Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, janúar 28, 2007

Ok, ein pæling. "Enginn viðbættur sykur"? Hversu oft heyrir maður þetta ekki þegar það er verið að auglýsa einhverja jógúrt eða aðra matvöru? Hvað í andskotanum þýðir "viðbættur sykur"? Er þá sem sagt búið að búa til jógúrt og þegar það var verið að búa hana til þá var náttúrulega sett fullt af sykri, mjólkurgerlum og fleiru, en eftir það þá var engum sykri bætt við. Ég skiiil, þannig að það er bara sykurinn sem er í uppskriftinni sem er í jógúrtinni, það er ekki búið að bæta meiri sykri við. Hvað í djöflanum á þetta eiginlega að þýða?

Og svo er pottþétt fullt af liði (þið vitið, sama liði og drekkur Diet Coke) að kaupa þetta bara útaf því að þetta einhvern veginn hljómar svo vel. Þetta er líka oft notað um fitu; "McDonalds kynnir nýju djúpsteiktu franskarnar... engin viðbætt fita". Maður á kannski bara að henda props á þessa markaðsfræðinga sem duttu oná þessa hugmynd. Alveg magnað helvíti.


Annars varð mér fátt úr verki þessa helgina. Þetta þýðir að erfiður mánudagur bíður mín, sem og þriðjudagur, að ég tali nú ekki um miðvikudag og fimmtudag, en svoooo kemur föstudagur!!! (líklega) Þangað til þá, hafið það gott!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Djöfull hata ég þetta bákn sem 365 hf. er orðið. Það væri mun skemmtilegra ef allar þessar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar væru óháðar. T.d. var ég að hlusta á þáttinn "Mín skoðun" með Valtý Birni á X-inu 977 síðasta föstudag (þessi þáttur var áður á X-FM en ég held að sú stöð hafi verið keypt af eigendum X-ins og lögð niður til að það væri ekki samkeppni í rokkútvarpinu). Þar fékk Valtýr Björn til sín Arnar Björnsson sem er einn af aðalmönnum Sýnar (sem er náttúrulega í eigu sama fyrirtækis). Þeir spjölluðu þarna lengi um "stútfullan" íþróttapakka Sýnar um helgina. Ekki kom neinn frá Enska Boltanum til Valtýs til að fjalla um stútfullan pakkann þar um helgina (Liv-Che og Ars-Man) eða frá RÚV til að tala um íþróttapakkann þar (HM í handbolta, stærsta frjálsíþróttamót sem haldið hefur verið hér á landi). Neinei, Arnar kom einn til að tala um eitthvað golfmót og leiki í spænsku deildinni. Þvílíkt kjaftæði.

Svo sá ég hluta af Hlustendaverðlaunum FM957 á þriðjudaginn. Þar fékk Laddi heiðursverðlaun fyrir framlag sitt (til tónlistar þá líklega). Ekki ætla ég að mótmæla þessari ákvörðun enda Laddi góður gaur, en ekki einu sinni reyna að segja mér að þetta hafi ekkert með það að gera að það var að koma út plata með honum í útgáfu Senu.


Æjji, ég er náttúrulega bara að væla. En ég held samt að það væri miklu skemmtilegra að hlusta á útvarpsstöðvarnar og horfa á sjónvarpsstöðvarnar ef þær væru algjörlega óháðar hver annarri. Að maður væri ekki bara að hlusta á útvarpið og allt í einu segir þulurinn "já, ég fór hérna á Matrix 3 um daginn og þetta er náttúrulega algjör megasnilld þessi mynd" og þá hugsar maður náttúrulega með sér "hmm, kannski maður ætti að sjá Matrix 3", en svo fattar maður að Matrix 3 er náttúrulega sýnd í Smárabíói sem er innan sama batterýs og útvarpsstöðin sem maður er að hlusta á.

En svona er Ísland í dag (í tvöfaldri merkingu þessarar setningar).


Annars er ég sáttur með landsliðið í handbolta. Ég sendi skilaboð á Óla Stef og bað þá um að redda sér malti, því það vantaði klárlega allt malt í þá gegn Úkraínu. Þessu hefur greinilega verið reddað.

sunnudagur, janúar 21, 2007

Ég held ég sé að verða of gamall fyrir þetta djamm- og drykkjudæmi allar helgar. Leið alveg ömurlega í allan dag eftir góða vísó í gær, góða listakynningu hjá Röskvu og svona lala djamm eftir það. Alltaf jafn skemmtilegt hvað maður íhugar sterklega að hætta bara að drekka á meðan timburmennirnir vinna sína vinnu, en svo er maður brattari en Óshlíðin þegar fer að nálgast föstudag.

