Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, janúar 28, 2008

Ég vil taka undir með Hössa í Quarashi sem skrifaði í Moggann í gær að það vantaði sárlega gott morgunútvarp á Íslandi. Hérna áður fyrr var hægt að hlusta á snillinga á borð við Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, og svo fannst mér alltaf drullugaman að hlusta á þá Pétur Jóhann Sigfússon og Dodda litla þegar þeir voru saman með Ding Dong. Ekki það að ég hlusta lítið á morgunútvarp þessa dagana, en það væri samt gott að geta stillt útvarpsvekjarann á eitthvað hressandi og einnig að geta hlustað á einhverja snillinga á leiðinni í skólann. Því miður er eintómt drasl í gangi núna.


Ég hef lengi reynt að halda því fram við sjálfan mig að ég sé svalur gaur en ég held ég verði að fara að horfast í augu við að svo sé hugsanlega ekki. Þetta kemur sérstaklega í ljós þegar spurningakeppnir eru annars vegar. Ég elska þær. Í dag hefur dýrmætur tími minn til dæmis aðallega farið í að horfa á breskan þátt sem sýndur er um hver áramót; "The Big Fat Quiz of the Year" á youtube. Mér finnst þetta alveg óhemju skemmtilegt áhorfs. Horfði á þáttinn fyrir ári og heillaðist af fáránlega fyndnum fírum, einhverjum Noel Fielding og Russell Brand. Í þættinum núna kom svo söngkonan Lily Allen sterk inn með "börn verða ekki til með rassaríðingum"-söguna sína. Aðrir keppendur, sem og spyrill, eru líka ógeðslega fyndnir. Mæli með þessu fyrir lúða.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

5 hlutir sem ég myndi gera í dag ef ég fengi 100.000 krónur fyrir:

1) Slumma Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.

2) Hjóla til Hveragerðis og til baka.

3) Borða kúfaðan disk af þorramat.

4) Nefbrotna.

5) Ganga í Liverpool-búning heilan dag.


Vissulega væri ég til í að gera alla þessa hluti fyrir 100.000 krónur en það er furðulegt til þess að hugsa hver af þessum fimm valkostum hryllir mig mest. Valkostur 2 hryllir mig reyndar ekki neitt en ég myndi t.d. ekki nenna á Hvolsvöll núna fyrir 100.000 kall. Lesendur mega endilega giska á hver af þessum valkostum hryllir mig mest.


Annars er maður heldur hlessa yfir borgarstjórnarmálunum. Vaknaði af værum blundi um sjöleytið, kom fram og dadara, ný borgarstjórn. Kíkti á Betsson áðan og þeir eru að setja 2/9 á að þessi stjórn endist út kjörtímabilið. En maður veit aldrei, þetta er búið að vera svo ótrúlegt kjörtímabil. Þó að Íþróttaálfurinn yrði næsti borgarstjóri þá held ég að maður yrði ekkert hissa lengur.

p.s. Mér leið heldur ónotalega þegar ég skoðaði áðan mest lesnu fréttirnar á mbl.is og sá hvaða tvær fyrirsagnir voru efstar.

sunnudagur, janúar 20, 2008

Fyrir utan kjúklingabeinið í pítsunni minni á Rizzo er þessi helgi búin að vera fáránlega ljúf. Kannski jafn gott því það stefnir í alveg helvíti leiðinlega viku. Þar er sérstaklega því um að kenna að ég þarf að taka eitt helvítis upptökupróf á laugardaginn. Vonandi sér íslenska landsliðið um að hressa mann við í lestrinum.


Undirritaður er með 100% vinningshlutfall í lukkuskífunni á English Pub. Það höfðu ekki margir trú á því að heppnin yrði með mér síðasta föstudagskvöld, og ég ynni meter af bjór, og ég heyrði setningar á borð við "haha, gleymdu þessu", "þú ert að eyða 1500 kalli í ekkert" og fleiri. En ég lét það ekki á mig fá, sagði barþjóninum að snúa kröftuglega, og vann að sjálfsögðu meter af bjór. Þvílík og önnur eins gleðistund. Svona lukkuskífur eru náttúrulega gullnáma fyrir heppinn náunga á borð við mig. Var lengi búinn að velta fyrir mér hvernig maður fengi meter af bjór, því ég hélt að hann væri frekar mældur í lítrum, en þá fær maður bara 10 lítil glös af bjór. Andvirði vinningsins er líklega í kringum 1500 krónur.

