Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Sindri og róðrarvélin - sönn saga

Jæja, úr því það eru takmörk fyrir því hvað einn maður getur fundið margar afsakanir þá er ég byrjaður að stunda ræktina aftur. Þar kennir ýmissa grasa, en þar er einnig að finna elskuna mína sem ég jafnframt hata... róðrarvélina. Eftirfarandi átti sér stað í síðustu viku:

Sindri: Svo... við hittumst aftur róðrarvél.
Róðrarvélin: Rétt. Hvar hefuru verið? (sagði hún, og það vottaði fyrir söknuði í augum hennar) Ertu hræddur við mig..? Aumingi!
Sindri: Puhh, hræddur? Ég? Ertu að tala við mig?
*svo setti ég upp þennan svip*


Róðrarvélin: Mmmm, ég hef ekki séð þennan svip síðan 2005. Ég gleymi því aldrei Sverrisson.
Sindri: Kallaðu mig Sindra. Ég hef engu gleymt.
*Svo kom ég mér í stellingar og gerði mig kláran að hefja aksjónið*
Róðrarvélin: En... bíddu... ætlaru ekki að smyrja mig fyrst?
Sindri: Ég veit þú fílar það röff, bidds.

*Ég tók fyrsta hnykkinn og beitti öllum kröftum.*
Róðrarvélin: Úúú, ahh.
*Ég fann hvernig líkami minn ólgaði allur. Þvílíkur unaður. Fram, aftur, fram, aftur.*
Róðrarvélin: Ó já, hraðar, ekki hætta núna.
Sindri: En ég er bara tveggja mínútna maður!
Róðrarvélin: Hugsaðu um eitthvað annað (sagði hún með samanbitnar varir).
*Ég veit ekki hvernig það tókst en ég hélt áfram á fullu tempói í fleiri fleiri mínútur (a.m.k. fjórar!), þar til ég gjörsamlega sprakk.*
Sindri: Úff maður, þetta var næs.
Róðrarvélin: Já, ég væri til í smók núna.
Sindri: Amm, ég ætla að skella mér í sturtu. Hvað segiru um að gefa mér númerið þitt?
Róðrarvélin: Uuu, skráningarnúmerið? 4618CX128.
Sindri: Næs. Later.
Róðrarvélin: Farvel fagri prins.

föstudagur, nóvember 28, 2008

Farvel, lille havfrue.

Eitt af því sem mér liggur á hjarta þessa dagana er hve yndislega frábær einn lítill útvarpsþáttur getur verið. Sá þáttur heitir Litla hafmeyjan og er á hinni ríkisreknu Rás 2 á föstudagskvöldum. Nú huxið þið kannski "nei hvur andskotinn, hver hlustar á útvarp á föstudagskvöldum?" Svarið er auðvitað "enginn". Því er gott til þess að vita að hægt er að ná í þættina á vef ríkisútvarpsins og hlusta hvenær sem er vikunnar.

Þættirnir eru í umsjón Dodda litla og Andra Freys Viðarssonar sem flestir viti bornir menn muna eftir frá X-FM eða Reykjavík FM eða X-inu. Viti bornir menn hljóta einnig að vera sammála mér um það að Andri er alveg óhemju fyndinn náungi og Doddi er einnig góður. Saman eru þeir hins vegar yndislegir.

Og ég er ekkert að grínast með það hvílíkur eðall þessir þættir eru. Alltaf eitthvað gott grín í gangi, ferskt grín, og svo áhugaverðar umræður en undirtónninn þó ávallt léttur, eins og mér líkar best. Þeir félagar fá mig hreinlega til að gúddera hina skyldubundnu greiðslu afnotagjalda. Eða fengu. Fengu, því þessir þættir eru að fara að hætta núna í desember. Ég hef verið að láta mér detta í hug nokkrar ástæður:

1. Dagskrárstjóri rúv er hommi.
2. Það er ekki til peningur til að borga Dodda og Andra af því að Bubbi Morthens fær svo ógeðslega mikið borgað.
3. Það þarf að hafa fleiri fréttatíma af því það eru bara 200 fréttatímar á sólarhring á Rás 2.
4. Það er ómissandi hluti af aðventunni fyrir marga að Andri Freyr sé rekinn en þetta eru víst fjórðu jólin í röð sem slíkt gerist.


Ég er svo pirraður yfir þessum gangi mála að mér er skapi næst að stofna grúppu á facebook til að mótmæla þessum fáránlega niðurskurði og kasta eggjum í Þorgerði Katrínu. Geta þeir ekki rekið Óla Palla í staðinn? Eru ekki allir komnir með leið á honum sem eitthvað hlusta á útvarp?

