Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

mánudagur, janúar 26, 2009

Jæja, maður hatar greinilega ekkert að taka góðar bloggpásur. Vegna fjölda áskorana og hótana um líkamsmeiðingar hef ég samt ákveðið að henda inn færslu.

Ég er búinn að vera virkilega duglegur að fara í leikhús upp á síðkastið. Fór að meðaltali tvisvar sinnum í síðustu viku. Fór fyrst á Fló á skinni með Dísu í tilefni þess að hún vann spurningakeppni hér á þessu bloggi fyrir svona fjórum árum. Þetta er fyndnasta leikrit sem ég hef séð og hreinlega yndislegt að geta notið svona sýningar í þessu svartnætti sem ríkir í janúar.

Seinni sýningin sem ég sá var svo Fólkið í blokkinni. Fjallar um fólk í blokk sem býr til söngleik. Mér finnst þetta mjög skemmtileg pæling og hyggst mæla fyrir því að við í blokkinni minni gerum slíkt hið sama. Það ætti að ýta undir betri vinskap nágrannanna hér. Hef að vísu litla trú á að dópdílerinn í næsta stigagangi sé til í að joina en ef hann er til sé ég fram á mjög spennandi leikrit. Ég myndi að sjálfsögðu eiga mitt lag í söngleiknum og hyggst ég nefna það "Þrír fermetrar". Það mun fjalla um herbergið mitt.


Tók rólegustu helgi í manna minnum núna um helgina. Hef nefnilega varla náð mér ennþá eftir föstudagskvöldið í síðustu viku. Það byrjaði ósköp sakleysislega með fríum bjór í partýi en á laugardagsmorgninum spurði litla systir mín af hverju það væri stór ælublettur á gallabuxunum mínum. Kvöldið fór sem sagt í algjört rugl og herma heimildir að það hafi m.a. falið í sér ælu í leigubíl og annað í þeim dúr. Skemmtilegt að taka upp á því núna þegar maður er kominn í meistaranám í háskóla.


Kveð að sinni Binni og lofa að blogga aftur innan skamms.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Það er alltaf gaman (nei ok, það er aldrei gaman, en samt...) að velta fyrir sér samkeppninni milli kók og pepsi. Frá alda öðli (lengi alla vega) hefur kók haft vinninginn þar og í raun virðist heimurinn hafa viðurkennt þá staðreynd að kók sé betra en pepsi. Sumir segjast reyndar ekki finna neinn mun en þá aðila mætti alla jafna stimpla sem hálfvita. Samt er pepsi ekkert að gefast upp og það selst reyndar örugglega bara mjög vel miðað við aðra gosdrykki. Miklu er varið í að auglýsa drykkinn og aðilar á borð við David Beckham, Britney Spears, Beyonce og Eið Smára Guðjohnsen hafa verið fengnir til að auglýsa drykkinn. Kók-menn eru hins vegar með sjálfan jólasveininn á sínum snærum og þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur.


Eeen, alla vega, ég ætlaði nú ekkert að tala um þetta. Ég var bara svona að spá í, að í raun er samkeppni milli vörutegunda á Íslandi oft mjög lík þeirri hjá Kók og Pepsi. Það er alltaf þannig að eitt vörumerki er að seljast mjög vel, á meðan annað selst ekki jafn vel en er samt alltaf þarna í hillunni þegar maður mætir í búðina. Ef við skoðum t.d. tannkrem, þá myndi ég ætla að Colgate sé kók tannkremanna, og Sensodyne pepsiið. Þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér og breytist bara ekki. Svo mætti gera eftirfarandi lista sem ég skil ekki hvernig ég nennti að gera:

Kók - Pepsi

Hunts - Libby´s

Ora - Rassabora*

OS fetaostur - Mjólku fetaostur

Nike - Adidas

Víking gylltur - Egils gull

Smirnoff - Finlandia

Toyota - Hyundai


Er þessu ekki örugglega rétt raðað hjá mér? Og ætli þetta geti breyst með öflugri markaðsherferð eða einhverju slíku? Tæki það kannski tugi ára að breyta því hvað er kók tómatsósanna?
En þó að ég efist um að pepsi verði nokkurn tímann vinsælla en kók þá geta hlutirnir blessunarlega breyst. Sem dæmi þá var VISA vissulega kók kreditkortanna hérlendis á árum áður öfugt við það sem var í hinum stóra heimi. Nú er það að breytast eða hefur þegar breyst og Mastercard orðið kók kreditkortanna.


