skoraði sjálfsmark, þá var ég að keppa alvöruleik í innanhússmóti, og skoraði þegar það voru 10 sekúndur eftir. Þetta mark kom í veg fyrir að við fengjum að spila úrslitaleikinn. Það var frábær mórall í hópnum, og kannski var það þess vegna sem þetta er eina skiptið sem ég hef grátið á almannafæri (svona eftir að ég mannaðist (þið fattið vonandi)), allavega svo ég muni. Ég tók þetta afskaplega nærri mér, sem sést kannski best á því að ég man hvar þetta gerðist, hve mikill tími var eftir, á móti hverjum við vorum að keppa og hverjir voru inná í liðinu mínu. Annars, af hverju ætli ég gráti ekki meira. Mér sýnist ég aðeins of tilfinningalega lokaður. Ég bara hef það ekki í mér að vera að gráta yfir einhverri bíómynd eða þvíumlíku. Hvað segja aðrir strákar? Er mikið verið að gráta á almannafæri?

Jæja, ég ætla að láta þetta gott heita því eins og þessi fjögurhundraðasta færsla fjallaði svo skemmtilega um, þá er ég mjög þreyttur. Ég á örugglega eftir að hrynja niður af þreytu í vinnunni á morgun. Bless fress.

miðvikudagur, maí 26, 2004

jaml japl og fuður.

í gær var sérdeilis ágætt í vinnunni þar sem hún Katrín kíkti í heimsókn, og varði dulitlu af sínum dýrmæta tíma í spjall. Einnig kíktu þær Helga og Jóna saman á mig, og voru þær hressar og kátar, og þá kannski sér í lagi Helga en hún er einmitt að fara til Kaupmannahafnar í sumar. Mér finnst mjög hipp og kúl að vinna í köben, til dæmis geturu sagt að þú sért að spá í að "kíkja" á Hróarskeldu. Allavega, auk áðurnefndra hnáta kíkti yfiryfirmaðurinn (sem þó er ekki yfiryfiryfirmaðurinn) tvisvar í heimsókn í gær. Svo skemmtilega vildi til að í bæði skiptin sem hann kom var ég að spjalla við áðurnefndar vinkonur. Spekingar segja mér að það hafi ekki komið neitt sérstaklega vel út.

Nú eru sterkar líkur á að hvítasunnuhelgin sé næstu helgi, og þá veltir maður fyrir sér "hvað er hvítasunna og af hverju höldum við hana heilaga?" Nei djók, þá veltir maður fyrir sér "hverjir joina fyllerísferð útí rassgat?" Ég veit allavega um ónefnda mözdu sem er eflaust til í slaginn. En það eru barasta allir að fara til útlanda eða vinna á megaviku eða að gera eitthvað fáránlegt. Sem er bara fáránlegt.

Jæja, ég ætla ekki að halda fyrir ykkur vöku lengur. Ég hugsa að ég taki smá Family Guy á þetta og fari svo að sofa. Ég byrjaði klukkan rúmlega tíu að vinna í morgun og var að koma heim. Það var nebbla svona námskeið eftir vinnu um hvernig maður ætti að hegða sér sem sölumaður. Stórfínt námskeið en mér finnst leiðinlegt að þess þrjú ár sem ég er búinn að vinna hafi ekki verið eitt námskeið til að auka vöruþekkingu. Frekar verið að ítreka að maður skuli ekki tyggja tyggjó á kassanum.

Hey, ég fékk mér líka strípur í dag. Ég var að láta undan þrýstingi frá yfirmanninum, og í fyrsta sinn sem ég prófa svoleiðis (að fá mér strípur). Hárgreiðslustelpan var mjög fín, en mjög lítil, reyndar svo lítil að ég þurfti hálfpartinn að liggja í stólnum á meðan hún klippti mig. Og það er ekki lygi. Þið þurfið ekkert að undrast það ef þið takið ekki eftir strípunum, því ég bað hana um að hafa þetta voða vægt. Ég vildi bara prófa. Hún fattaði strax að það væri einhver að skora á mig að fara. Ég er samt alveg ágætlega sáttur, sem er mjög óalgengt þegar ég er búinn í klippingu.