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Gamli.

Margt hefur nú á dagana drifið maður. Þyrfti að vera MIKLU duglegri að uppfæra þessa síðu, en einhvern veginn er ég aldrei nálægt tölvu þegar ég fæ mínar bestu hugmyndir að færslum. Þess vegna verðiði bara að gera ykkur að góðu það sem dettur á blað núna.

Hmm, hvað hef ég verið að spá í að skrifa um síðustu daga? Úff, man ekki.

Síðasta föstudagskvöld stefndi í að verða alls herjar leiðindi þar til meistari Þorkell Gunnar nokkur hafði samband og spurði hvort bjór væri ekki málið. Ég hélt það nú, svo hann dreif mig með sér í eitthvað partý í kópavogi þar sem margt var um typpin en lítið um það sem þau leita að. Úr því rættist hins vegar og þetta varð helvíti gott grín, fyrir utan kannski að u.þ.b. helmingur leirtaus húseiganda smallaðist í gólfinu á meðan á partýinu stóð. Það þótti mér einhverra hluta vegna mjög fyndið.


Endaði svo að sjálfsögðu í bænum og hitti á Krissa sem var nú ekki lengi að drífa mig með sér á nýja uppáhalds skemmtistaðinn sinn, sem hann er farinn að stunda af kappi eftir að hann varð frjáls maður aftur. Þar fór Krissi að ná í drykki á meðan ég vippaði mér á dansgólfið og áður en hægt var að segja "sílikonbrjóst" var ég kominn í sjóðheitan dans við tvær, endurtek tvær, þokkagyðjur sem líklega eru farnar að nálgast fertugsaldurinn. Ég veit ekki alveg á hvaða efnum þær voru en önnur þeirra hvíslaði í eyra mér "ef þú átt kærustu líttu þá á þetta sem greiða við mig" eða eitthvað í þá áttina, og tók svo dansmúv sem ég hélt að sæjust bara í Californication. Innan skamms var hún svo farin í slag við einhverja aðra gellu þarna, og í kjölfarið flosnaði upp úr þessu promising sambandi okkar þriggja. Held þær hafi nú ekki verið bara í Breezernum þessar.
Vá, þetta er svo góð saga. Af hverju gerist ég ekki rithöfundur?


Til að eiga í mig og á tók ég svo sunnudaginn í Kolaportinu þar sem ég seldi Klaufabárðana á dvd fyrir frænda minn. Þar tóku sig upp gamlir Intersport-taktar hjá mér og var mál manna að sjaldan hefði einn maður selt jafn vel svo skömmu fyrir mánaðamót. Ég reyndi líka að selja gamlar körfuboltamyndir undir borðið en náði bara að selja eina af Patrick Ewing í þrívídd fyrir sleikjó.

Gaman að prófa að vera í Kolaportinu heilan dag. Fór þangað í fyrsta skipti á ævinni í fyrra eða hitteðfyrra og líkaði ekki. En það var gaman að sjá hið margvíslega fólk sem kom þarna yfir daginn. Fáránlega hressir New York-búar voru þar á meðal og svo endaði dagurinn á því að Lalli Johns og félagar mættu til að reyna að nappa einhverju smálegu. Tókst að verja Klaufabárðana en sýndist Lalli stinga inná sig disk með Whitney Houston. Verðonum aððí.

Endaði svo helgina á nýjasta þættinum af Dagvaktinni sem var hreint út sagt frábær. Kemst varla yfir það hvað þetta var mikil bæting frá síðasta þætti.

Þakka þeim sem lásu.


p.s. Skv. vigtinni í ræktinni er ég orðinn 90 kg. Þess má til gamans geta að síðast þegar ég kíkti á vigt var ég svona 82 kg. Styttist í að maður fari að nota gömlu "vöðvar eru þyngri en fita"-afsökunina sem fitukeppirnir notuðu alltaf í grunnskóla. Mér sýnist ég samt ekki vera á réttri leið ef ég ætla að hlaupa Glitn, fyrirgefið, Reykjavíkurmaraþonið næsta sumar.

p.p.s. Ég veit að það eru einhverjir þarna úti með áhyggjur af ástandinu í þjóðfélaginu. Ég hef bara eitt við ykkur að segja. Hemmi Gunn.

