Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

fimmtudagur, mars 27, 2008

Jæja, það er komið að því að grafa oní fjársjóðskistu þessa bloggs og rifja upp gamlan og skemmtilegan leik. Nefnilega spurningakeppni alþýðunnar. Tíu spurningar verða bornar fram og skulu svör send á e-mailið doktorsindri@hotmail.com. Í verðlaun þetta skiptið er útaðborða fyrir tvo á gráa kettinum og frítt á skíði fyrir alla fjölskylduna á Langjökli. Hér koma spurningarnar:

1) Feðgar lenda í árekstri og pabbinn deyr. Sonurinn er sendur með hraði upp á spítala í aðgerð en læknirinn segist ekki geta framkvæmt aðgerðina, þetta sé sonur hans. Hvernig má það vera?

2) Ef ég færi frá Reykjavík á norðurpólinn, og þaðan til Moskvu, í hvaða átt færi ég frá norðurpólnum til Moskvu?

3) Hverjar eru líkurnar á því að fá tvo ása á hendi í Texas Hold´em póker?

4) Frá hvaða landi kemur konan sem setti tvö heimsmet í sundi á dögunum. Metin setti hún bæði í sömu "tegund" af sundi en annað var 200 metra og hitt 400 metra.

5) Hvenær útskrifast ég með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði?

6) Hver er núverandi formaður ungra jafnaðarmanna?

7) Úr hvaða lagi er þetta textabrot og hvaða snillingur samdi textann?
"Tinni er hetja, vinur í raun,
sumir vilja meina að hann drekki á laun"

8) Hver drap Gísla Súrsson?

9) Hvað kostar að taka þátt í lukkuhjólinu á English Pub og hvaða tveir vinningar eru bestir?

10) Hvað er móðir mín með margar tær?


Ég hef ákveðið að stækka vinninginn því ég er nokkuð viss um að enginn geti svarað þessu öllu. Ofan á fyrrgreindan vinning bætist leikhúsferð með mér á Engisprettur í Þjóðleikhúsinu, ísbíltúr og ótakmörkuð ást og kærleikur. Sem og að sjálfsögðu það sem flestir renna kannski hýru auga til... heiðurinn!

Gangi ykkur vel, og ég minni á að þið eigið ekki að svara í kommentum. Sendið á doktorsindri@hotmail.com.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Ég hef komist að því að það virðist vera beint samband milli þess að ég reyni að útbúa mér samlokur með pítsasósu eftir djammið, og þess að ég vakna og sé að það er pítsasósa útum allt á skyrtunni minni. Ætla bara að leyfa devitos-dólgunum að sjá um þessi mál héðan í frá.

Hér bloggar maður sem í dag er svona 350.000 krónum fátækari en hann var fyrir helgi. Vissulega fékk ég mér páskaegg númer sjö, en það er ekki allt. Ég missti mig heldur ekkert á djamminu þó ég hafi reyndar ekki heldur farið sérstaklega varlega með áfengið þessa helgina. En aðalorsökin fyrir þessu mikla tapi eru þessar gengissveiflur íslensku krónunnar. Nei, nú er ég að djóka. Þær hafa reyndar nokkur áhrif, en ég var sem sagt að greiða fyrir útskriftarferð norður til Asíu næsta vor. Það er eins gott að það sé satt sem ég hef heyrt að áfengi sé ókeypis á þessum slóðum og að þarna séu nördalegir skolhærðir Íslendingar algjörir gelluseglar.


Ég er búinn að eyða stórum hluta páskahelgarinnar í að uppgötva Seinfeld. Þvílíkir þættir. Kramer er líklega sá karakter í sögu sjónvarps sem ég kann best að meta. Sjáum hvað ég segi eftir níu seríur.


Takk fyrir að lesa, ég kann að meta það,
og bið þig vel að lifa.
En ég fíla ekki lúsablesa, sem að,
komment nenna ekki að skrifa.

p.s. Ég held ég geti dáið hamingjusamur eftir að hafa samið þetta ljóð. Það er fullkomið.

p.p.s. Nei, ég get gert betur.

Ástin er eins og strætó.
Hún ferðast eftir ákveðnu kerfi en stenst aldrei áætlun.
Og á miðnætti hættir hún að ganga.
Þú getur þá tekið leigubíl ef þú tímir því, en annars verðuru bara að labba.
Nema þú kunnir vel við þig í biðskýlinu.
Það er gott að taka skiptimiða til öryggis.