Selling is not telling. U gotta learn more to earn more. Jább, ég hef lært eitthvað á þessu námskeiði. Bið að heilsa!

föstudagur, maí 21, 2004

Maður er nú bara sæmilega þreyttur núna. Sofnaði aðeins yfir KA-Víkings leiknum og ég held að Helga Clara hafi hringt en ég veit ekkert af hverju hún gerði það. Frekar sérstakt mál allt saman. Spurning um að kíkja í útskriftarveislu á morgun (mikið finnst mér ég vera orðinn gamall) og hafa gaman. Líka bara spurning um að vera ekki að blogga þegar maður hefur ekkert að segja.

fimmtudagur, maí 20, 2004

brjóst

Í gær kláraðist skólinn loksins fyrir mér. Ég miða frekar við að fá einkunnirnar heldur en prófalok, sérstaklega núna þar sem ég var í fyrsta sinn tæpur á einhverju fagi. But here are the results:
Danska: 9, danish neuf points.
Neinei, ég nenni þessu ekki... en ég fékk 9 í dönsku sem og ísl3T3, fél103 og efn313. Svo var það 8 í ísl403 og 5 í stæ703. Get vitaskuld ekki verið annað en sáttur, og er jafnvel ánægður með 9 í efnafræði og sérstaklega í dönsku, því ég gerði ekki rass í þeim áfanga (vil bara þakka þessa einkunn þeim Dísu, Eddu, Gunnari Frey og Mörtu). Hins vegar svekkelsi að fá ekki 9 í íslenskunni, þó ég viti alveg að 8 er fín einkunn, því það munaði litlu. Svo get ég bara sjálfum mér um kennt með stærðfræðina, því ég nennti engan veginn að sinna henni í vetur (og það bara kann ekki góðri lukku að stýra í áfanga þar sem kennaraeinkunn gildir 50%). Ég fékk 6,4 í prófinu þannig að með eðlilegri kennaraeinkunn hefði ég átt að ná 7, en ég fékk 3,1 í kennaraeinkunn (vel gert Sindri).
Svo fékk ég 10 í líkamsrækt og bridds. Fín önn, þó ég hafi sjaldan sinnt náminu jafn illa.

Maður er svona búinn að vera að spá hvað hægt væri að gera með þennan námsferil á bakinu, og hverju væri þá best að bæta við sig, en ég hef vitaskuld ekki komist að neinni niðurstöðu. Tékkaði á einhverjum spurningum úr inntökuprófi í læknisfræði og leist nú bara frekar vel á það. Veit samt ekkert hvar ég stend í þessu.

Ég fór svo á lokaball á þriðjudaginn og skemmti mér dável. Ég var reyndar ekki boðinn velkominn í neitt fyrirpartí (vonandi var það bara vegna skorts á þeim) þannig að við hittumst 7-8 manns í kjallaranum hjá krissa til að gíra okkur upp fyrir ballið (djöfuls fornaldarháttur er á þessum skrifum mínum). Það var reyndar alveg hreint ágætt. Krissi var búinn að drekka svo mikið að hann var næstum orðinn fyndinn og skemmtilegur, en svo drakk hann aðeins meira og drapst og komst ekki á ballið (sem er mjög fyndið). Allavega, mér fannst stemmningin á ballinu fín og mér fannst best þegar DJ Palli setti Ruslönu á fóninn. Fólk var greinilega að fíla Palla betur en Atómstöðina, en mér fannst þeir vera að rokka frekar vel síðasta hálftímann (en ég var bara á staðnum í einn og hálfan tíma eða eikkvað (man þetta ekki alveg)). Þegar þeir tóku Killing in the name of fór söngvarinn bara á gólfið og hrinti fullt af liði og þá fóru allir bara í kreisí fíling að hrinda hvorir öðrum. Svo var luftgítarkeppni sem Jón hressi vann. Hann var líka svo hress. Allavega fannst mér þetta feitt ball og alveg hreint magnað að hafa bara borgað 1000 kall fyrir það. Mad props til skemmtiráðs fyrir þetta... vonandi verður skemmtiráð næsta árs líka svona gott á því.

