Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, júní 25, 2007

Jæja, dagurinn í dag er á góðri leið með að verða sá rólegasti sem ég hef upplifað þannig að það er kannski jafngott að byrja aftur að gera það sem ég hef gert svo lengi, að röfla hér á þessari síðu.

Það er eiginlega alveg fáránlegt hvað maður leggur á sig til að geta drukkið um helgar. Nú er ég farinn að skilja betur af hverju fólk tekur upp á því að verða rónar. Það er ekki mjög auðvelt að vinna fulla vinnu og drekka eins og blábjáni um leið. Ekki það að ég sé að drekka eitthvað mikið en ég er samt búinn að öðlast þennan skilning á stöðu róna.

Ég hef komist að því að rödd mín hljómar eins og ég get ímyndað mér að rottur myndu hljóma ef þær kynnu að tala. Allavega finnst mér hún hljóma þannig þegar ég er stressaður. Ég hef því ákveðið að láta af þeim leiða vana.

Hugur minn er þjakaður. Ég íhuga nú sterklega að færa mig af blogspot og yfir á moggablogg. Það sem hindrar marga í að færa sig af blogspot er sú staðreynd að þar er maður með mest frelsi til að breyta síðunni sinni. Við skulum nú bara feisa staðreyndir og þá sjáum við að ég er ekkert voðalega mikið að nýta mér þetta frelsi.
Hins vegar er eitt sem ég óttast við að færa mig yfir á moggablogg, og það er að verða flokkaður sem einn af hálfvitunum sem blogga þar. Mér er orðið alveg morgun(blaðs)ljóst að það eru fordómar í samfélaginu gagnvart fólki sem bloggar þarna og kannski ekki að ástæðulausu, því sumt af þessu liði virðist ekki vera alveg heilt í hausnum. En kannski ég sómi mér bara vel í þeim hópi.

Enn er ég að vinna pókersession hægri vinstri, fyrir utan náttúrulega þegar ég er að spila við gaur sem heitir Jón Orri og er klárlega heppnasti maður í heiminum og hann væri það jafnvel þótt Leifur Eiríks væri á lífi og Hábeinn heppni úr Andabæ væri til í alvörunni. Neinei, Orri er bara mjög góður.
En það er svo sama við hvern maður talar í lífinu þessa dagana að þá er sá hinn sami að spila póker líka. Æska þessa lands er hætt að safna fyrir landa í brúsa og kaupir sér þess í stað spilapeninga. Faðir minn gamall er farinn að forvitnast um hvernig Texas Hold´em virkar og ég bíð bara eftir að amma hringi og spyrji hvort ég vilji taka í spil. Segi og skrifa, sem er mjög kjánalegt á svona opnu vinnusvæði eins og ég er á.

mánudagur, júní 04, 2007

Ekki stafar nú bloggleysið af því að ég sé orðinn svo óhemju latur að ég nenni ekki að skrifa. Það stafar ekki af því að mér finnist síðasta færsla svo ógeðslega góð að hún eigi skilið að vera efst á þessari síðu um langa framtíð. Ekki stafar það heldur af því að ég sé orðinn það feitur að ég geti ekki hitt á takkana á lyklaborðinu. Ástæðan er líklega frekar sú að nú er ég mættur í vinnu sem snýst um að vera við tölvuna mestan part dagsins og því úr vegi að grípa strax til tölvunnar þegar maður kemur heim. Einnig held ég að þetta sé svipað með mína vinnu og að vinna í ísbúð, þe.a.s. þessi pæling með að mann langi ekkert rosalega í ís þegar maður kemur heim á kvöldin ef maður vinnur við að afgreiða hann allan daginn.

Þess vegna skuluð þið ekki búast við tíðum skrifum á þessari ágætu síðu þó ég ábyrgist vissulega ekki að ég muni halda kjafti í allt sumar.