Annars skipa íþróttirnar stóran sess í lífi mínu þessa helgina. Allt að gerast bara og vil ég þakka Liverpool-mönnum fyrir að vinna Chelsea í dag. Ef allt fer skv. áætlun verður þá United komið með 9 stiga forskot á morgun.
Svo er það íslenska landsliðið. Ég hugsa mikið til strákanna okkar og lifi mig þvílíkt inn í leikina hjá þeim. Er alltaf skíthræddur þegar Óli býr sig undir að sveifla hendinni útaf því hvað hann er tæpur á öxlinni. Svo vonar maður alltaf að Guðjón Valur og Alexander lendi mjúklega þegar þeir fljúga inní teiginn í hraðaupphlaupunum, ökklinn búinn að vera að stríða þeim.

En já, ég er víst bara einn að hommast í kvöld í staðinn fyrir að fara í partí og svo í playboy-partí með tvíbbunum og Svenna. Pælið í aulanum. Segi bara eins og Raggi Þór, maður verður að vera ferskur á því þegar United-leikurinn er. Svo hef ég líka sterklega á tilfinningunni að svona playboy-partí séu aðallega sótt af sveittum perrum (þannig að ég myndi að vísu örugglega vel eiga heima þar) en ekki gullfallegum playboy-gyðjum, og svo náttúrulega heitum folum eins og tvíbbarnir og Svenni eru.

Kveð að sinni enda þarf ég að halda áfram með bókina sem ég er að skrifa og svo er boxið líka að fara að byrja. Munið nú að klæða ykkur vel í þessu frosthelvíti (já, hér er orð sem gengur ekki upp) sem reykjavík er orðin. Hafið það gott og skellið nú einu sætu kommenti á kallinn til að gleðja hann (sem sagt einu kommenti á mig til að gleðja mig).

laugardagur, janúar 13, 2007

Já, gærdagurinn og kvöldið fól í sér hávísindalega vísindaferð í ölgerð Egils Skallagríms og álíka vísindalegt pókerkvöld með helstu GENTS-mönnum. Þetta rólega pókerkvöld fól svo að sjálfsögðu ekki í sér fleira fólk og þess þá heldur háværa tónlist. Þess þarf vart að geta að undirritaður hirti pottinn í pókernum eftir hörkukeppni við Ragga Þór. Kvöldið fól líka í sér frekar slappa ferð niðrí bæ sem fól aðallega í sér mikinn kulda á leiðinni heim. Jafnaðist ekki alveg á við bæjarferðina síðasta laugardag þar sem Atli Antons var þéttur á kantinum með gömlu góðu "hvenær viltu að ég stilli vekjaraklukkuna elskan?"-pikköplínuna... Hún var að sjálfsögðu að svínvirka.

1. vikan í skólanum að baki og mér leist alveg ágætlega á flest það sem í boði er. Einnig eru mánudagarnir að koma sterkir inn með enga fyrirlestra. Annars er ég nú búinn að vera frekar veikur á því þannig að ég er ekki byrjaður að reyna að lesa bækur og svoleiðis dót, enda þarf maður nú aðeins að hitna áður en slíkt hefst. Ég er hins vegar búinn að eyða miklum tíma í að hlusta á GettuBetur-keppnir í útvarpinu, enda ágætlega mikill áhugamaður um spurningakeppnir, en þessi fornfræga spurningakeppni framhaldsskóla var að byrja í vikunni.

Varðandi Gettu Betur að þá virðist alltaf koma mönnum í opna skjöldu sú staðreynd hversu fáar stúlkukindur keppa. Ég held ég viti svarið við þessu. Það er að fá einhvern sexí gaur til að vera stigavörður (undirritaður býður sig fram). Ég man allavega að þegar ég var í MH þá reyndi maður að komast í Gettu Betur bara til þess að fá að vera nálægt Svanhildi Hólm. Gæti þetta ekki verið ástæðan? Eða hafa strákar bara meiri ánægju af því að keppa, í hverju svo sem það er?