Hey ok, ég var að horfa á fréttirnar og það var verið að flytja frétt um verðlaunahrossið Orra (minnir að hann heiti það). Allavega þá var sýnt þegar þeir voru að ná sæði úr honum, og það virkar þannig að honum er hleypt upp á hryssuna (þið fattið, doggístæl) en drjólinn fer ekki inn heldur í poka sem að dýralæknirinn heldur á. Þannig fær hesturinn það í pokann og er alveg sáttur, en ég var að spá hvað hryssan heldur. Hún hefur örugglega verið bara; "hmm, er þetta allt sem að þessi Orri getur? Ég skil ekki hvað stelpurnar eru að púkka upp á hann... Ég fann varla fyrir honum... o jæja, kannski er ég bara orðin svona útriðin og slöpp, maður er nú ekkert folald lengur"
En ég veit ekki, þessi frétt vakti allavega forvitni mína.

Ég var að fá sms frá Uglu í dag. Hún var að biðja mig um smá greiða, en það var mjög ánægjulegt að fá að heyra frá henni þarna í útlandinu. Hún minnti mig líka á að ég ætlaði að skrifa handa henni bréf. Ég var nú byrjaður en svo komu prófin og svona, já, maður hefur haft nóg að gera. En nú hef ég ekki skrifað bréf í svona áratug eða eikkvað, er vinalegra að handskrifa bréfið? Það er auðvitað mun hættumeira, til dæmis gæti bréfið glatast í pósti, og svo er ég líka með mjög slæma skrift svo að kannski getur Ugla hreinlega ekki lesið bréfið þegar það kemur. Ó, vott tú dú, vott tú dú.

Ég var að heyra hjá vinkonu minni (sem við skulum bara kalla S to the Auður) að það væri sniðugt að kaupa rúm í hafnarfirði, hjá R.Björnsson. Ef einhver getur plöggað afslætti þar þá vinsamlegtast láttu mig vita.

Svei mér, þetta er nú orðin löng færsla. Ég er ánægðastur með titilinn.

þriðjudagur, maí 18, 2004

verð... að... blogga... þrátt fyrir ótrúlega þreytu eftir gott fússersessjon (koma svo, leggja metnað í að skilja orðið) vestur í bæ. Síðustu dagar hafa verið eins viðburðaríkir og dögum er tamt. Hér verður tæpt á því helsta í bland við sprell og alvarleika, lygar og svikráð.

Á föstudaginn ætlaði ég að fagna próflokum en Fannar og Lúcía voru að "sofa", eins og þau kusu að orða það, frá 11-2 þannig að maður var að mæta frekar seint í partí. Ég kenni því þeim skötuhjúum um slappleika kvöldsins. Á laugardaginn vaknaði ég um fjögur, enda að taka út svefn fyrir þessar próflestrarvikur. Horfði á upphaf evróvisjón hér heima en kom mér svo til arthúrs að hafa gaman. Þar var margt um karlmanninn, en hlutföllin jöfnuðust stuttu eftir að júróvisjón var búið (ég er btw mjög ánægður með Ruslönu, hún var sjúk). Sumir sem eru nýbúnir að fara í nefaðgerð og klippingu voru í sjúku höstli, sem virðist ætla að vinda uppá sig. Sjálfur var ég líka hress.

Sunnudagurinn, sem og dagurinn í dag, fóru í vinnu enda er sumarvinnan barasta byrjuð. Allt lítur ágætlega út og vonast ég til að glatt verði á hjalla í sumar.

Ef það eru einhverjir fótboltafíklar búnir að fjárfesta í miða á Metallica (örugglega fáir, það þykir ekki fínt hjá sveittum rokkurum að fíla fótbolta), þá þykir mér ægilega gaman að tilkynna þeim að úrslitaleikurinn á EM er á sama tíma.