Bið að heilsa.

föstudagur, janúar 18, 2008

Skellti mér í smá bíltúr áðan og varð þess var að lögreglubíll stóð á miðju bílaplaninu. "Undarlegt" hugsaði ég með mér og setti upp Sherlock-svipinn minn (sjá til hliðar). Úr blokkinni minni heyrðust þar að auki hávær gelt. Ég sneri upp á hökutoppinn og hugsaði mig aðeins um, lagði saman tvo og tvo, og komst að því að það hlýtur að vera díler í blokkinni minni. Í blokkinni minni?!? Þessu bjóst ég við í Breiðholtinu en ekki hér á þessum friðsæla stað. Þeir leynast greinilega víða þessir útsendarar djöfulsins.

En já, ég veit ekki hvort það er til marks um mikla hræðslu mína við laganna verði en á meðan ég bakkaði útúr stæðinu mínu notaði ég stefnuljós, svona ef að lögreglan væri að fylgjast með mér. Lesið þessa setningu aftur. Enginn notar stefnuljós þegar hann bakkar, nema hugsanlega í verklega bílprófinu, en ég var sem sagt svona hræddur um að lögreglan myndi hætta að einbeita sér að þessu dópmáli og snúa sér að mér fyrir að bakka óvarlega.


Ég var svona 20 mínútur að jafna mig á Svíaleiknum áðan því eins og ykkur er eflaust í fersku minni var ég aldrei sérlega bjartsýnn á þennan leik, né mótið í heild. Datt reyndar aldrei í hug að við yrðum niðurlægðir (ég veit að ég er ekki hluti af liðinu en ég kýs að tala svoleiðis). En ég ætla að hætta að vera svona neikvæður og secreta þetta bara. Við vinnum Slóvaka og Frakka. Punktur.

mánudagur, janúar 14, 2008

Ég hef heyrt bjarstýnisraddir en sjaldan eða aldrei hef ég heyrt þær jafn háar og skrækar og einmitt núna. Og hvað er að gerast? Er Eurovision að fara að byrja? Nei því miður ekki alveg strax. Hins vegar er Evrópumeistaramótið í handbolta að hefjast á fimmtudaginn og viti menn, Ísland hefur aldrei átt jafn góða möguleika á að vinna til verðlauna á stórmóti. Aldrei. Við höfum víst allt sem til þarf.

Ég legg ekki í vana minn að vera svartsýnn en að ég sjái fram á verðlaun á þessu móti er ekki til í myndinni. Vona þó að sjálfsögðu að þetta gangi vel og verði hin mesta skemmtun eins og svo oft áður.


Skrítnasta helgi lífs míns er nú að klárast. Hófst með því að ég mætti galvaskur í tíma kl. 3 á föstudegi þar sem við fengum verkefni til að klára fyrir 9 á laugardagsmorgninum. Skemmtilegt. Fór samt með Magga og Hróa í póker og bjórdrykkju á ónefndum stað og hafði vel upp úr því, en vaknaði svo upp við vondan draum og áttaði mig á því að klukkan var að verða 4 og ég átti eftir að gera verkefnið. Hringdi á sexý bílstjórann minn sem kom á bimmanum og skutlaði mér heim. Snaraði fram einni blaðsíðu um hressa viðskiptahugmynd (verkefnið) og fór að sofa í þrjá klukkutíma. Mætti svo galvaskur í tíma kl. 9. Restin af helginni hefur verið í álíka miklu rugli.