Hmm, þetta var alveg óhemju tilgangslaus færsla og ég veit bara ekkert hvert ég er að reyna að fara hérna þannig að ég ætla bara að hætta að tala. Alla vega, mér finnst kók gott.

Kv. ykkar einlægur.

*Ég mundi ekki neitt annað en ORA. Einhverjar hugmyndir? Bíldudals grænar eða?

föstudagur, janúar 09, 2009

Gott að ég gleymdi bara að hafa eitthvað smá grín í áramótaannálnum. Það er samt bara þannig með annála að þeir eru ekkert grín. Spyrjið bara Björn Malmquist, hann ætti að vita það.


Ég verð ekki sérstaklega oft reiður en mér finnst afskaplega pirrandi þegar ég heyri eða les einhvers staðar að íslenska þjóðin sé að gjalda fyrir sitt bruðl síðustu ár með þeim hörmungum sem yfir hana hafa dunið síðustu mánuðina. Eins og sá ágæti maður Pétur Blöndal segir í lok þessarar fréttar, að tónlistarhúsið við höfnina eigi að standa eins og það er núna "sem minnisvarði um þá óráðsíu og bruðl sem öll þjóðin var að gera."

Hvurn andskotann var ÉG að bruðla fyrirgefðu? Mér var skapi næst að henda púða í 20" heimilissjónvarpið þegar hann sagði þetta. Ég var ekki rassgat að bruðla, ég ætla bara að fullyrða það, og ég er hluti af þjóðinni, svo ég vil ekki hafa það að misvitrir menn séu að setja fram svona fullyrðingar. Þessi litli hluti tónlistarhússins sem er tilbúinn má frekar standa sem minnisvarði um hvað ráðamenn þjóðarinnar eru miklir fuckers.

xoxo.

mánudagur, janúar 05, 2009

Áramótaanall 2008

Já, það er komið að því. Nú er ég búinn að liggja í sófanum, éta waldorf-salat og horfa á misskemmtilegt sjónvarpsefni nógu lengi. Ég er sem endurnærður eftir þetta jólafrí og ég get vart beðið eftir að komast í átök hversdagsins. Komið með lyftingalóðin til mín. Skellið námsbókum í andlitið á mér. Þarf ekki að fylla á bílinn? TIL ER ÉG. Hversdagslíf, komdu fagnandi!!

Nei, nú er ég að sprella. Ég elska jólafríið og er alltaf jafn svekktur þegar því lýkur. Er engin stemmning fyrir því að lengja þetta helvíti eða? Ég er fáránlega sáttur með jólin sem og blessuð áramótin sem fá hæstu einkunn.

En þá að áramótaanalnum, sem sökum lélegs minnis verður byggður á því sem ég hef skrifað á árinu svo við skulum vona að það sé eitthvað.


JANÚAR

Ég finn sömu tilfinningu nú og ég fann þá. Orka og kraftur til að gera eitthvað af viti og láta af einhverjum löstum. Þannig gerði ég fimm áramótaheit sem gekk ágætlega að uppfylla. Ég ákvað einnig að það væri nóg komið af aumingjaskap og skellti mér í sjö-kúrsa-önn til að geta klárað b.s.-gráðu í iðnaðarverkfræði um vorið. Það tókst að sjálfsögðu og stóð ekki einu sinni tæpt.


