Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Ef það fer einhvern tímann svo að ég hætti að blogga þá verður síðasta færslan mín allavega ekki einhver flipppæling um Edduna. Nei ó nei. Síðasta færslan mín yrði einhvers konar tímamótaverk. Hún fengi lesendur til að taka andköf og segja "jááá sæææll", og svoleiðis.


Ég skellti mér á handboltaleik hjá litlu systur í gær. Þarf náttúrulega ekki að spyrja að því að hennar lið vann sannfærandi sigur en það sem mér fannst merkilegt við þennan leik var að heyra hvað fólk lætur flakka af áhorfendapöllunum.

"Fékkstu dómaraskírteinið þitt úr kornfleks-pakka?" og fleiri gamlir gullmolar heyrðust frá foreldrum stelpnanna sem voru að spila. En því miður heyrðust ekki eintómir gullmolar því stundum fóru áhorfendur alveg yfir strikið við það að skíta yfir dómarana. Hafi áhorfendur verið til skammar þá voru þjálfararnir hræðilegir í þessum málum. Öskrandi og nöldrandi í dómurunum allan leikinn. Það virtist bara vera þeirra prinsipp að ef andstæðingurinn skoraði þá var mál að væla í dómurunum. Þeir voru allavega duglegri við það en að leiðbeina stelpunum.

Svo er reyndar eitt í þessu að það kann náttúrulega enginn handboltareglurnar. Annað hvort það eða þær eru mjög óskýrar.


Gaman að segja frá því að ég græddi 100.000 krónur í pókermóti um daginn. Þetta mun líklega hafa í för með sér að ég lendi fyrir fullt og allt í kviksyndi spilafíkninnar og enda á því að selja Volvoinn og skuldabréfin mín svo ég geti spilað meiri póker. Ég held samt ekki. Ég sé fyrir mér að ef ég get grætt 100.000 krónur á dag þá get ég grætt 3.000.000 á mánuði, og það er nú ekki ónýtt. Því miður hefur skólinn verið að taka allt of mikinn tíma af mér til að ég geti hrint þessari áætlun í framkvæmd en það kemur að því.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Edduverðlaunahátíðin síðastliðið sunnudagskvöld var hrikalega góð skemmtun og legg ég hér með til að Edduverðlaunahátíðin verði tilnefnd til Eddunnar sem besta sjónvarpsefnið. Þorsteinn Guðmundsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir eru alltaf fyndin og það brást ekki á Eddunni. Þá voru ræður með betra móti á hátíðinni í ár og kann ég þeim Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Nínu Dögg Filippusdóttur bestu þakkir fyrir að sýna tilfinningar þegar þær tóku við verðlaununum, að sýna að verðlaunin þýddu eitthvað fyrir þær. Það er annað en flestir þeir sem í gegnum árin hafa tekið við Eddustyttunum, sem hafa talað um hvað þær séu ljótar og svo kvartað yfir litlu fjármagni í íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði. Líklega af því menn halda að það sé kúl, eða eitthvað.

Þá er ótalinn þáttur Gísla Einarssonar og Friðriks Þórs Friðrikssonar sem báðir slógu á létta en þó viðeigandi strengi á þessari uppskeruhátíð sem Eddan er.

Það kann að hljóma undarlega en það er nú samt svo að ekki eru allir á sama máli og ég um ágæti hátíðarinnar í ár. Hinn víðfrægi þroskahefti hluti Moggabloggaranna hafði varla lokið við að horfa á hátíðina áður en hafist var handa við að hamra á lyklaborðið og dreifa skít yfir hátíðina og alla sem að henni komu. "Steini var ekki nógu fyndinn." "Lolla var lélegur hljóðfæraleikari." "Það er alltaf sama fólkið sem fær verðlaun." og eitthvað svona helvítis kjaftæði.

Ég skal lofa ykkur því að þetta lið var samt sem áður að horfa á Edduna í svona fimmta skiptið í röð, og fimmta árið í röð að kvarta yfir því á blogginu sínu hvað Eddan væri óþörf og leiðinlegt sjónvarpsefni. Helvítis kjaftæði. Þetta er svona lið sem vill gagnrýna allt á Íslandi og byrjar jafnan röksemdafærslu sína á "Íslendingar eru alltaf að...", svona eins og þetta lið sé ekki sjálft Íslendingar.