Fór samt í leikhús í kvöld með henni Dísu (takk fyrir það Dísa) og sá Hér og nú. Djöfull er gaman í leikhúsi. Ef það væri til vinna sem snerist um að horfa á leikrit þá væri ég til í að sjá um það. "Af hverju geristu ekki bara gagnrýnandi?" Af því að ég er ekki hæfur til þess. Ég veit til dæmis ekkert hvað ég á að segja um þetta leikrit. Fyrst fannst mér eins og það væri verið að gera grín að Séð og heyrt. Svo fannst mér eins og það væri verið að gera grín að Íslendingum. Og svo fannst mér allt í einu eins og það væri verið að gera grín að mér. Það er náttúrulega ekki fyndið.


Fyrsta vikan af helvíti af jörð, einnig þekkt sem önnin þegar ég tek sjö kúrsa, er núna búin og ég er sprelllifandi. Bið að heilsa bakkusi hins vegar. Sælar!

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Jólasukkinu lauk formlega á sunnudaginn eins og eðlilegt er, enda síðasti dagur jóla, og slúttið, sem að þessu sinni var í boði Lillýjar frænku og Svenna, var sérlega glæsilegt. Eftir að hafa djammað fram í dagsljósið nóttina áður (það er janúar núna) var ég hins vegar frekar dasaður á því og eftir matinn gat ég ekki með nokkru móti haldið uppi samræðum svo ég skellti mér í sjónvarpssófann. Þar sátu frænkur mínar og fylgdust spenntar með stórmyndinni BRATZ. Stórgóð mynd þar á ferð og skora ég hér með á helstu hörkutól landsins að reyna að horfa á þá mynd án þess að fella tár. Þvílík gleðistund þarna í lokin maður. Ég datt reyndar bara inn í miðja mynd þannig að ég þurfti að fá ýmsar upplýsingar frá frænkum mínum um þróun mála. Dæmi:

Sindri: "Hver er þetta?"
Frænkur: "Þetta er Billie (minnir að hún hafi heitið það)."
Sindri: "Jájá, er hún mamma stelpunnar?"
Frænkur: "Nei, hún er súkkulaðifíkill."

Og um það lugu þær engu. Allavega, mæli með BRATZ og ekki síður myndinni sem á eftir fylgdi, High School Musical. Held ég viti hvert Óskar ratar þetta árið.P.S. Snillingur dagsins er einhver piltur úr Gettubetur-liði Hraðbrautar sem var svo sannarlega hress á því eftir sigur liðsins á Framhaldsskólanum á Höfn í kvöld. Eftir að úrslitin voru ljós klöppuðu stuðningsmenn Hafnarliðsins fyrir sínum mönnum sem sýndu vissulega hetjulega baráttu, en þá heyrðist snillingur dagsins segja með fýldum rómi; "Af hverju eru þeir fyrir austan að fagna sínum mönnum? Þeir töpuðu!"
Mjög hressandi. Minnti mig á sjálfan mig.

P.P.S. Ég nenni ekki þessu skólaveseni. Þarf að taka sjö kúrsa núna ef ég ætla að klára bs í vor og það er ansi erfitt, en spurning hvort það sé ekki þess virði að reyna. Ef mér tekst það er ykkur öllum boðið í partí.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Nú árið er liðið í aldanna skaut og kominn tími til að tilkynna áramótaheit undirritaðs. Þau eru:

1) Drekka minna kók. Reyndar drekk ég svo mikið af því að þetta ætti að verða ansi auðvelt.

2) Fara til útlanda. Mig langar alveg viðbjóðslega til að fara út. Helst í svona eitt ár. Sjáum til hvernig skólinn gengur.

3) Rekast fyrir tilviljun á einhverja fáránlega frábæra stelpu sem er til í kallinn.

4) Flytja að heiman. Ef ekki til útlanda þá allavega eitthvert.

5) Halda áfram að vera svona duglegur í ræktinni og vonandi fara að æfa fótbolta tvisvar til þrisvar í viku.


Ég var að fíla árið 2007 mjög vel. Fyrir mér toppaði það eiginlega herrans árið 2006, þó það sé mjög mjótt á mununum. Væntingarnar eru miklar til þessa nýja árs og ég hef bullandi trú á að það verði gjöfult og gott á því.