Ég var að skoða rúm um daginn og þetta virðist vera einhver 90 þúsund (mínus afsláttur) sem maður þarf að snara uppúr vasanum. Þetta er slæmt þar sem ég hvorki skeini mig með eða skít peningum.

föstudagur, maí 14, 2004

jæja, búinn í prófum og það er jákvætt helvíti. Kemur svo í ljós á miðvikudaginn hvernig gekk. Annars fór ég að vinna strax eftir efnafræðiprófið. Fór að pæla hvort það væri ekki sniðugt ef Intesrport (röng stafsetning til að losna við google-leiðindi) væri með svona sprellauglýsingar. Til dæmis gæti ein auglýsingin verið svona:

Fjörugur föstudagur.
Á fjörugum föstudegi eru allir starfsmenn Intesrport fjörugir sem aldrei fyrr. Ekki nóg með það heldur getur þú komið í dag og keypt þér 1 par af skóm, en gengið út með 2 pör. Þ.e.a.s. nýja parið og gamla parið. Intesrport, 100% ferskleiki.

Eða:
Knús í krús alla helgina!
Helgina 14-16. maí fá allir sem vilja stórt Stubbaknús frá starfsfólki að loknum viðskiptum. Komdu og vertu hýr með okkur. Intesrport, 100% kærleikur.

En neinei, þetta verður örugglega sami pakkinn alltaf. Nýjustu takkaskórnir, nýjustu úlpurnar, nýjustu peysurnar, og allt á súperdúberextraúbergóðu verði í takmarkaðan tíma.

Ég er að pæla í að hafa gaman í kvöld, en ég er alveg hroðalega þreyttur þannig að ég ætla allavega að sjá til. Það er svona að vera að vaka langt fram á nótt til að botna í Grignard-hvarfefnum og mismunandi gerðum fjölsykra, uppdópaður af magic og sykri. Það er allavega eikkvað partí í kvöld, og svo er feitt júróvisjónpartí á morgun og ball á þriðjudaginn, þannig að það er gaman gaman að vera búinn í prófum.

fimmtudagur, maí 13, 2004

jæja, mér hefur tekist að læra einhverja efnafræði í dag, sem er jákvætt. Prófið er á morgun klukkan 11 að staðartíma, og lýkur því klukkan 12:30. Klukkan 13:00 byrja ég í sumarvinnunni.

Nú langar mig eiginlega að fara að sparka bolta í sumar, en því miður byrja æfingarnar klukkan 6 og ég er ekki búinn í vinnunni fyrr en klukkan 7. Já, lífið snýst um bölvaðar tímasetningar... og peninga (og jájá, frið, ást og hamingju en samt aðallega tíma og peninga).

Hvað var annars með júróvisjón í gær? Af hverju komst semi-íslenski homminn ekki áfram? Hann var allavega nógu hýr, það er á hreinu. Mér fannst úkraínska atriðið langtum best, bæði er sönkonan íðilfögur, og svo er atriðið líka mjög flott. Reyndar gerðist ég sekur um að horfa aðallega með öðru auganu á keppnina, en það helsta sem ég man eftir var tjokkóstrákur sem söng eitthvað Celebrate-lag. Við pabbi skellihlógum að þessum fávita, og lágum í gólfinu þegar hann setti mækinn í andlitið á sér. Svo fannst mér annað atriði þarna líka frekar gott; svona 5 þjóðlegar stelpur og einn gaur sem spilaði á trommur og notaði til þess jafnt haus sem hendur.

Nú eru efnafræðipróf með þeim hætti að maður getur engan vegið smoothtalkað sig útúr þeim, eins og algengt er að ég geri í íslensku, ensku, dönsku, félagsfræði, sögu og fleiru. Því er kannski best að ég fari að huga að bókunum. Hugsið ykkur bara; 18 klukkutímar og þá er þetta prófarugl loksins búið!

miðvikudagur, maí 12, 2004

jahahá, undankeppni júróvisjón er bara í kvöld. Þetta finnst mér, sem orginal júróvisjónhomma, alveg einstaklega sniðugt. Þá getur maður horft á júróvisjón í faðmi fjölskyldunnar í kvöld eins og maður gerði alltaf, en svo farið í júróvisjónpartí á laugardeginum. Í keppninni í kvöld held ég mest með Úkraínu, og það er ekki bara af því að söngkonan sé fönguleg... eða jú, það er bara útaf því.

