Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, apríl 30, 2006

Veit einhver hvað Golli er að gera þessa dagana?

föstudagur, apríl 28, 2006

Einn maður. Ein dós af Magic. Eitt stærðfræðigreiningarpróf.
Á morgun er komið að því og ég er ekki að fíla það. Gárungarnir vilja halda því fram að þetta sé erfiðasta fagið á 1. árinu í verkfræði. Það verður að koma í ljós. Mikill léttir þegar þessu lýkur.

Það sem mér finnst samt einna verst við þetta próf er hvar það er haldið. Það mun nefnilega vera í KR-heimilinu. Einhverra hluta vegna er mér frá dýpstu rótum hjartans alveg meinilla við KR og flest sem því félagi tengist, og á þetta eflaust eftir að hafa slæm áhrif á mig á morgun. En ég hef þá allavega einhverja afsökun ef allt fer á versta veg.

Sendið mér góða strauma milli hálftvö og hálffimm á morgun, og sendið Rooney og félögum góða strauma milli hálftólf og hálftvö, svona ef þið megið vera að því. Seinna!

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Bomba hér með inn link á heitustu síðuna í táninu og þótt víðar væri leitað. Þið eruð alltaf að heyra um þá. Þið eruð alltaf að sjá þá. Þið hafið alltaf elskað þá. Núna getið þið lesið skrif um þá (og fleira), eftir þá, (hvað þá?) því meistarar GENTS eru komnir með heimasíðu. Njótið.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Já, nú er maður kominn í kunnuglegan gír. Snakk í skál, kók með nóg af klaka, kallinn með hárið greitt aftur og kominn á Joe Boxer-buxurnar. Hvað í djöflanum er eiginlega á seyði?!? Jú, prófatíminn er kominn. Fyrsta stuðprófið er á laugardaginn kl. 13:30 þannig að það er ansi tæpt að maður nái að klára að horfa á United-Chelsea, en það kemur í ljós. Allavega... þar sem það er nú ansi auðvelt að læra um fólgna diffrun (eða flókna diffrun, haha!) og aðferð Green (sem er náttúrulega algjört grín, hahaha!), að þá ákvað ég að skella inn einni eldheitri færslu um sælutilfinningu sem ég fékk áðan.


Já, ég var sem sagt að rúnka mér, nei djók, ég var að horfa á sjónvarpið og þá kemur þessi auglýsing frá Olís. Mjög einföld auglýsing; maður að grilla með bros á vör, sólin skín og hann snýr góðri grillsneið á hina hliðina. Ósjálfrátt brosti ég með sjálfum mér, því ég gat ekki varist tilhugsuninni um bjór, grill og bolta út júní-mánuð. Það eru nefnilega ekki nema u.þ.b. 43 dagar og 20 klst. þangað til að HM byrjar! Óje beibí.
Allavega, þetta fékk mig til að brosa. Ekki skemmtilegt lesefni? Ok.


Annars er svo Júróvisjón-keppnin að fara að detta inn. Ég skelli inn spá hérna eftir prófin (uppúr 15. Minnið mig á það!). Fyrir þá sem ekki vita að þá er ég alveg góður sökker fyrir þessari keppni, eins og auðvitað allir. Annað sem ég er mikill sökker fyrir er kosningar, hvort sem það er til bæjarstjórnar, alþingis eða forseta. Samt hef ég ekki (vinstri) grænan grun um hvaða flokk mig langar til að kjósa. For ríl! Ef þið hafið einhverjar uppástungur fyrir mig þá megiði láta mig vita. Ég var nefnilega að fatta að það á náttúrulega að skipta mig verulega miklu máli hver stjórnar mínu sveitarfélagi og hvaða fólk situr á alþingi. Þetta er liðið sem ráðstafar 300 þúsund kallinum sem herra skattmann tók af mér uppúr þurru um daginn, og þetta er liðið sem notar 30 þúsund króna sektina mína til að gera það sem það vill, og þetta er liðið sem fær dágott hlutfall af öllum peningnum sem ég eyði í mat, og fleira og fleira. En það er bara enginn einn flokkur sem ég myndi vilja byrja með þótt það séu 2 eða 3 sem ég myndi vilja ríða, svo ég noti svona líka skemmtilegt myndmál. Kannski ég ætti bara að starta mínum eigin flokki; "Dr. Sindra í borgarstjórann - því þú vilt enginn prumphænsn, er það?" Sjitt hvað ég myndi raka til mín atkvæðum.