FEBRÚAR

Tók þá helvíti erfiðu ákvörðun að fara í útskriftarferð Vélarinnar til Asíu. Menn voru að tala um að hún gæti kostað um 270.000. Lítið vissum við þá um fall krónunnar. Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun fórum við Eymundur Sveinn Leifsson, sá mikli snillingur, á stúfana til að safna auglýsingum í blað Vélarinnar, svona í von um að hafa efni á ferðinni. Það gekk nú ekki vel til að byrja með og sögðu t.d. allir bankarnir nei við því að auglýsa og töluðu eitthvað um að staðan væri ekki nægilega góð hjá þeim. En um leið og við kveiktum á sjarmanum var ekki að sökum að spyrja, og við söfnuðum heilum helling af péningum.

Í febrúar lagðist ég í einhver fáránleg veikindi sem enduðu með því að ég horfði á tvær seríur af Desperate Housewives á einni helgi. Það verður seint toppað. Ég hjálpaði líka Röskvu að vinna stúdentakosningarnar og gerði þar gæfumuninn að vanda.


MARS

Mars er frægur innan verkfræðinnar fyrir öll verkefnin sem maður er að gera þá. Þess vegna gefst lítill tími fyrir annars konar ævintýri. Ég hélt áfram að safna auglýsingum með Eyma og við gerðum frábæra hluti þar. Svo skráði ég lærisveina mína í Vinningsliðinu til keppni í Carlsberg-deildinni þar sem ætlunin var að koma, sjá og sigra um sumarið.


APRÍL

Þessi hræðilegi mánuður sem felur í sér prófalestur byrjaði heldur betur ágætlega, t.a.m. með því að ég varð Íslandsmeistari í knattspyrnu verkfræðinema ásamt liðsfélögum mínum. Skoraði eftirminnilegt mark á klakabundnum KR-velli og það kæmi mér ekki á óvart að kvennalandsliðið hafi nýtt sér upptökur af frammistöðu minni til að undirbúa sig fyrir Íra-leikinn núna í haust.

Svo lagði maður allt á sig til að geta fengið prófrétt í sjö kúrsum, og það tókst sem betur fer. Ég staðfesti vinnu á íþróttadeild moggans fyrir sumarið og að ég gæti fengið frí eitthvað fram í júní vegna ferðarinnar til Asíu. Mig minnir að ég hafi djammað eitthvað í apríl líka, til tilbreytingar.


MAÍ

Tvímælalaust eftirminnilegasti mánuðurinn. Kláraði síðustu prófin mín í b.s.-inum, pakkaði í töskur og skundaði með hraði út í Leifsstöð til að hefja magnaða ferð. Bara þetta eina kvöld í Danmörku áður en við héldum til Asíu hefði gert allar heimsóknirnar til fyrirtækja landsins til að betla pening þess virði. En frá Danaveldi héldum við til Kína, svo til Singapúr og loks Taílands. Ferðin tók þrjár vikur og mun aldrei líða manni úr minni, þetta var bara með því skemmtilegra sem ég heft gert frá byrjun.


JÚNÍ

Mætti skelþunnur í Laugardalshöll til að taka við bréfsnifsi til staðfestingar því að ég hefði lokið grunnnámi í verkfræði. Rektor sagði að ég væri snillingur (sagði hugsanlega að við værum öll snillingar) og allir voru hamingjusamir. Hélt smá útskriftarteiti vegna þess að Maggi sagði mér að gera það og það var mjög gaman, sérstaklega þegar Hrólfur mætti í tvær mínútur og sagði mér að ég hefði bætt á mig.

Svo byrjaði sumarvinnan ljúfa á mogganum. Vinna sem krefst þess meðal annars að ég fari og horfi á fótboltaleiki á iðagrænum grasbölum landsins, meira að segja í Vestmannaeyjum. Eða horfa á EM í fótbolta. Það er yndislegt. Svo spilaði ég meiraðsegja nokkra leiki sjálfur með Vinningsliðinu sem átti frábært sumar og fór í úrslitakeppni. Nánar síðar.


JÚLÍ

Ó júlí, þegar sólin skín og fuglarnir syngja bíbí. Þetta er nú eiginlega besti mánuðurinn að jafnaði, ekki satt? Strandblak, grillpartý og gleði. Og ég keypti mér miða á þjóðhátíð í Eyjum og byrjaði að telja niður dagana þangað til sú mikla gleðihátíð myndi byrja. En júlí var líka mánuður leiðinda því ég þurfti að kveðja einn af mínum allra bestu vinum þegar Helgi tók sig til og fluttist búferlum til Ástralíu. Hann er einmitt væntanlegur aftur í sumar.