Ég var að lesa kóment gefmérfæv-hnátanna (við einhverja af fyrri færslum) og það rifjaði upp fyrir mér busaönnina mína. Þá fannst mér Bryndís einmitt vera algjör gyðja, en því miður var hún á föstu með forseta nfmh þannig að ég gossaði ekki í að koma með nein múv (haha). En reyndar fannst mér svona 20 stelpur í skólanum vera algjörar gyðjur, og flestar þeirra finnst mér ekkert sérstakar í dag. Lesendur verða að hafa í huga að ég var nýfluttur í höfuðborgina úr einni mestu sveit landsins og þar var lítið um kvenfólk (sem og annað fólk). Allavega, þetta fannst mér svoldið fyndið.

Note to self: Skrifa meira um rúmið mitt, fólk kommentar á það.
ja nú líður mér vel. Ég gerði nefnilega eins og ég ætlaði og fór í ræktina. Svona til að það sé á hreinu þá er ég ekki að fara í ræktina til að sýna á mér kroppinn, eins og svo margir gera. Ég er meira svona að fara því mér finnst það frekar frískandi, enda líður mér eins og áður segir frekar vel.
Annars sá ég fjóra gaura í ræktinni sem voru svona líka nauðalíkir. Þeir voru allir vel massaðir og með strípur, og duglega brúnir. Ég var náttla bara; "nei sko, fjórburar". En svo kannaði ég málið og þá voru þeir ekki einu sinni skyldir.
Já, þetta rímar við galdhæðni hjá mér hérna.

Rúmið mitt er ónýtt. Ég segi og skrifa, eða reyndar skrifa ég það bara, að rúmið sem ég hef notast við síðustu þrjú árin eða svo er ónýtt. Síðustu daga hef ég því eiginlega verið að sofa á ónýtum gormum, sem er alveg jafn óþægilegt og það hljómar. Og nú fer maður að pæla, hvað get ég gert? Skoðum aðeins fjármál doktorsins. Nei heyrðu vó, var að tékka á heimabankanum og er ekki bara 70þúsund kjell mættur á reikninginn útaf orlofinu. Þó er best að fara varlega með peninginn, hafandi væntanlega spánarferð í huga.

En hvernig rúm á ég að fá mér? 1 metra? 120 cm? 140? 200? Erfitt að segja. Pabbi segir að skv. félagsfræðirannsóknum séu 90% líkur á að ég hitti framtíðareiginkonuna á næstu 7 árum (minnir að það hafi verið 7 ár). Ok, og þegar maður er kominn með konu, þá hlýtur að þykja líklegt að maður þurfi helmingi stærra rúm (það er svona skemmtilegra ef að parið getur sofið saman). Sem sagt, ef ég fæ mér rúm núna, sem er ekki nógu stórt fyrir mig og kellu, þá mun ég bara geta notað það í 7 ár. Líftími rúma er mun lengri þannig að það er ekki hagstætt. Ef ykkur finnst ég velta mér fullmikið uppúr þessu skuluði bara lesa eitthvað annað. Að öllu þessu gefnu, og því að mér finnst líklegra að ég verði meðal þessara 10% sem ekki finna sér maka á næstu 7 árum, hef ég þó tekið þá ákvörðun að fá mér 130 cm rúm. Samkvæmt sérfræðiáliti móðursystur minnar á það að vera nóg til að hafa kerlingu uppí hjá sér, en það yrði óþægilegt til lengdar. Svo er bara spurning hvar í bænum er besta verðið, en ég er nú með 20% afslátt í Húsgagnahöllinni þannig að ég reikna með að versla eitt þar.

Svo mörg voru þau orð.

p.s. ég vil hrósa þeim sem komust í gegnum rúm-textann og botnuðu hann.

þriðjudagur, maí 11, 2004

og þá er þungu fargi af mér létt.