Hvað er ég að gera í verkfræði með alla þessa skáldagáfu?

mánudagur, mars 17, 2008

Jæja, kominn tími á færslu. Af hverju hef ég, síupptekinn verkfræðineminn, allt í einu tíma til að blogga? Jú, sjáiði til, ég er staddur upp í skóla og tími ekki að keyra heim. Ég var bara í góðum gír að herma framleiðslu á koltrefjafótum þegar mér varð litið á mbl.is og sá þetta:


(Takið eftir aðdáunarverðum hæfileikum mínum í MS Paint)

Hvað í djöflanum?!? Þá kostar rúmlega 11.000 fyrir mig að fylla bílinn, sem ég mun líklega ekki gera fyrr en við finnum eitthvað eldsneyti til að taka við af bensíni. Hvernig væri að eyða aðeins minni pening í að spila lög með Queen í sjónvarpinu og leggja aðeins meiri áherslu á að hafa bensínverð viðráðanlegt fyrir fólk sem að skítur ekki gulli?

Ok, fyrir þá sem finnst þetta eðlilegt tékkaði ég hvað verðið hefði verið fyrir ári síðan. Fann þessa frétt á mbl.is:


Þvílíka ruglið maður. Stjórnvöld hafa náttúrulega ekkert tjáð sig um þetta. Væntanlega vegna þess að almenningssamgöngur eru svo góðar að það þarf eiginlega enginn að vera á bíl lengur (burumm tissj). Það er líka greinilega alveg bullandi samkeppni í gangi hjá þessum bensínstöðvum. Alveg svona svipuð og í bíóhúsunum (burumm burumm burumm tisssssjjjj).


Ok. Og eins og bensínverðið sé ekki orðið nógu hátt þá er núna komið í gang sérstakt átak í hraðasektunum hjá lögreglunni. Þá sérstaklega í 30-götum. Ég leyfi mér að draga í efa að Volvo-inn búi yfir tækni til að keyra undir 30 km/klst. Hann drepur bara á sér. En ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því að verða tekinn fyrir hraðakstur á næstunni því ef ég hætti mér af stað á bílnum mun ég örugglega leggja allan minn metnað í að keyra á bensínvænum hraða. Sem er í rauninni gott fyrir umhverfið. Og þar af leiðandi mannkynið. Hækkum bensínverð og eflum almenningssamgöngur.

Reykás kveður.

laugardagur, mars 15, 2008

Jæja, það kom að því að ég fengi það í bakið að rífa alltaf upp eina Fréttablaðs-pakkningu á leiðinni heim af djamminu, til að hafa eitthvað að lesa á göngunni. Var ekki flennistór mynd af ógeðis mr-ingum að vinna gettubetur, og ég sem hafði hugsað mér gott til glóðarinnar að horfa á keppnina í dag án þess að vita úrslitin. Vonandi er ég að skemma fyrir einhverjum öðrum með þessari færslu.

Ég vil meina að álitlegasti kvenkostur landsins þessa stundina sé í gettubetur-liði MA. Það er þessi Arna þarna (rím) í miðjunni. Helvíti hugguleg, bráðgáfuð, og það sem gerir sennilega útslagið er að hún skyldi vita hvernig maður býr til kleinur. Mjög gott. Félagi minn vill meina að hún hljóti að vera hundleiðinleg fyrst hún er prýdd áðurnefndum mannkostum, því það eru nú ekki margir sem hafa þetta allt eins og ég.


Skemmtileg tilviljun að síðasta færsla fjallar um áhorf mitt á Desperate Housewives, og um síðustu helgi þurfti ég svo að bjarga (örvæntingar)fullri húsfreyju, sem var í nauðum stödd í Egilshöll ásamt svona 3000 manns og allir að bíða eftir leigubíl. Þessi lífsreynsla var ekki alveg jafn dramatísk og fyndin og þættirnir góðu, en athyglisverð engu að síður svo ég segi nú ekki meira.


Tók hressandi árshátíð á þetta síðustu helgi á Hótel Selfossi. Það er kjörinn vettvangur til að núllstilla, eins og fróður maður orðar það, og tóku verkfræðinemar vel á því í drykkju og dansi. Ég bauð upp á skemmtiatriði á borð við að banka og banka á herbergishurðina mína, hringja í gaurana sem voru þar inni og segja þeim að drullast til að opna, verða brjálaður yfir því að þeir skyldu ekki opna og byrja að sparka í hurðina af afli, og sjá svo félaga minn koma hlæjandi af því að ég var að banka á vitlausa hurð (215 og 315 eru ekki ólíkar tölur).


Núna heitir Sýn ekki lengur Sýn heldur Stöð 2 sport. Litla systa (eþs. ungfrú Háteigsskóli, sem minnir mig á þegar ég lenti í 2. sæti í herra Grunnskólinn í Skógum, en sú kosning minnir mjög á kosninguna um besta leikmann Landsbankadeildar kvenna síðasta sumar) benti á að þá þyrfti að ráðast í breytingar á "Sýnar-stúkunni" á Laugardalsvelli. Líklega þarf núna loksins að láta stúkuna ná allan hringinn ef þetta nýja nafn á að komast fyrir.Góða veðrið í dag og í gær gerir mig glaðan. Djöfull hlakka ég til sumarsins.