En David Hasselhoff er farinn að hljóma og þið vitið hvað það þýðir! Það er komið að því að tækla nokkra kafla (já eða blaðsíður) af stærðfræðigreiningu. Sælar!

sunnudagur, apríl 23, 2006

Ég held ég geti verið alveg helvíti egósentrískur, en þar sem ég er mjög lélegur í útlensku get ég ekki verið alveg viss. Mér finnst samt alveg helvíti fáránlegt það sem gerðist í gærkvöldi þegar að löggan stoppaði mig fyrir of hraðan akstur. Ég get vel skilið að það þurfi að fylgja eftir landslögum um umferðarmál og þvíumlíkt, svo að þeir sem eru lélegir bílstjórar haldi sig frekar á mottunni og séu ekki að keyra of hratt. En að stoppa gæðabílstjóra eins og sjálfan mig og sekta hann um 30 þúsund kall fyrir að keyra örlítið yfir hámarkshraða er náttúrulega útriðinn andskoti.

Svo ég byrji nú á byrjuninni þá var ég sem sagt á leið minni til Mourinho að spila Pro í gær og hafði með mér í bílnum Magga Schmeichel. Við erum að keyra á Miklubrautinni þegar Maggi sér allt í einu lögguna og við lítum báðir á hraðamælinn sem sýnir tæplega 80. Þar sem það er ólöglegt á 60-götu eins og Miklubrautinni (hvað í andskotanum er málið með það? 60 km/klst á aðalumferðaræð borgarinnar? Sjííííí) þá gat ég svo sem alveg trúað því þegar löggan setti sírenuna í gang og elti okkur. Svo er ég fenginn til að koma í bílinn til þeirra og sagt að ég hafi verið mældur á 97 km/klst. "Hvað í fjandanum? Þetta er mesta lundarreykjadalskjaftæði sem ég hef á ævi minni heyrt!!! Hvurn andskotann á þetta að fyrirstilla? Ég var í mesta lagi á 80 ó þið ruglukollar!" hugsaði ég með sjálfum mér. Löggan spurði mig hvort ég hefði eitthvað við þetta að athuga. Ég sagði nei.

Þvíííílíkur kúkur sem maður getur verið. Af hverju mótmælti ég ekki? Djöfulsins mórall. Ég get ekki hætt að hugsa um allt kókið sem ég gæti keypt (kóka kóla, ég er ekkert orðinn algjör crook) eða allan matinn og fötin og áfengið og mellurnar á Tenerife. En ég get víst kvatt það allt saman og farið að einbeita mér að því að nurla saman krónum hvar sem ég finn þær.


Hafi það ekki komið skýrt fram þá liggur svoldið þungt á kallinum núna. Var nefnilega líka að koma heim eftir miður skemmtilegt tap í boltanum. Helvítis djöfulsins andskotans og hananú.


p.s. ég breytti linkalistanum. Setti inn 2 afar ólíka snillinga, systur mína og Kobba sem er að æfa með mér í Létti. Reikna fastlega með að þetta verði þeim hvatning til tíðra skrifa.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Sælar. Doktorinn heilsar ykkur við toppaðstæður hér á höfuðstað norðurlands, Akureyri. Ég hef komist að því að ég er meiri sveitastrákur í mér heldur en ég hélt. Ekki þó svona sveitastrákur sem finnst gaman að mjólka beljur og ríða hestum, eða fixa girðingar og keyra traktor. Frekar svona sveitastrákur sem elskar að vera úti í guðs grænni náttúrunni og finna kyrrðina og friðinn sem mér finnst ég of sjaldan verða var við í höfuðborginni. Maður hatar heldur ekki Brynjuísinn.

Ég er samt ekki alfarinn ennþá og kem aftur í borgina á morgun (eða í dag, það er víst komið miðnætti). Ég þykist hins vegar vita að einhvern hluta þess sem ég á eftir ólifað mun ég eiga heima úti á landi. Og ekki bara í Kópavogi eða Grafarvogi, heldur einhvers staðar þar sem maður heyrir í ánni fljóta og fuglunum syngja.

Já, sveitin maður. Það er eitthvað sem allir ættu að prófa.