Síðustu daga hef ég hreint ekki verið með sjálfum mér sökum próflesturs. Tja, reyndar er hið andstæða kannski réttara að ég hef einmitt eiginlega bara verið með sjálfum mér, og engum öðrum. Ég hef aldrei lesið jafn fáránlega mikið og afraksturinn: tja, gæti verið verri. Held ég sé samt í ágætis málum.
Í þessum prófalestri hef ég jafnframt unnið mikið og óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf fyrir vini mína fílapensla og bólur, með miklu nammiáti og gosþambi. Dagar slíks ólifnaðar taka formlega enda núna á miðnætti (sem sagt núna...) og stefnir allt í að ég láti sjá mig í einni af þeim ræktarstöðum sem kenna sig við líkama, á næstu dögum. Eins grunnhygginn og ég er, vona ég að það verði nú einhverjar sætar stelpur að æfa á sama tíma og ég í sumar. Það gerir þetta svo miklu skemmtilegra.

Hálfbróðir minn fékk opinberun í gær, á sjálfum þrítugsafmælisdeginum. Hann var að keyra í bílnum sínum þegar júróvisjónlag Íslands 2004 byrjaði að hljóma, hækkaði í botn og fékk það svona líka sterklega á tilfinninguna að við myndum bara vinna keppnina í ár. Ég er svo mikil þjóðremba að ég held með Íslandi í öllu sem það tekur sér fyrir hendur, og dettur ekki í hug að hallmæla júróvisjónlaginu né Jónsa á nokkurn hátt. Ég er viss um að Jónsi, þessi performer sem hann er, á eftir að gera fína hluti og ég mun að sjálfsögðu halda mest með honum. Af öðrum lögum sem ég hef heyrt finnst mér tyrkneska lagið best (so judge me (lagið heitir það sko ekki, ég er bara að segja; dæmið mig)), en ég held samt mest með Úkraínu (fyrir utan Ísland sum sé).

Ég er annars í skýjunum yfir að hafa fengið hlekk á einu vinsælasta bloggi landsins, sem jafnframt er stórskemmtilegt. Það eru gellurnar í gefmérfive sem gáfu mér link og ég held ég linki barasta tilbaka.
Af öðrum fréttum úr bloggheimum má nefna að Hjörtur er annað hvort gleyminn, eða þá að ég hef verið illa hlunnfarinn í viðskiptum okkar (hlunnfarinn? segir maður það?).

sunnudagur, maí 09, 2004

og já, ég skrifa eitthvað gáfulegt seinna. þangað til mæli ég með þessu bloggi. það er gáfulegt en í senn fyndið. en hey, samt enginn Dr.Sindri.
sjísus. ég hef aldrei verið jafnduglegur að læra fyrir nokkurt próf eins og þetta blessaða stærðfræðipróf á mánudaginn. vonandi gengur mér vel að klára lærdóminn á morgun, og ekki síður vel í sjálfu prófinu. ég held ég fari bara að sofa og safna kröftum núna, en óskið mér endilega góðs gengis ef þið eigið leið um þessa síðu fyrir prófið. takk.

föstudagur, maí 07, 2004

fjúff, var ég ekki bara að keyra áðan og þurfti þrisvar að hægja á mér til að keyra ekki yfir kattarandskota. Nú skil ég hví er verið að býsnast yfir lausagöngu katta.

Djöfull er softecorið á sýn leiðinlegt.

Annars er ég þessa dagana að reyna að skilja eitthvað í þessari blessuðu stærðfræði og það gengur ekkert sérstaklega vel. Pabba finnst ég ekki læra nóg og eyða of miklum tíma í tölvunni, en það er náttla bara bull í honum eins og vanalega. Er búinn að vera að stúdera fólgna diffrun. Viss um að það átti að heita flókin diffrun. Haha, stærðfræðihúmor uppá sitt besta.

Maður er nefndur Haukur og er sonur Jóhanns. Hann stundar nám við emmhá og er jafnan kenndur við staf sem hann hefur með sér allra sinna ferða. Þessi ungi maður er búinn að vera að halda því fram á spjalli nfmh.is að hann hafi átt í ástarleikjum við móður mína. Ég hef borið þetta undir mömmu og hún sagði að hún væri kannski ekki með háan standard þegar kæmi að karlmönnum, en manni eins og Hauki myndi hún aldrei vera með. Hún bað mig einfaldlega að skila því að hennar skilaboð til hans væru; "you wish". Já, hún er hörð hún mamma.