Jájá, neinei, núnú er ég bara kominn í eitthvað rugl. Ég ætla að fara að gera eitthvað af viti. Samt ekki opna bók. Talandi um bækur þá ákvað ég að brjóta odd af oflæti mínu og reyna að lesa eina skáldsögu yfir jólin. Valdi Konungsbók úr því það var eina bókin sem ég fékk í jólagjöf. Ég veit ekki af hverju fólk er að dýrka þennan Arnald Indriða svona mikið. Ég sver það, ég hefði getað skrifað þessa bók. Það þýðir ekkert að hún sé ömurleg en hún er allavega ekki jafn svakalega góð og ég hafði ímyndað mér miðað við gagnrýni og skoðanir fólks. Þetta ætti kannski að verða mér enn meiri hvatning til að byrja loksins á eigin skáldsögu. Mér datt í hug efni í eina: "vinnumaður á bóndabæ sem ákveður að kaupa sér eigin bóndabæ en er heví fátækur en lætur samt ekkert á sig fá og metur sjálfstæði sitt ofar öllu. Bugast ekki við tvo eiginkonumissi og á hund og fílar kindur heví vel." Ég held að þetta sé alveg efni í eitthvað magnað.

mánudagur, janúar 08, 2007

Ég ligg hérna með kvefdrullu og hálsbólguhóru og hlusta á Gettubetur í útvarpinu. Ég get nú ekki svarað öllum spurningunum þannig að ég get alveg eins bloggað á meðan. Ég gat heldur ekki svarað öllum spurningunum í forkeppni Meistarans á laugardaginn en það var gaman að prófa þetta. Og ég gat heldur ekki svarað öllum spurningunum í stærðfræðigreiningarprófinu sem ég tók fyrir jól og fékk því að upplifa annað fallið á námsferlinum. Hin prófin gengu fínt þó ég eigi enn eftir að fá úr einu.

En ætti ég ekki að rifja upp árið 2006?


Janúar

Í janúar hófst önnur önnin mín í verkfræði í Háskólanum. Eftir alveg hreint ágætis fyrstu önn ákvað ég að tjilla meira á 2. önninni. Mikið var spilað af Pro Evolution og í þessum mánuði fór fram einvígi milli hinna mætu GENTS-manna og Byssanna. Það tapaðist einhverra hluta vegna en mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar og frekar ólíklegt að svo myndi verða núna.
Í janúar var svo sumarbústaðarferð í boði Eddu Óskar þar sem að mikið var um sprell og gaman. Fórum austur í nágrenni Laugarvatns og gerðum góða hluti sem settu Eddu á svartan lista yfir sumarbústaðaleigjendur.
Kvefdrulla kvaldi mig einnig svo að það er greinilega allavega árlegur andskoti.


Febrúar

Í febrúar tók ég duglega á því í æfingum og æfingaleikjum með hinu fornfræga knattspyrnuliði Létti. Stefnan tekin á að taka í fyrsta sinn þátt í Íslandsmóti í meistaraflokki um sumarið. Ilmurinn af nýslegnu grasi og öruggum sigrum komandi sumars fékk mig til að mæta á allar þessar skokk og púlæfingar í frostinu og niðurstaðan varð alveg bullandi gott form. Febrúar er náttúrulega mjög stuttur mánuður þannig að það er alveg eðlilegt að ég muni ekki eftir neinu markverðu síðan þá. Skv. blogginu mínu var þó allt í bullinu í náminu en gaman í boltanum.


Mars
(djöfull tekur þetta ótrúlega langan tíma... aðallega vegna þess að ég er alltaf að tékka gamlar færslur til að hjálpa mér að rifja upp árið, og þær eru svo ógeðslega fyndnar)

Í mars hef ég greinilega ekki þurft að eyða miklum tíma í að læra því ég var duglegur að blogga. Mánuðurinn byrjaði á góðri árshátíð verkfræðinema í Hveragerði. Ég samdi frábæran texta fyrir Dísu vinkonu mína til að nota í söngvakeppni framhaldsskólanna, sem hún notaði ekki (sjúkur mórall).
Ég breytti líka lífi mínu til frambúðar með því að kaupa fyrstu bifreiðina. Hún rennur ennþá vel og hefur uppskorið ást mína.
Ég var svo duglegur að setj´ann í æfingaleikjum með Létti og bjartsýnn á sumarið.