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Þessa dagana eru margir mjög reiðir og illir og ég reyni mitt besta til að létta fólki í kringum mig lundina með gamansögum og brosi eins og mér einum er lagið. Nú eru samt margir sem furða sig á því að í þessu efnahagshruni skuli enginn hafa viðurkennt að eiga einhverja ábyrgð á því. Nú er ég náttúrulega bara venjuleg fótboltabulla, þannig að fyrir mér er málið voðalega einfalt.

Þjóðin er fótboltalið, og ríkisstjórnin er þjálfarinn. Við gætum til dæmis verið Tottenham eins og liðinu gekk í byrjun leiktíðarinnar. Búin að kaupa fullt af eignum en erum samt að skrapa botninn og skíta uppá bak. Geir H. Haarde er alla vega alveg eins og Juande Ramos. Nær engum árangri með liðið, talar of sjaldan og of lítið við leikmennina, og það litla sem hann segir virðist gera menn enn fúlari. Í fótboltanum var Ramos svo að sjálfsögðu látinn fjúka en ekkert slíkt virðist í pípunum hér á landi.

Ég veit samt ekki alveg hver í andskotanum okkar Harry Redknapp á að vera. Töframaðurinn sem fær þjóðina á sitt band og beinir henni til bjartari framtíðar. Þórólfur Árnason, svo ég nefni einhvern, gæti samt verið sá maður. Ég er alveg viss um það.


Kannski ætti maður frekar að líkja ríkisstjórninni við leikmenn Tottenham-liðsins. Það er t.d. engan veginn hægt að stóla á hana. Haarde og Sólrún minna alla vega á Heurelho Gomes þegar þau reyna að verja gjörðir ríkisstjórnarinnar, og Árni M. Mathiesen er búinn að vera jafn týndur og Luka Modric fyrstu vikurnar í úrvalsdeildinni. Árni kom reyndar í Íslandi í dag í gærkvöld en verður svo líklega frá næstu tvær vikurnar.


Að öðru. Athyglisverð stefnubreyting hjá þeim Dagvaktarmönnum að hafa ekkert grín í síðasta þætti. Stefnan þá líklega sett á Edduverðlaun í flokki dramaþátta á næstu hátíð. Ég elska þessa þætti samt, það er ekkert að breytast, og "hann var minn Alexander" var góð lína.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Jæja, þetta verður þá bara mánudagsblogg.

Gærdagurinn var einn sá erfiðasti sem ég hef upplifað. Tók nefnilega tólf tíma vakt uppá mogga skömmu eftir að hafa verið í verkfræðipartýi með fríu áfengi. 2+2=4 og allur sá pakki. Yndislegt að hitta nær allt liðið sem fór í ferðina til Asíu í vor og ná góðu djammi aftur saman. Þegar Tiger-bjórinn var svo tekinn fram lá við tári á hvarmi enda góðar stundir sem maður tengir þeim eðaldrykk. Alla vega, frábært laugardagskvöld frá upphafi til enda.


Var ennþá vel slappur eftir vinnuna í gær þannig að ég kom við á leigunni og náði í Klovn á dvd enda ófáir málsmetandi menn búnir að mæla með þessum þáttum. Ég ELSKA þessa þætti. Þetta er svo fáránlega fyndið. Gaman að því hvað ég tengi vel við hann Frank, fyrir utan kannski þegar hann fór í fótbolta. Úff, haha, það er svo góður þáttur.

Ég gerði mér svo lítið fyrir og keypti uppáhaldssnakkið mitt í leiðinni, sprö-mix frá marúdd. Fannst það við hæfi með dönskum þáttum. Áttaði mig á því þegar ég var búinn að borga að pokinn kostaði 700 krónur. Ég veit að allt er í fokki hérna á klakanum en mér fannst þetta samt frekar skrítið þannig að hringdi í Bónusvideo og krafðist skýringa:

Videokona: Hellú
Sindri: Sælar. Heyrðu, ég var að kaupa poka af sprömix-snakki hjá ykkur áðan og mér tekst ekki að tengjast internetinu.
Videokona: Já, það er ekki hægt að fara á internetið í gegnum þennan snakkpoka.
Sindri: Þannig að þetta er bara venjulegur snakkpoki sem kostar 700 krónur?
Videokona: Jebb.
Sindri: Sælar.
Videokona: Bæjó.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Kláraði í síðustu viku að lesa bók í fyrsta skipti síðan ég veit bara ekki hvenær. Það var í menntaskóla held ég barasta. Gluggaði vissulega í einhverjar verkfræðibækur síðustu þrjú ár en skáldsögur og slíkt hef ég einfaldlega látið vera. Reyndi að byrja á einhverri bók eftir Arnald Indriðason einn veturinn en komst að þeirri niðurstöðu fljótlega að ég gæti vel hafa sjálfur skrifað þá bók, og lokaði henni.