Allsvakalega getur maður nú verið súr. En það er svona þegar maður hefur ekkert að skrifa um.

Ég lofa að skrifa eitthvað gáfulegt á morgun. Eða á laugardaginn.

miðvikudagur, maí 05, 2004

jámm og jæja

að haustönni lokinni valdi ég snillinga annarinnar eins og lesendur muna auðvitað. Ég hef orðið var við á þessari önn að menn hafa reynt sitt besta til að ná þessum merka titli, með misjöfnum árangri að vísu. Mig langar samt líka til að velja gellur annarinnar og fola annarinnar, og svo að sjálfsögðu kennara annarinnar.

Íslenska403: Hmm, bara óhemju næs áfangi með ágætu fólki, en engum svona sem skar sig úr. Ólafur heitir snillingur annarinnar enda er hann mjög fyndinn ungur drengur og er mér þá sérstaklega minnisstætt þegar hann fór á klóstið og sendi vin sinn tilbaka í stofuna til að vera fyrir sig. Vitaskuld bara djók, en fyndið djók. Gella: Há, ljóshærð.. heitir Guðrún eikkvað. Foli: Davíð Sigurðarson.

Íslenska3T3: Allt morandi í snillingum í þessum áfanga. Þrír ungir drengir gerðu samt vídjóverkefni þar sem þeir voru mestmegnis á brókinni einni fata, með bjór í hendi og í góðu glensi. Þeir Þórir, Jobbi og Sölvi fá því titilinn saman, enda samrýndir mjög. Gella: að sjálfsögðu Sigga. Foli: Jobbi, þvílíkur rass sko.

Stærðfræði703: Eintómir snillingar þarna líka, en því miður stærðfræðisnillingar, sem eru ekki mjög skemmtilegir snillingar. Engin fær titilinn því þetta var einn leiðinlegasti áfangi sem ég hef farið í og það var enginn þarna að gera hann bærilegri. Gella: Elena, aka rússneski stjörnufræðingurinn. Foli: hmm, bara of margir sko.

Efnafræði313: Liggur nú við að Sigurgeir kennari fái titilinn en hann er furðu fyndinn maður. Komst líka að því að Halla vinkona mín er alvöru snillingur, því skýrslurnar hennar voru svona þrisvar sinnum betri en allt sem ég hef séð. En snillingur annarinnar er ég sjálfur því mér tókst svo oft að hugsa um eitthvað skemmtilegt. Bullerjahn og Bollason voru skammt undan enda fyndnir fírar báðir tveir. Gella: njá, sárvantaði gellur í þennan þreytandi áfanga. Foli: Atli, þó mér þyki hann mega massa sig betur upp.

Félagsfræði103: Mjög næs áfangi og ágætis ferskleiki í fólki. Jónas Örn Helgason, gettubeturkempa með meiru sýndi á sér hliðar sem hann sýndi nú sjaldan á busaárinu okkar, og var mjög fyndinn. Einnig þóttu mér samskipti Stefáns og Atla Más hlægileg. Snillingur áfangans er Jónas. Gella: Hmmm, held hún heiti Gunnur. Býst við að presturinn hafi bara ekki heyrt þegar foreldrarnir sögðu "Hildi". Foli: Ingimar, frekar foxy gaur.

Danska303: Mikið af stelpum í þessum hóp, sem var bara fínt. Snillingur annarinnar er að eigin ósk Signý Heiða, en ég var alvarlega búinn að íhuga að velja kaptein Katrínu. Gella: tja, Signý kemur náttla sterk inn ásam áðurnefndri Guðrúnu, og Birna Katrín er líka foxy. Látum þar við sitja.