Apríl

Í apríl féll hún amma mín Anna frá. Blessuð sé minning hennar. Apríl-mánuðinum fylgdi því fyrsta jarðarförin sem ég man til þess að hafa farið í. Hún var jörðuð á Akureyri og ég fór því í þann frábæra bæ og uppgötvaði enn og aftur að það er gott að vera þar. Ég segi bústaðarferð þangað sem fyrst.
Í aprílmánuði var ég svo bara í fótbolta, skeit eftirminnilega í Laugum og byrjaði í prófunum eftir að hafa verið í góðu tjilli alla önnina. Það var því komið að því að fá það í hausinn.


Maí

Örugglega einn frábærasti mánuður ársins. Skólinn klárast, fótboltinn byrjar og sólin á það til að ylja Reykvíkingum (svo kemur rigning í júní, júlí og ágúst). Ég byrjaði svo í nýrri vinnu hjá Námsmatsstofnun og það reyndist vera alveg svona líka helvíti frábær vinna. Frábært fólk sem maður var að vinna með og svo voru kökuföstudagarnir náttúrulega að gera mjög góða hluti (þar sem ég bjó meðal annars til magnaða tertu).
Svo hélt ég júróvisjónpartí sem var bara mjög fínt enda þótt Silvía hafi því miður ekki fengið að taka þátt í aðalkeppninni. Vona að Ísland fari að komast þangað bráðum.

En í maí gerðist svo hræðilegur atburður. Þetta byrjaði sem hver annar sunnudagur og fuglarnir sungu, loftið ilmaði af sumrinu og allir voru kátir. En um kvöldið fór ég á fótboltaæfingu. Ég mætti aðeins of seint og strákarnir voru komnir í smá spil þegar ég mætti. Ég stökk bara beint inní spilið án þess að hita upp og allt gekk vel. Svo fórum við í skotæfingar og þegar það kom að mér að negla boltanum, þá lagði ég allan minn kraft í vinstri fótinn og BAMM... eitthvað slitnaði. Ég hélt að þetta væri ekki neitt, komst svo að því að þetta væri tognun og hélt að tognun væri ekki neitt. Hún á heldur ekki að vera neitt en ég sleit þetta upp þrisvar yfir sumarið og er sem sagt ennþá meiddur í dag. Þetta er eitt það hræðilegasta sem hefur komið fyrir mig í lífinu.


Júní

Jess, ég skrifaði sem sagt fjórar færslur í júní. Ástæðan: HM í fótbolta!
Fór samt líka í bústað útá snæfellsnes og var það mjög ljúft. Gaman að fara í sumarbústað um sumar svona til tilbreytingar. En að öðru leyti var þetta aðallega HM og svo kannski bjór og grill. Umm, ég vildi að sumarið kæmi á morgun.
Í lok júní missti ég svo afa minn Þóri. Blessuð sé minning hans. Það var ekkert frekar auðvelt að missa hann frekar en ömmu en svona er víst bara gangur lífsins. Maður hefur allavega margar góðar minningar.


Júlí

Í júlí var einhver smá vinna en helmingur mánaðarins fór í alveg fáránlega góða ferð til Tenerife með meisturum Gents. Djöfull var það feit ferð. Klárlega einn af hápunktum ársins hjá mér, ef ekki bara hæsti.


Ágúst

Þá hélt ég upp á 20 ára afmælið mitt í laumi og bauð engum. Ég lofaði sjálfum mér að halda það aftur einhvern tímann seinna en mér fannst asnalegt að halda það á sjálfan afmælisdaginn, því þá var Dagný í útlöndum ásamt vinkonum sínum. Svo bara einhvern veginn gleymdist það út af sumarprófi og skólabyrjun. Já, skólinn byrjaði aftur og ég ákvað að reyna að taka aðeins betur á því í skólanum. Það entist þó takmarkað lengi en ég meina, alveg næstum því nógu lengi.


September-nóvember

Ömurlegir skólamánuðir þar sem að fátt sérstaklega markvert gerðist... held ég.


Desember

Jólamánuðurinn sjálfur hófst svo að sjálfsögðu á prófaundirbúningnum hressa. Við Dagný hættum saman eftir 20 mánaða samband en erum áfram vinir. Jólin komu með allt sitt tjill sem var ósköp ljúft eftir að mikið hafði gengið á. Frá og með morgundeginum er þessu tjilli því miður lokið og við tekur enn ein önnin í Háskóla Íslands. Ég hef miklar væntingar varðandi þessa önn hvað varðar skemmtilegheit en við sjáum til.Þannig var nú það. Þakka lesendum fyrir kommentin á árinu sem er að líða og óska ykkur málgleði á árinu 2007.