ÁGÚST

Gæslugaurar á þjóðhátíð sáu heldur betur til þess að hún yrði eftirminnileg þegar þeir tækluðu mig niður á fyrsta kvöldi svo að það sem eftir lifði hátíðar gat ég ekki hreyft vinstri löppina mína heldur þurfti hálfpartinn að draga hana á eftir mér. Mjög hressandi. Hátíðin var samt mjög hressandi sem sýnir bara hvað ég hef fáránlega gaman að því að skella mér þangað.

Er heim var komið gat ég legið uppi í sófa og horft á handboltalandsliðið vinna silfurverðlaun á ólympíuleikum sem var sannarlega frábært. Ef þeir hefðu ekki verið á leikunum hefðu þetta verið hræðilegir ólympíuleikar fyrir Íslendinga.

Fékk mér líka hamborgara í þynnku á Fjölnisvelli. Ég mun aldrei gleyma þessum hamborgara. Þetta er besti börger sem ég hef smakkað frá fæðingu.

Svo fluttu fleiri vinir í burtu, Ragnar og Maggi fóru til Kína og voru fram í desember bölvaðir.

Vinningsliðið féll úr leik í carlsberg-deildinni. Athygli vakti að liðið tapaði nánast öllum leikjum sem ég gat ekki spilað, en ég missti af úrslitakeppninni eftir stælana á þjóðhátíð.


SEPTEMBER

Hmm, ég var löngu búinn að ákveða að fara ekki í skóla þannig að ég fékk að vera lengur á mogganum. Annars man ég ekki mikið hvað var í gangi en held að maður hafi byrjað að fylgjast ansi vel með fréttum því það var allt að fara á annan endann.


OKTÓBER

Fékk ýmsar óskemmtilegar fréttir. Til dæmis að ég fengi ekki að vinna lengur á mogganum frá og með mánaðamótum, að öll fyrirtæki sem eitthvað er varið í væru að skera niður en ekki ráða fólk, að ég væri búinn að barna einhverja stelpu, og að Liverpool ætlaði að vera í toppbaráttunni á þessu tímabili. Ísland fór bara til fjandans og maður reyndi að hughreysta sig með nokkrum köldum annað slagið. Fór að velta því fyrir mér að fara í skóla eftir áramót.


NÓVEMBER

Keypti mér kort í ræktinni þar sem ég sá fram á að hafa ekkert að gera í nóvember. Var svo bara í einhverju rugli á milli þess sem ég tók session þar.


DESEMBER

Alla jafna næstbesti mánuður ársins á eftir júlí. Elska alveg þennan jólafíling, sérstaklega þegar 24. des er runninn upp og fólk fer að gíra sig niður. Þá einhvern veginn detta allir inná sama rólegheitafíling og ég er alltaf í. Ég fékk vinnu á póstinum við að útdeila gleði sem var bara mjög gaman, og upplifði magnað jólahlaðborðskvöld með flestum nánustu vinum. Skráði mig í meistaranám í fjármálaverkfræði og mæti því galvaskur í skólann á miðvikudaginn. Svo át maður bara á sig gat yfir jólin og upplifði magnað áramótakvöld, einnig með flestum þeim nánustu.Já, þetta var frábært ár að mörgu leyti þrátt fyrir þessa depurð í þjóðfélaginu á seinni hlutanum. Upp úr stendur að hafa klárað bessann á réttum tíma og svo þessi fáránlega skemmtilega útskriftarferð í kjölfarið.

Ég er samt alveg pottþéttur á því að 2009 verður ennþá betra.

En nú ætla ég að taka eina af mörgum hefðum sem fylgja jólafríinu hjá mér. Horfa á big fat quiz of the year 2008.

Takk fyrir samfylgdina á árinu og hafið það sem allra best um aldir alda.