Út frá þessu fer ég samt að pæla; ættu ekki allir að prófa að vera til sjós? Ég meina, sjávarútvegurinn er ein af stærstu stoðum þjóðarinnar, en ég veit varla hvernig þorskur lítur út. Ég minnist þess þó að hafa migið í saltan sjó þegar ég ferðaðist einhverju sinni með ferju til Hríseyjar. Get samt ekki sagt annað en að ég sé bölvaður landkrabbi. Kannski maður ætti bara að tékka á þessu? Taka einn góðan túr í Smuguna og kynnast þessu almennilega.


En nú er ég farinn að röfla og enginn skilur upp né niður í neinu sem ég hef skrifað í þessari færslu. Það skiptir samt engu máli. Þetta er bara dagbók, dagbókin mín, sem svo (ó)heppilega vill til að er aðgengileg öllum netverjum. Lifið heil.

föstudagur, apríl 14, 2006

Jæja, nú er komið að alveg heví skemmtilegri færslu. Í þessa færslu ætla ég nefnilega að lauma 10 kvikmyndatitlum sem þið eigið að finna. Þeir verða að sjálfsögðu íslenskaðir, en endilega ef þið teljið ykkur finna einhvern þá skuluði nefna það í kommentum. T.d. gæti ég verið að segja að ég hafi farið í göngutúr og að ég hafi gengið 8 mílur, tata, þá eruði komin með nafn á einni mynd (8 mile með Eminem sem sagt). Hefjum leikinn.

Finndu 10 bíómyndir.

Jæja, í kvöld er það bara partíafmæli hjá henni Eddu Ósk. Ég er búinn að eyða gríðarmiklum peningum og svona 15 mínútum í að finna gjöf handa henni, þannig að það er eins gott að hún fíli þetta. Áður en ég fer samt til hennar ætla ég að horfa á Man U - Sunderland, og ég verð vonsvikinn ef mínir menn skora ekki allavega eitt mark! Svo er það bara beint til Ragga T að hitta heitustu folana á landinu, GENTS (já nei, því miður er ekki búið að búa til mynd um okkur ennþá...), og þaðan til næstheitustu hryssunnar á landinu, Eddu. Sounds like a plan?

Í gær var ferming hjá litlu systur. Helvíti góð stemmning þar nema hvað ég hitti frekar skrítinn kall í kirkjunni sem sagði við mig "elskan, ég minnkaði börnin". Vissi nú ekki alveg hvað sá maður var að tala um. En ég var duglegur í veislunni að kynna Dagnýju fyrir öllu frændfólkinu mínu, nema náttúrulega þeim sem ég veit ekki hvað heita. Tókst m.a. að kynna hana sem systur mína fyrir bróður hans afa. Mætti kannski segja að það hafi verið skemmtilegur systurleikur hjá mér. Annars át ég bara á mig gat og hafði gaman.


Djöfull nenni ég annars ekki að byrja að læra í þessu páskafríi. Er ekki málið að slappa bara af? Í dag er föstudagur og ég þarf ekki að fara í skólann aftur fyrr en næsta föstudag. Þess vegna finnst mér ég alveg geta tjillað í 2, 3 daga í viðbót. Ég get samt huggað mig við að eftir 28 daga verður þessi skóli búinn.

En ég held að þetta sé nóg í bili. Ég ætla að fara að finna eitthvað til að nota fyrir blómaþemað í kvöld. Kannski getur mamma reddað mér nokkrum rósum og ég fengið að fara í skónum hennar. Þeir eru nebbla með fullt af blómamyndum. Annars er ég nokkuð góður með blómabindi og svona. Ég bið ykkur vel að lifa og verð að þjóta. Leikurinn er byrjaður.

mánudagur, apríl 10, 2006

Dularfulli þvottapokinn.

Ég veit ekki hvort einhver þarna úti sér einhvern sérstakan húmor í því að skilja blautan þvottapoka, vafinn inní plastpoka, eftir í bíl hjá einhverjum. Þess vegna finnst mér alveg hreint ótrúlega dularfullt að það skuli einmitt vera einn slíkur í bílnum mínum núna. Það sem sagt liggur blautur þvottapoki á milli framsætanna í bílnum mínum, og ég hef ekki hugmynd um hvernig hann komst þangað.