Já, svona var nú það. Mjög lítið um snillinga enda býst ég við að maður sé kominn það langt í námi að fólk vill fara að taka þetta alvarlega í stað sprellsins sem var svo mikið fyrstu annirnar. Besti kennarinn held ég hafi verið félagsfræðikennarinn og gullmolinn Þórunn Klemens, sem gaf okkur góða innsýn í fjölskyldulíf sitt og sagði fíkniefnasögur af krökkunum sínum og fleira skemmtilegt. Sérstaklega góð var sagan um samkynhneigða fuglaparið, sem var fyrir utan sumarbústaðinn hennar. Hún skýrði þá Hannes og Hólmstein.

Held þetta sé þá orðin ágætis úrdráttur úr vafasamri önn, sem einkenndist af fjölda bakarísheimsókna og skemmtilegum áföngum fyrir utan efnafræði og stærðfræði. Henni lýkur svo með 2 prófum í næstu viku auk þess sem 18. maí verður lokaball og 19. maí er staðfestingardagur (þá fáum við einkunnirnar...).

Hér kemur svo brandari sem ég tileinka Uglu: Hafiði pælt í því ef maður héti Geir og myndi svo breytast í vörtu. Þá myndu allir segja við mann; "hey, Geir varta".

Ahhh, alltaf gott að enda á góðum brandara. Hefði kannski líka verið gott að lenda á góðum brandara, en það er önnur saga.

mánudagur, maí 03, 2004

djöfull er kristján í kastljósi mikill sjálfstæðismaður. Hann ætlaði sér bara að kaffæra Össur Skarphéðins í kvöld og var allan tímann á svipinn eins og hann væri að tala við barnanauðgara. Finnst hann mætti nú alveg brosa stundum eins og hann gerir með Dabba kóng í stólnum. Svo voru þeir nú ekki að tala um einhvern skandal hjá Össuri, þess vegna fannst mér algjör óþarfi að vera með læti og taka fram í fyrir honum og svona. En þetta er bara ég. Mér finnst gellan miklu betri, og viðkunnalegi gaurinn er einnig fínn.

Íslenskuprófið gekk svona líka glimrandi vel. Hálf svekktur bara að hafa ekki sett stefnuna á tíuna... neinei, við skulum nú aðeins róa okkur. En ég verð sár ef ég fæ ekki níu.

Ég held að systir mín sé allsvakalega á túr. Það liggur við að hún hvæsi á mig í tilsvörum...

Nei, ég hef ekkert merkilegra að segja. Jú, það verður nú einhver umræða þegar feministar frétta af nýja þættinum á popptíví; the Man Show... Fullt af flottum kerlingum og svona. Hvað eru þeir svo með fyrir konur í staðinn? 70 mínútur?
jæja, fyrsta prófið eftir, hmmm, best að tékka á mh.is, já, eins og ég hélt... eftir 9 og hálfan tíma.
Ég er búinn að vera að stúdera Hallgrím Péturs, Gest Páls, Eggert Ólafs og þessa kalla. Veit ég á eftir að spjara mig en grunar að ég muni flaska eitthvað á spurningum um merkingu einstakra erinda úr ljóðum skáldanna (sem mér persónulega finnst algjört fokk að vera að hafa, enda er ég slappur ljóðarýnir).
Vonandi verður þó prófið sanngjarnt en samkvæmt flóknum útreikningum hef ég komist að því að takist mér að fá 8 fyrir heimildaritgerðina sem ég lagaði (sad but true), þá dugar mér að fá 7,8 í lokaprófinu til að fá 9 í lokaeinkunn, og það er bara frekar gott. Ef við höldum áfram með þessa pælingu, þá er í raun nóg fyrir mig að fá 5,8 til að fá 8 í lokaeinkunn. Annars er ég ekkert fyrir að vera að spá neitt í einkunnum :p

Já, best að fara að drífa sig að sofa. Takist mér illa upp í prófinu á morgun hef ég ákveðið að skella skuldinni á parið sem býr fyrir ofan mig, því það hefur verið að gera sitt besta (eða svo heyrist mér) til að geta barn núna síðustu mínúturnar, og það truflar einbeitingu mína. Einnig vil ég kenna um liðsmönnum ÍR og Vals sem útkljáðu ekki leikinn fyrr en í bráðabana.