Svo var það á dögunum að ég átti afmæli og af því tilefni leyfði amma mér að velja mér bók úr bókahillunni hjá sér. Þar kenndi ýmissa grasa en um leið og ég var búinn að lesa á bakið á bókinni "Býr Íslendingur hér" var þetta ekki spurning. Ég var svo bara nokkra daga að lesa hana enda ekkert smá athyglisverður lestur.


Maður hefur oft heyrt um að lífið í fangabúðum nasista hafi verið svo hryllilegt að því sé ekki hægt að lýsa en í þessari bók er það alla vega gert eins vel og hægt er. Rosalegar lýsingar höfundarins á því t.d. þegar fangarnir fengu einhvern svaðalegan niðurgang og voru bara að skíta á götuna þar sem þeir löbbuðu um eða reyndu að hraða sér á kamar. Og að sjá svo mynd af honum með hjólbörurnar sem hann notaði til að keyra lík í ofninn. Ég alla vega gat ekki hætt og hélt alltaf að að bókin myndi örugglega enda vel fyrst að gæjinn lifði til að segja söguna. Get ekki sagt að það hafi verið þannig.


Nú er ég kominn í gamla bókagírinn. Get ekki sofnað án þess að lesa einn og einn kafla og bókin Skipið er komin í gluggakistuna við rúmið. Hún lofar góðu.

mánudagur, nóvember 03, 2008

Þessi síðasta mánudagsfærsla er að verða svolítið þreytt þannig að hér kemur ein ný og fersk. Nú verð ég kannski seint rómaður fyrir að kunna að tríta dömur eða vera sá liprasti í samskiptum við þær, en sjaldan enda þau samskipti þó með ofbeldi. Undantekningartilfelli er reyndar t.d. þegar Dísa gaf mér feitan kinnhest í grunnskóla* fyrir litlar sakir (man ekki hvaða sakir) og óskemmtilegt atvik um síðustu helgi.

Ég hitti hressa ónafngreinda félaga mína á Hressó í einhverju góðu glensi á dansgólfinu. Sem ég er að hefja minn dillandi, seiðandi, kynþokkafulla en jafnframt einstaka dans ákveður félagi minn að gera mjög lélegt grín. Hann klípur sum sé í afturenda á stelpu sem stendur mér nærri (á dansgólfinu, ekki í lífinu) og kemur sér í burtu. Eftir stend ég alveg eins og illa gerður hlutur og reyni að brosa framan í stelpuna, því brosin bjarga jú mörgu. Skipti þá engum togum að stelpan kýlir mig í andlitið.

Nú man ég bara ekki til þess að hafa áður fengið krepptan hnefa í andlitið þannig að ég var alveg frekar hissa þarna. Höggið var laust frá stelpu þannig að vöðvum hlaðið andlit mitt var fljótt að jafna sig en sjokkið maður, ég vissi ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið. Þess vegna fann ég ekkert sniðugt til að segja og fór bara að leita að fíbblinu honum Sigurði Hjaltested. Hann splæsti drykk og allir sáttir, en þetta kennir manni að rassaklip eru ekkert vel séð.


Þessu ótengt að því ég best veit er ég nú orðinn atvinnulaus. Get ekki sagt annað en að síðasti dagurinn í vinnunni hafi verið lítið upplífgandi. 20 manns sagt upp og þar á meðal menn sem ég held að hafi stofnað Moggann. Ég mun nú leggja mig allan fram við að bæta úr atvinnuleysinu á næstu dögum en ég hef heyrt því fleygt að ástandið hér sé ekki gott. Ætti nú að geta bloggað daglega á meðan staðan er svona þannig að það eru góðæristímar að fara í hönd fyrir ykkur kæru lesendur.


*Talandi um þessa kinnhestssögu um Dísu þá man ég vel eftir fyrstu vikunni í Grunnskólanum í Skógum. Datt inn í 4. bekk þarna, saklaus og sætur. Svo varð ég vitni að því þegar Dísa hrækti framan í gaur fyrir eitthvað sjitt og gæinn hrækti ljótri slummu tilbaka! Djöfull sem þetta var nastí. Þá hugsaði ég með mér "ókey Sindri, ég veit ekki hvert þú ert mættur en þú verður bara að herða þig upp og láta eins og ekkert sé." Sem betur fer reyndist þetta atvik svo ekki einkennandi fyrir restina af tímanum í Skógum.