Ég hef ekki neytt neinna eiturlyfja þessa síðustu daga og leyfi mér þess vegna að efa það stórlega að ég hafi komið pokanum þangað af sjálfsdáðum án þess að vita af því. Einnig hef ég ekki svo ég viti til lánað neinum bílinn minn uppá síðkastið, nema reyndar Ragnari tvíbura núna um helgina. Því liggur beinast við að gruna hann um þetta uppátæki en mér tekst bara engann veginn að finna lógíska ástæðu fyrir því að hann færi að skilja eftir blautan þvottapoka í bílnum mínum.

En hvað er eiginlega málið? Getur þú svarað því, lesandi góður? Eru yfirnáttúrulegir atburðir hér á seyði eða er kærastan mín að vonast til að ég taki upp á því að þrífa á mér andlitið endrum og sinnum? Ég get ekki svarað því, en ég er að vona að einhver þarna úti hafi svörin á reiðum höndum.


Annars spilaði ég fótbolta í 3 klukkutíma í gær, þrátt fyrir drykkju á laugardagskvöldinu með hinum einu sönnu GENTS-mönnum. Ég var helvíti lélegur í boltanum og það fékk mig til að kvíða sumrinu mikið. Get ég bara ekkert drukkið í sumar ef ég ætla að spila góðan fótbolta? Hvað gera fótboltamenn í þessum málum? Ég hef aldrei þurft að spá í þetta því frá því að ég byrjaði að drekka hef ég annað hvort verið á bekknum í leikjum eða þá verið að spila í utandeildinni, en þar eru menn nú yfirleitt alltaf fullir, þunnir eða á kókaíni í leikjum.
Já, þetta verður allt saman að koma í ljós bara.


Að lokum sendi ég batakveðjur til Magga Mourinho sem meiddist illa á æfingu í gær. Það er ömurlegur fjandi að meiðast svona rétt fyrir mót en ég vona að þú takir þá bara Mourinho-frakkann á þetta og stjórnir Vinningsliðinu þangað til þú kemur aftur.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Gleði

Í gær áttu mamma mín og pabbi 20 ára brúðkaupsafmæli. Það telst á okkar dögum alveg hreint magnaður áfangi. Það sem er kannski ennþá magnaðra er hvað þau geta skemmt sér vel saman enn þann dag í dag. Ekki nóg með að þau hafi verið gift í 20 ár heldur hafa þau búið saman nokkrum árum betur og unnið á sama vinnustaðnum mestallan þennan tíma. Maður hefði nú haldið að þau væru orðin þreytt hvort á öðru.

Ég sannfærðist hins vegar um að svo er ekki í gær. Í tilefni afmælisins ákváðu þau að leigja sér spólu (My big fat Greek wedding... svona brúðkaupsþema) og þar sem ég lá inni í herbergi og reyndi að læra átti ég erfitt með að einbeita mér fyrir hlátrasköllunum í þeim. Þvílík gleði. Ég hefði í raun átt að vera pirraður yfir að fá ekki frið til að læra, en það var ekki hægt. Það eina sem var hægt var að samgleðjast hjónum sem hafa verið gift í 20 ár og eru ennþá svo hjartanlega hamingjusöm saman.


Sorg

Í gærkvöldi dó Anna amma. Það er svo skrítið að þó maður viti að hún hafi verið orðin veikburða að þá er maður aldrei undir svona búinn. Ekki undir það búinn að geta ekki farið í eina heimsókn í viðbót til ömmu og fá að heyra að maður sé sætastur, og að henni finnist hún eiga svolítið í mér. En þannig er nú bara lífið að það eina sem maður getur verið öruggur um er að því fylgir dauðinn. Amma fékk að fara án mikilla þjáninga og fyrir það er ég þakklátur.
Vonandi hefuru það gott amma og við sjáumst bara! Milljón góðar minningar munu hlýja mér þangað til.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Síðasti sólarhringur hjá mér er búinn að vera alveg hreint ótrúlegur. Ekki nóg með að ég hafi vakað til 5 síðustu nótt heldur skeit ég líka á klósettinu í Laugum. Þessu skal ég nú segja ykkur frá.

Einu stærsta skólaverkefni sem ég hef þurft að gera átti að skila í dag. Þrátt fyrir að mér hafi alltaf fundist sem hópurinn minn væri á frekar góðri leið þá vorum við ekki búinn með verkefnið í gærkvöldi, og því tók við æsileg verkefnavinna til 5 um nóttina. Ég ætla ekki að reyna að lýsa fyrir ykkur nörda/svefngalsa-stemmningunni sem myndaðist en hún var allavega svakaleg. En verkefnið kláraðist og þá er bara eitt verkefni eftir áður en páskafríið, með öllu því ljúfa lífi sem því fylgir, kemur.


Ég fór á hlaupaæfingu áðan niðrí laugardal eins og alla aðra þriðjudaga, staðráðinn í að taka á því. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég rembdist svona mikið fyrstu hlaupahringina, eða hvort það var kjúllinn sem ég var að enda við að borða, en ég fór allavega að finna fyrir heiftarlegri löngun til að finna klósett og fá mér að skíta. Ég bað þess vegna menn að afsaka mig og þaut uppí Laugar til að fá að fara á klóstið. Ég fékk alveg nett samviskubit á meðan ég beið eftir að skúringakonan kláraði að þrífa klósettið, því ég vissi að það myndi aldrei verða samt aftur. En hún hleypti mér fljótlega inn og ég gat hafist handa við þennan mesta niðurgang sem sögur hafa farið af. Það var ekki eins auðvelt og margur myndi halda því fyrir utan klósetthurðina voru einhverjar 2 konur í miklum samræðum, og ég kann því mjög illa að gefa frá mér hroðaleg "kúk og fret"-hljóð á meðan annað fólk heyrir til.

Þetta tók alveg duglega langan tíma og ég reyndi að labba bara mjög hratt út þannig að enginn sæi hvaðan ég var að koma. Því miður sá gellan í afgreiðslunni mig, en svo skemmtilega vildi til að ég hafði spurt hana fyrir svona 20 mínútum hvar klósettið væri. Svo mætti ég aftur á æfinguna en þá var hún að klárast og allir búnir að vera að taka þvílíka spretti á meðan ég var að drulla. Mönnum fannst þetta frekar fyndið en ég vona samt að ég fái ekki eitthvað viðurnefni í hópnum útá þetta.


Þar hafiði það. Nóg að gera hjá doktornum eins og þið sjáið. Vonandi fór þessi pistill ekki fyrir brjóstið á neinum, þ.e.a.s. vonandi fékk enginn hland fyrir hjartað.

laugardagur, apríl 01, 2006

Já, mér fannst þetta alveg frekar fönní sjitt (og fyrir þá sem eru gjörsamlega þroskaheftir í haus að þá þurfið þið að ýta með músartakkanum á "þetta" til að fatta um hvað ég er að tala). Ok, Dagný (kærastan mín!) er sem sagt bara gella vikunnar hjá einhverjum súkkulaðistrákum útí bæ. Einhver myndi kannski segja að ég ætti að vera stoltur og samgleðjast kærustunni minni, en málið er að ég verð eiginlega frekar stressaður um Dagný beili bara á mér. Ég meina, ekki hef ég verið valinn "hönk vikunnar" á neinni af þeim endalausu síðum sem til eru í heiminum. Fer Dagný ekki bara að hugsa mál sitt og vafra um netið til að finna einhvern af sama kvalíteti og hún?

En já, ég get samt huggað mig við textann sem fylgir myndinni; "...fýlar þá stælta og ljóshærða. Drengir ganga á eftir henni í röðum, en hún vill hafa þá vel greidda - ekki með flösu og einhvern viðbjóð... sorrí strákar, það þarf sjarmatröll til að heilla þessa dömu."
Þar hafiði það. Ljóshært, stælt og vel greitt sjarmatröll. Ég held það sé vandfundnari betri lýsing á mér.


Annars verð ég að afsaka, eins mikið og ég hata að gera það, hversu lítið ég hef verið að blogga. Auðvitað er það vegna anna eins og venjulega. "Ha? Anna í Grænuhlíð?" hugsar kannski einhver, en nei, ég á við að það er mikið að gera hjá mér. 2 stórrassa verkefni sem ég þarf að skila í næstu viku. Svo fer þetta að róast. Díjók. Svo koma prófin bráðum meinti ég. Þá fer þetta að róast, en eitthvað nýtt og tímafrekt tekur örugglega við.